100 ára saga Ungmennasambands Borgarfjarðar

Guðmundur Sigurðsson ritar

Ungmennasamband Borgarfjarðar 1912 –2012

Upphafið

Upphaf stofnunar Ungmennasambands Borgarfjarðar  má rekja til þess að á bændanámskeiði  á Hvanneyri  í febrúar 1912 hittist hópur ungra manna, sem margir hverjir voru leiðandi félagar í nýlega stofnuðum ungmennafélögum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Þar var til umræðu að stofna samband ungmennafélaga á svæðinu. Ungmennafélag Íslands var stofnað árið 1907 og mörg félög stofnuð í kjölfar þess. Ungmennafélag Reykdæla var stofnað 1908 og var því elsta ungmennafélagið innan Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Föstudagskvöldið 2. febrúar 1912 var haldinn undirbúningsfundur á Hvanneyri, þar sem félagar úr sjö ungmennafélögum í héraðinu voru staddir og var ákveðið að efna til stofnfundar sambands ungmennafélaganna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Stofnfundur var haldinn að Hvítárbakka 26. apríl 1912 og mættu eftirtaldir fulltrúar:

Frá Umf. Reykdæla

Andrés Eyjólfsson, Síðumúla

Jón Hannesson, Deildartungu

Frá Umf. Dagrenning:

Björn Guðmundsson, Eyri

Þorsteinn Tómasson, Skarði

Frá Umf. Íslendingi

Páll Zóphoníasson, Hvanneyri

Vigfús Guðmundsson, Hvanneyri

Ingimar Jóhannesson, Hvaneyri

Frá Umf. Hauk

Sigurður Sigurðsson, Lambhaga

Árni Böðvarsson, Vogatungu

Frá Umf. Björn Hítdælakappi

Magnús Sigurðsson, Kálfalæk.

Frá Umf. Egill Skallagrímsson

Guðmundur Þorvaldsson Litlu-Brekku

Oddur Jónsson, Álftanesi

Frá Umf. Baula

Sverrir Gíslason, Stafholti

Á þessum fundi voru samþykkt  lög fyrir sambandið og kosin stjórn, þó hvorutveggja til bráðabirgða. Lögin voru síðan lögð fyrir hvert félag. Um vorið tilkynntu öll þau félög sem fulltrúa áttu á fundinum þátttöku sína í UMSB og Umf. Brúin að auki. Fyrsta stjórn skipuðu þeir Páll Zóphoníasson, Hvanneyri,  formaður, og meðstjórnendur þeir Andrés Eyjólfsson, Síðumúla  og Jón Hannesson, Deildartungu. Allir þessir menn áttu síðan eftir að verða áhrifamenn í þjóðfélaginu. Fyrsta sambandsþingið var haldið á Hvanneyri í febrúar 1913.

Skóla- og framfaramál
Á fystu árum UMSB voru skólamál mikið rædd á sambandsþingum og lagði UMSB mikla áherslu á aukna skólagöngu fyrir ungt fólk í héraðinu. UMSB styrkti alla tíð alþýðuskólann á Hvítárbakka með  ráðum og dáð á meðan hann starfaði. Á sambandsþingi  UMSB 1928 urðu miklar umræður um skólamál sem enduðu með samþykkt tillagna sem mörkuðu skýrt þá stefnu að stofnaður skyldi Héraðsskóli í Reykholti í stað Hvítárbakkaskóla. UMSB vann einnig að því að Húsmæðraskólinn á Varmalandi yrði stofnaður  og styrkti skólabygginguna fjárhagslega. Samþykkt var á sambandsþingi 1935 áskorun til skólanefnda í héraðinu að taka upp leikfimikennslu í öllum barnaskólum. Var þeirri ályktum fylgt eftir.

