Lög félagsins

1. grein
Félagið heitir Dansíþróttafélag Borgarfjarðar, skammstafað DÍB og er heimili þess og varnarþing aðsetur Borgarbraut 54, Borgarnesi. Félagið er aðili að UMSB og DSÍ og því háð lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.

 

2. grein
Markmið félagsins er að iðka dans sem íþrótt, efla áhuga á þeirri íþrótt og stuðla að bættri aðstöðu til iðkunar hennar.

 

3. grein
Félagið er öllum opið. Kjörgengi og atkvæðisrétt hafa þeir félagsmenn sem náð hafa 16 ára aldri og hafa fullgilt félagsskírteini, ath. ef félagsmaður hefur ekki náð 16 ára aldri fer forráðamaður með atkvæðið. Á aðal- og félagsfundum getur enginn félagsmaður farið með atkvæði fyrir utan sitt eigið.

 

4. grein
Árgjald félagsins skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Gjalddagi félagsgjalds er 1. janúar.

 

5. grein
Greiði félagsmaður ekki félagsgjöld fyrir 1. mars sama ár, skal setja viðkomandi á skrá yfir óhlutgenga félaga, er ekki hafa leyfi til að keppa fyrir hönd félagsins. Hafa ekki atkvæðisrétt á fundum þess og eru ekki kjörgengir í stjórn og nefndir.

 

6. grein
1. Stjórn DÍB fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda.
2. Stjórnin skal skipuð 5 fulltrúum, sem kosnir eru á aðalfundi. Einnig skulu kosnir tveir fulltrúar til vara. Fulltrúar skulu kosnir til tveggja ára í senn.
3. Kjósa skal formann sérstaklega en aðra stjórnarmenn skal kjósa sameiginlega. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.
4. Varamenn taka sæti í stjórn í þeirri röð, sem atkvæðamagn segir til um. Ef varamenn eru sjálfkjörnir taka þeir sæti í stjórn í þeirri röð sem þeir voru tilnefndir.
5. Stjórn er heimilt að ráða launað starfsfólk og skal gera sérstakan ráðningarsamning í hverju tilfelli.
6. Stjórn ákveður hver verður fulltrúi félagsins á sambandsþingi UMSB, hverju sinni.
7. Tveir skoðanarmen eru kosnir í eitt ár í senn.
8. Formaður er kosinn til eins árs og aðrir stjórnarmenn til tveggja ára.
Ákvæði til bráðbirgða. Á stofnfund skal kjósa tvo aðalmenn til tveggja ára og tvo aðalmenn til eins árs. Á aðalfundi 2011 skal kjósa um formann til eins árs og um tvo stjórnarmenn til tveggja ára. Hinir tveir sitja áfram til aðalfundar 2012.

 

7. grein
Stjórninni ber að gæta hagsmunum félagsins. Hún hefur umráð yfir eignum þess og boðar til funda. Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið, nema meirihluti stjórnar séu henni fylgjandi. Stjórnin getur vikið mönnum úr félaginu, álíti hún framkomu þeirra félaginu til vansa. Þó getur viðkomandi óskað þess að málið verði tekið fyrir á félagsfundi.

 

8. grein
Reikningar félagsins miðast við almanaksárið.

 

9. grein
Aðalfund skal halda ár hvert, eigi síðar en 15. apríl. Til aðalfundar skal boða, skriflega eða með tölvupósti, með minnst 14 daga fyrirvara og er hann lögmætur sé löglega til hans boða, án tillit til þess hversu margir mæta. Á aðalfundi skal kjósa fundarstjóra og fundarritara. Á aðalfundi skulu mál tekin fyrir í þeirri röð sem hér segir:
1. Skýrsla stjórnar
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar
3. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga, reikningar bornir undir atkvæði.
4. Lagðar fram tillögur að breytingum laga félagsins, ef um er að ræða.
5. Ákvörðun árgjalda.
6. Kosning formanns, stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna skv. 6. grein laga félagsins.
7. Önnur mál.
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum allra mála.

 

10. grein
Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi og þarf samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna til þess að lagabreyting sé lögleg. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins 14 dögum fyrir auglýstan aðalfund, þó ekki seinna en 1. mars og skal þeirra getið í fundarboði.

 

11. grein
Aukaaðalfund skal kalla saman með minnsta kosti 14 daga fyrirvara:
1. Eftir ákvörðun aðalfundar.
2. Ef ¾ hlutar stjórnar félagsins samþykkir það.
3. Þegar a.m.k. helmingur félaga óskar þess.
Á aukaaðalfundi verða tekin fyrir mál, sem tilgreind eru í fundarboði.

 

12. grein
Félagsfundi skal boða svo oft, sem stjórnin ákveður eða skrifleg ósk kemur frá eigi færri en 10 félagsmönnum. Félagsfundi skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara og skal fundarefnis getið í fundarboði. Á félagsfundum skal kjósa fundarstjóra og fundarritara, sem heldur fundargerð. Einfaldur meirihluti nægir til að samþykktir og reglugerðir verði löglegar. Heimilt er að hafa fundargerðir í þar til gerðum lausblaðamöppum.

 

13. grein
Tillögur um að leggja niður félag má aðeins taka fyrir á löglegum aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna. Verði félagið lagt niður renna eigur þess til UMSB.

 

14. grein
Um þau atriði, sem ekki eru tekin fram í lögum þessum, gilda ákvæði í lögum DSÍ og UMSB eftir því sem við á.

 

15. grein
Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt.

 

Samþykkt á stofnfundi félagsins 10. júní 2010.