Gott þing Ungmennasambands Borgarfjarðar haldið í Brautartungu með kjötsúpu og pönnukökkum.

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

97. sambandsþing UMSB var haldið miðvikudaginn 6. mars í Brautartungu í Lundareykjardal. Ungmennafélagið Dagrenning sá um framkvæmd þingsins og tók vel á móti þingfulltrúum með góðum veitingum. Dagskrá þingsins var hefðbundin og í samræmi við lög sambandsins.

Góðir gestir komu á þingið og ávörpuðu fundarmenn. Gunnlaugur Júlíusson, sveitarstjóri, kom fyrir hönd Borgarbyggðar, Hafsteinn Pálsson fyrir ÍSÍ og Guðmundur Sigurbersson fyrir UMFÍ.

Guðmundur heiðraði nokkra sjálfboðaliða UMSB. Starfsmerki UMFÍ fengu að þessu sinni Ásgeir Ásgeirsson, Guðríður Ebba Pálsdóttir og Hrönn Jónsdóttir. Guðmundur Þorsteinsson á Skálpastöðum fékk gullmerki UMFÍ fyrir sitt starf í áranna rás fyrir UMF. Dagrenningu. Guðmundur var þrisvar formaður félagsins á tímabilinu 1964-2011. Einnig var hann ritari stjórnar UMSB 1961-1965. UMSB færir þessum öflugu sjálfboðaliðum bestu þakkir fyrir góð störf.

   

 

 

Guðmundur Sigurbergsson UMFÍ og Guðmundur Þorsteinsson gullhafi UMFÍ

 

 

 

     

 

      

 

Þingstörf gengu vel enda reyndir ungmennafélagar sem stýrðu þinginu: Rúnar Hálfdánarson stýrði þinginu og ritarar voru systkinin Bjarnheiður Jónsdóttir og Orri Jónson. Þingfulltrúar voru ánægðir að sjá að rekstur UMSB skilaði hagnaði. Mikilvægt er að viðhalda áfram góðum rekstri sambandsins. Samstaða var um þær tillögur sem afgreiddar voru á þinginu og fundarmenn voru sáttir með gott þing. Sveitarfélögum innan UMSB var sérstaklega þakkaður stuðningurinn og samstarfið á liðnu ári. Stuðningur sem þessi gerir UMSB kleift að halda úti öflugu starfi. Alltaf má gera betur og var samþykkt ályktun með áskorun til Borgarbyggðar um að starfsstyrkir verða hækkaðir. Einnig lá tillaga fyrir þingið þar sem lagt er til að endurvekja íþróttahátíð UMSB sem haldin var hér á árum áður. Hugsunin er að í boði verði þær greinar sem stundaðar eru innan UMSB. Hægt er að hugsa þetta sem „Unglingalandsmót UMSB“.

Í ársskýrslu UMSB má sá samantekt á þátttöku barna og unglinga í íþróttum og tómstundum innan Borgarbyggðar. Gaman er að sjá hversu margir eru í skipulögðu starfi sem segir okkur að aðildarfélög UMSB eru að gera góða hluti.

Á þinginu var kosið í nýja stjórn UMSB. María Júlía Jónsdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs en hún hefur verið sambandsstjóri í eitt ár og er henni þakkað fyrir góð störf sem og þeim sem fóru úr stjórn en það eru þær Kristín Gunnarsdóttir sem var ritari og Anna Dís Þórarinsdóttir sem var meðstjórnandi.

Ný stjórn UMSB skipar því nú: Bragi Þór Svavarsson, sambandsstjóri, Guðrún Þórðardóttir, vara sambandsstjóri, Hafdís Ósk Jónsdóttir, vara varasambandsstjóri, Sigríður Bjarnadóttir, gjaldkeri, Bjarni Traustason, ritari, Rakel Guðjónsdóttir, meðstjórnandi, Ástríður Guðmundsdóttir, vara ritari og Eyjólfur Kristinn Örnólfsson, varagjaldkeri.

 

Kristín Gunnarsdóttir fráfarandi ritari UMSB, María Júlía Jónsdóttir fráfarandi sambandsstjóri UMSB, Sigríður Bjarnadóttir gjaldkeri UMSB, Rakel Guðjónsdóttir nýr meðstjórnandi UMSB, Bragi Þór Svavarsson nýr sambandsstjóri UMSB og Bjarni Þór Traustasson nýr ritari UMSB. 

 

Framundan eru fjölbreytt, mikilvæg og skemmtileg verkefni innan UMSB. Meðal helstu verkefna næstu vikur og mánuði eru Sýnum krakter, Hreyfivika UMFÍ, útfærsla á íþróttahátíð, undirbúningur þátttöku UMSB á Landsmót UMFÍ 50+ ásamt því að undirbúa sumarið. Því er óhætt að segja að nóg sé um að vera hjá hinu 107 ára félagi UMSB.

Deildu þessari frétt