Reglugerð um skiptingu á lottótekjum UMSB

1. Forsendur skiptingar á milli félaga

Til að hljóta úthlutun samkvæmt reglugerð þessari þurfa félög að skila lögboðnum skýrslum til ÍSÍ og UMFÍ. Síðasti skiladagur þeirra skýrslna er 15. apríl ár hvert.

2. Skipting Lottótekna

  1. 5 % í Afreksmannasjóð UMSB
  2. 45 % til UMSB
  3. 50 % til aðildarfélaga UMSB

3. Skipting lottótekna skv. c-lið 1. greinar milli aðildarfélaga og deilda

  1. 10 % jafnt á milli allra aðildarfélaga
  2. 10 % eftir fjölda mættra fulltrúa á þing UMSB
  3. 80 % eftir fjölda félaga.

4. Skerðingar

Sendi félag ekki fulltrúa á formannafund UMSB skerðir það úthlutunarfé þess félags um 25 % við næstu úthlutun en hefur ekki áhrif á úthlutanir eftir það. Skerðingar samkvæmt þessari grein renna til UMSB.

5. Úthlutun lottótekna

Tveir úthlutunardagar eru á hverju ári, 1. ágúst og 1. febrúar. Á hverjum úthlutunardegi verður öllu því lottófé úthlutað sem borist hefur frá síðustu úthlutun en UMSB skal þó halda þeim vöxtum sem safnast hafa á lóttófé milli úthlutunardaga.

 

Reglugerð um afreksmannasjóð UMSB

1.grein

Sjóðurinn heitir Afreksmannasjóður UMSB, stofnaður á 86. Sambandsþingi UMSB 13. mars 2008

2.grein

Tilgangur sjóðsins er að styrkja  afreksfólk, einstaklinga eða hópa innan UMSB sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni.

3.grein

Eingöngu félagar innan aðildarfélaga UMSB sem hafa jafnframt keppt fyrir sitt aðildarfélag á árinu, eða íbúar með lögheimili í sveitafélaginu á sambandssvæði UMSB geta hlotið styrk úr sjóðunum.

4.grein

Stjórn sjóðsins annast úthlutun úr sjóðnum. Stjórnin er skipuð þremur einstaklingum með þekkingu á íþróttum. Stjórnin skal kosin á sambandsþingi UMSB til tveggja ára. Einnig skal kjósa einn varamann til tveggja ára.  Stjórn er heimilt að kalla til varamann ef stjórnarmaður verður vanhæfur vegna persónulegra tengsla við mál.  Skal þá viðkomandi stjórnarmaður víkja sæti og varamaður taka sæti í hans stað.

5.grein

Vörslu sjóðsins og reikningshald annast gjaldkeri UMSB. Skoðunarmenn UMSB eru jafnframt skoðunarmenn reikninga sjóðsins.

6.grein

Tekjur sjóðsins eru:

Ákveðið hlutfall af óskiptum lottótekjum UMSB, samkvæmt reglugerð þar um.
Frjáls framlög og söfnunarfé.
Framlög sveitarfélaga á starfssvæði UMSB
Framlag UMSB
Tekjur af ávöxtun sjóðsins.

7.grein

Styrkveitingar:

a.Veita má styrk úr sjóðnum vegna þátttöku á eftirtöldum alþjóðamótum:

Ólympíuleikum
Heimsmeistaramótum
Evrópumeistaramótum
Norðurlandameistaramótum
Smáþjóðaleikum
Öðrum mótum sem sérsambönd viðurkenna sem alþjóðleg mót

b.Heimilt er að veita styrk úr sjóðnum ef viðkomandi hefur verið valinn í landslið.

c.Heimilt er að veita styrk til einstaklinga sem standa framarlega í sinni íþróttagrein samkvæmt styrkleikaflokkun sérsambanda.

8.grein

Styrkupphæðir  taka mið af fjármagnsgetu sjóðsins hverju sinni. Úthlutanir skulu þó ekki fara yfir 75%  af tekjum hvers árs.