Árið 1938 gekkst UMSB fyrir stofnun Skógræktarfélags Borgarfjarðar. Á þeim árum  var mikil vakning meðal ungmennafélaga að koma upp skógarreitum, má þar nefna reit Umf. Dagrenningar að Háafelli í Skorradal og skógarreit Umf. Reykdæla við Logaland. Á sambandsþingi 1939 var ályktað um virkjanamál, þar sem bent var á Andakílsárfossa sem álitlegan virkjunarstað. Á sambandsþingi 1962 staðfesti UMSB aðild að byggðasafni í héraðinu ásamt fleiri félagasamtökum. Á sambandsþingi 1963 voru samþykktar tillögur um merkingar vega og sveitabýla og hafði UMSB frumkvæði um framkvæmd.
UMSB  gaf út blaðið Vor sem kom út árin 1927-1933. Friðrik Þorvaldsson þá sambandsstjóri ritstýrði því.  Tímaritið Svanir var gefið út árið 1939, en í því birtust greinar, sögur og ljóð. Átti það að verða ársrit UMSB en kom aðeins út í þetta eina sinn. Árið 1987 hóf UMSB útgáfu á héraðsfréttablaðinu Borgfirðingi í samvinnu við verkalýðsfélagið í Borgarnesi. Ingimundur Ingimundarson var fyrsti ritstjóri þess. UMSB gaf blaðið út til ársins 1996 , en þá var það selt. Frá árinu 1967  hefur UMSB gefið út ársskýrslu þar sem starfsemi UMSB og aðildarfélaga þess eru gerð skil. Árið 1968 stóð UMSB fyrir landgræðsluátaki á Uxahryggjaleið.  Flest ár eftir það var unnið að landgræðslumálum víða um héraðið allt til ársins 1981.

Íþróttir
Strax á fyrstu árum UMSB urðu íþróttaiðkun og íþróttamótin aðalviðfangsefnið í starfi þess. Fyrsta íþróttamót UMSB var haldið á Hvítárbakka í ágúst 1913.  Þar var  keppt í glímu, sundi og 100 og 500 metra hlaupum. Synt var í Hvítá og tóku 20 piltar þátt í 200 m sundi og  þrjár stúlkur syntu 100 m.  Flokkakeppni var í sundi og glímu og sigruðu Reykdælir. Íþróttanámskeið  var haldið á Hvítárbakka árið 1915 og stóð það í 14 daga. Kennt var sund, glíma og leikfimi. Keppt var í ýmsum greinum á íþróttamótunum, meðal annars í kappslætti,  kappreiðum og reiptogi. Á héraðsmóti 1939 var fyrst keppt í handknattleik kvenna, sem varð síðan fastur liður á héraðsmótunum ásamt knattspyrnu. Á árunum upp úr 1930 gátu Borgfirðingar sér góðan orðstír í keppni utan héraðs, sérstaklega í víðavangshlaupum.

Héraðsmótin fóru fram  fyrstu árin á Hvítárbakka en 1919 fluttust þau að Þjóðólfsholti á bökkum Hvítár í landi Ferjukots og var keppt þar allt fram til 1961. Þar var keppt í sundi í Norðurá allt til ársins 1945 þegar sundmótin voru flutt í Hreppslaug. Sumarið 1965  var fyrst haldið frjálsíþróttamót á  Varmalandsvelli. Við það batnaði aðstaða  til íþróttaiðkunar mjög. Síðar fluttust íþróttamótin í Borgarnes, fyrst á malarvöll, en fyrir landsmót UMFÍ í Borgarnesi 1997 var byggður fullkominn frjálsíþrótta- og fótboltavöllur ásamt myndarlegri útisundlaug. Stórbætti þetta alla aðstöðu  fyrir íþróttafólk UMSB. Héraðsmótin í sundi voru lengi haldin í Hreppslaug, eftir að hætt var að synda í Norðurá, síðan var farið að keppa í sundlauginni að Varmalandi. Seinni árin hafa sundmótin farið fram á Kleppjárnsreykjum og í Borgarnesi.