9.grein

Úthlutun úr sjóðnum fer fram í mars ár hvert.  Umsóknir þurfa að berast fyrir 1 mars. undirritaðar af formanni viðkomandi aðildarfélags.  Með umsókn skal fylgja greinargerð frá keppanda um helstu afrek og hvernig fyrirhugað er að nýta styrkinn.  Heimilt er að úthluta úr sjóðnum á öðrum tíma en að framan greinir ef sérstaklega stendur á.

10.grein

Reglugerð þessi er samþykkt á sambandsþingi UMSB í félagsheimilinu Fannahlíð 12. mars 2016 og öðlast þegar gildi.  Með samþykkt þessari fellur úr gildi eldri reglugerð um afreksmannasjóð UMSB frá 2008.

Hér má nálgast eyðublað sem þarf að fylla út til að sækja um í sjóðinn. 

Greinargerð með reglugerð.

Haustið 2015 var skipaður þriggja manna vinnuhópur til að endurskoða reglugerð um afreksmannasjóð UMSB.  Hópurinn tók til starfa í nóvember 2015 og starfaði fram í febrúar 2016.  Á þessum tíma hélt hópurinn alls fjóra fundi.  Tillaga að nýrri reglugerð byggir að stórum hluta á eldri reglurgerð, en á henni hafa verið gerðar orðalagsbreytingar auk þess sem hún hefur verið aðlöguð þeim breytingum sem orðið hafa á starfsemi UMSB. 

Vinnuhópurinn beinir eftirfarandi tilmælum til stjórnar UMSB um vinnulag við umsýslu sjóðsins:

Mjög mikilvægt er að þeir sem kosnir eru í stjórn sjóðsins hafi þekkingu á íþróttum. Æskilegt er að bæði konur og karlar séu í stjórn sjóðsins.
Stjórn skal alla jafna afla sér upplýsinga hjá sérsambandi viðkomandi umsækjanda til að meta hver árangur hans er.
Ekki er nauðsynlegt að útlhluta öllum sjóðnum á hverju ári en þá er ætlast til að það sem eftir situr geti komi til úthlutunar næsta ár.

Sjóðurinn er afrekssjóður og því ekki hugsaður sem ferðasjóður þar sem UMSB úthlutar ferðastyrkjum á annan hátt.

Reglugerðin var samþykkt á 94.sambandsþingi UMSB 12.mars 2016. Endurskoðuð á formannafundi UMSB 5. október 2017. 

 

Reglugerð um verðlaunaafhendingar UMSB

Greinagerð: Tilgangur reglugerðar þessarar er að samræma verðlaunaveitingar á öllum mótum á vegum UMSB og að þær fylgi almennri verðlaunastefnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

1. Grein

Reglugerðin gildir um öll mót sem haldin eru innan UMSB og aðrar verðlaunaafhendingar eða viðurkenningar sambandsins og aðildarfélaga þess.

2. Grein

Verðlaunaveitingar skulu vera sem hér segir:

Börn 10 ára og yngri fái öll jafna viðurkenningu fyrir þátttöku sína, hvort sem það er verðlaunaskjal, þátttökupeningur eða önnur viðurkenning. Á þetta við um bæði einstaklinga sem og lið skipuð einstaklingum á þessum aldri.

11 ára og eldri: bæði lið sem og einstaklingar geti unnið til verðlauna

Hvorki eru veitt verðlaun né stórviðurkenningar fyrir afrek né árangur til yngri barna en þeirra sem verða 14 ára á almanaksárinu.

3. Grein

Verðlaunaveitingar á uppskeruhátíðum/ verðlaunahátíðum séu í anda þess sem fram kemur hér að framan.

4. Grein

Reglugerð þessi tekur gildi 28. nóvember 2011

 

Reglugerð um íþróttamann Borgarfjarðar

 

Í grein 6.3. í samstarfsamningi UMSB og Borgarbyggðar er kveðið á um að UMSB sjái um sameiginlegt kjör á íþróttamanni Borgarfjarðar. Reglugerð þessi gildir um kjörið og er gerð í samræmi við ákvæði í samningnum.

 

1. grein

Sambandsstjóri UMSB ber ábyrgð á kjöri Íþróttamanns Borgarfjarðar.