UMSB starfrækti sumarbúðir fyrir unglinga að Varmalandi 1965 og voru þær fastur liður í starfsemi UMSB um árabil. Síðar voru þær haldnar á árunum 1983 -1989.  Til ársins 1967 hafði stjórnin annast alla framkvæmdarstjórn sjálf og ekki haft fastan starfsmann, en þá var fyrsti framkvæmdarstjóri UMSB ráðinn, Höskuldur Goði Karlsson. Breytti þetta miklu um starfsemi  UMSB. Á næstu árum varð allmikil gróska í íþróttastarfi UMSB en árin þar á undan hafði verið í því lægð.
Undir forustu Sigurðar R. Guðmundssonar á Leirá og stjórn Vilhjálms Einarssonar sem þá var sambandsstjóri, er komið á unglingamóti á Leirá 1968, svokölluðum vorleikum sem  haldnir hafa verið fram til þessa, en eru nú orðnir hluti af héraðsmóti UMSB og haldnir í Borgarnesi. Án efa hafa vorleikarnir haft mjög jákvæð áhrif á allt íþróttastarf hjá UMSB.

Lið frá UMSB  tók þátt í Íslandsmeistaramótinu í knattspyrnu, 3. deild, í fyrsta sinn árið 1969. Árið eftir var lið frá UMSB með í bikarkeppni K.S.Í.  Knattspyrnulið  frá UMSB hafa tekið þátt í allmörgum landsmótum UMFÍ. Íþróttafólk frá UMSB hefur tekið þátt í landsmótum UMFÍ frá fyrstu tíð. Árið 1961 fór fríður flokkur íþróttamanna norður í Lauga í Suður Þingeyjarsýslu. Þar sýndi UMSB hópurinn  slíka framkomu og umgengni að hópurinn var sæmdur háttprýðisverðlaununum  mótsins. Kom það í hlut Ragnars Olgeirssonar þáverandi sambandsstjóra  að taka við verðlaununum. UMSB hefur alla tíð haft metnað til að senda föngulegan hóp á landsmót UMFÍ og unglingalandsmótin og hefur oft náð góðum árangri.

Eftir tilkomu glæsilegrar íþróttaaðstöðu í Borgarnesi hefur UMSB tekið að sér framkvæmd nokkurra  stórmóta.  Fyrir utan Landsmótið 1997 má nefna Meistarmót Íslands 15- 22 ára  árið 1998,  Meistaramót Íslands 12-14 ára og Öldungamót Íslands   bæði árið 1999. Aldursflokkameistaramót  Íslands í sundi  árið 1999. Norðurlandamót unglinga 20 ára og yngri var haldið í Borgarnesi  árið 2000. Það mót hafði aldrei verið haldið á Íslandi áður og var jafnframt fyrsta alþjóðafrjálsíþróttamót sem fram fór utan höfuborgarsvæðisins. Mótsstjóri var Ingveldur Ingibergsdóttir, aðrir í mótsstjórn frá UMSB voru: Rósa Marinósdóttir, Indriði Jósafatsson, Þuríður Jóhannsdóttir og Ásdís Helga Bjarnadóttir þá sambandsstjóri. Starfsmenn mótsins voru Veronika Sigurvinsdóttir og Íris Grönfeldt.

Meistaramót Íslands 15 ára og yngri fór fram árið 2002. Árið 2003 sá UMSB um Meistaramót Íslands aðalhluta og Víðavangshlaup Íslands 2011 sem fram fór á Hvanneyri. Öll þessi mót kröfðust mikillar vinnu, komust félagar UMSB vel frá þeim og hlutu lof fyrir gott starf. Í heild gáfu þessi mót UMSB góðar tekjur.

Íris Grönfeldt var héraðsþjálfari frá haustinu 1989 til 2006 og bar hitann og þungann af úrvalsliði UMSB í frjálsum íþróttum, jafnframt því  að halda úti héraðsæfingum fyrir alla aldurshópa. Ekki er hægt að ræða íþróttamál í héraðinu án þess að nefna Ingimund Ingimundarsson, en hann var um árabil þjálfari í sundi og frjálsum íþróttum bæði í launuðu og ólaunuðu starfi, einnig sinnti hann þjálfun í borðtennis og átti UMSB öflugt borðtennis lið um tíma. Margir aðrir hafa komið að þjálfun íþróttafólks UMSB. Þar má nefna fyrsta framkvæmdastjóra sambandsins, Höskuld Goða Karlsson og síðan Matthías Ásgeirsson sem var framkvæmdastjóri eftir Höskuld. Ýmsir hafa komið tímabundið að þjálfun íþróttafólks UMSB.