 

2. grein

Sem fyrst eftir áramót skal kjósa íþróttamann Borgarfjarðar. Kjörgengi hafa allir íþróttamenn sem náð hafa 14 ára aldri og hafa stundað íþrótt sína með aðildarfélagi UMSB eða átt lögheimili á sambandssvæði UMSB á því ári sem kjörið nær til. 

 

3. grein

Hverju aðildarfélagi og hverri íþróttadeild er skylt fyrir 2.janúar ár hvert að tilnefna 1 einstakling eða par. Tilnefningar og greinargerð á þar til gerðum eyðublöðum um árangur á árinu skal senda til þjónustumiðstöðvar UMSB. Stjórn UMSB og sveitastjórnir geta hver um sig ákveðið að tilnefna allt að 3 einstaklinga til viðbótar við þá er aðildafélög og deildir tilnefna bæði að eigin frumkvæði og eftir ábendingum frá almenningi. Auglýst skal sérstaklega eftir tilnefningum almennings. Tilnefningar ásamt greinargerðum skulu sendar rafrænt til þeirra er atkvæðisrétt hafa.

 

4. grein

Þeir sem hafa atkvæðarétt í kjörinu eru:

  1. Stjórnarfólk í UMSB hefur eitt atkvæði hvert, stjórnir aðildarfélaga og stjórnir deilda þeirra eitt atkvæði hver stjórn.
  2. Sérstök þriggja manna valnefnd sem skipuð er með eftirfarandi hætti, einn tilnefndur á sambandsþingi UMSB, einn tilnefndur af Borgarbyggð og einn af stjórn UMSB. Fulltrúar UMSB skulu ekki eiga sæti í stjórn sambandsins.

Atkvæði greidd samkvæmt lið a gilda 50% á móti atkvæðum greiddum samkvæmt lið b.

 

5. grein

Atkvæði greiðast þannig að sá sem lendir í fyrsta sæti fær 10 stig, sá sem lendir í öðru sæti fær 9 stig, sá sem lendir í þriðja sæti fær 8 stig og svo framvegis. Sá íþróttamaður sem fær flest atkvæði samanlagt frá þeim sem greiða atkvæði samkvæmt lið a hlýtur 10, sá sem fær næstflest fær 9 stig o.s.fv..

 

Sá íþróttamaður sem valinn er í fyrsta sæti samkvæmt lið b hlýtur 10 stig, sá næsti hlýtur 9 stig o.s.fv.

 

Leggja skal saman stigafjölda íþróttamanna samkvæmt lið a og b og sá íþróttamaður sem flest atkvæði fær samanlagt skal útnefnast íþróttamaður Borgarfjarðar. Standi tveir íþróttamenn upp með jafn mörg atkvæði skal val samkvæmt lið a ráða úrslitum. Sá íþróttamaður sem flest stig fær samkvæmt þessari aðferð hlýtur sæmdarheitið “Íþróttamaður Borgarfjarðar”.

 

6. grein

Íþróttamaður Borgarfjarðar fær afhentan farandbikar til varðveislu í eitt ár. Letra skal á bikarinn nafn þess sem hann hlýtur og ártal. Bikarinn vinnst aldrei til eignar en þegar hann hefur verið afhentur í 10 ár skal hann tekinn úr umferð og skal eftir það geymdur í bikarsafni UMSB. Auk farandbikarsins skal Íþróttamaður Borgarfjarðar fá afhentan eignabikar og skal letra á hann nafn þess sem hann hlýtur og ártal.

 

7. grein

Fimm fyrstu í kjöri íþróttamanns Borgarfjarðar fá afhenta gripi til eignar til minningar um kjör sitt. Í áletrun skal koma fram röð þeirra í kjörinu og ártal. Aðrir sem tilnefndir eru skulu fá sérstaka viðurkenningu því til staðfestingar. Þegar kjöri íþróttamanns Borgarfjarðar er lýst skal skýra frá nöfnum og stigafjölda fimm stigahæstu einstaklinganna og nöfnum allra annarra sem stig hljóta í kosningunni í stafrófsröð en án stigafjölda

 

8. grein

Viðurkenningarnar skulu afhentar sem fyrst eftir áramót í samvinnu UMSB og Borgarbyggðar