Héraðsmót í sundi og frjálsum íþróttum hafa verið haldin árlega og mörg önnur mót innan héraðs. Um tíma var haldið héraðsmót í borðtennis og knattspyrnu en ekki nú á seinni árum. Héraðsmót í hestaíþróttum hefir verið haldið tvisvar. Íþróttafólk innan raða UMSB hefur tekið þátt í mörgum mótum á landsvísu og hlotið marga Íslandsmeistaratitla og keppt á erlendri grundu og ber hæst Ólympíuleikafarana; Einar Vilhjámsson,  Jón Diðriksson,  Írisi Grönfeldt og Einar Trausta Sveinsson. UMSB hefur staðið fyrir íþróttaferðum til útlanda og æfingabúðum erlendis í nokkur skipti.

Bjarni Bjarnason gaf farandbikar til Helgusunds, en það er kappsund úr Geirshólma í Hvalfirði til Helguvíkur í landi Þyrils. Aðeins einu sinni hefur þessi keppni verið háð, árið 1992, og var einn keppandi, Kristinn Einarsson. Þetta var merkt framtak en mikinn viðbúnað þurfti til þess að af sundinu gæti orðið og hefur stjórn UMSB ekki treyst sér til að standa að þessari keppni aftur.

Borgarfjarðarhlaupi var komið á árið 2004 og fór hlaupið þrisvar fram. Hlaupið var frá Hvanneyri og voru vegalengdir 25 km, 10 km og 4.4 km. Ágæt þátttaka var í hlaupinu og komu hlauparar víða að. Frjálsíþróttaskóli UMFÍ í samvinnu við FRÍ hefur verið haldinn í Borgarnesi síðan 2008 og hefur UMSB séð um framkvæmd. Fjölmargir unglingar hafa tekið þátt í skólanum. Bjarni Þór Traustason  íþróttakennari hefur verið aðalþjálfari á námskeiðunum.

Landsmót á vegum UMSB
Árið 1943 var 5. Landsmót UMFÍ haldið á Hvanneyri og hafði UMSB að flestu leyti veg og vanda af framkvæmd mótsins. Þar var byggð útisundlaug 25 m löng, veggir voru hlaðnir úr sniddu en tréþil í endum, laugin var köld.  Íþróttavöllur var  gerður á svonefndri Fit skammt frá bökkum Hvítár. Fitin er rennislétt og hinn ákjósalegasti íþróttavöllur. Á fjórða þúsund gesta sótti landsmótið. Mótið gekk vel, þótt veður væri ekki sem best, nokkur kuldagjóstur. Þótti undirbúningur og framkvæmd mótsins borgfirskum ungmennafélögum til sóma. Stjórn UMSB annaðist framkvæmdastjórn en í stjórn voru þá Þorgils Guðmundsson, Reykholti, sambandsstjóri, Ingimundur Ásgeirsson, Hæli og Ásmundur Jónsson, Geirshlíðarkoti.

Árið 1975 kom í hlut Borgfirðinga að sjá um 15. Landsmót UMFÍ. Í fyrstu stóð til að halda það á Varmalandi og Húsafelli og jafnvel víðar í héraðinu, en niðurstaðan varð að það var haldið á Akranesi í samvinnu við við UMF Skipaskaga. Sigurður R. Guðmundsson á Leirá var formaður landsmótsnefndar og Ingólfur Steindórsson framkvændastjóri. Aðrir í framkvæmdanefnd voru Bjarni Sigurðsson og Sigmundur Hermundsson frá UMSB, Garðar Óskarsson og Ólafur Þórðarson frá USK. Að hálfu UMFÍ komu Pálmi Gíslason og Sigurður Geirdal. Hjörtur Þórarinsson var þá sambandsstjóri UMSB.  Mótið tókst í alla staði vel og fór vel fram. Eitt glæsilegasta landsmót til þess tíma, en aðsókn var ekki mikil og varð mótið UMSB  fjárhagslega erfitt.

22. Landsmót UMFÍ var haldið í Borgarnesi 1997. Þetta var  eitt stærsta verkefni sem UMSB hefur ráðist í og hófst undirbúningur árið 1994.  Formaður landsmótsnefndar var Ingimundur Ingimundarson og framkvæmdarstjóri Kristmar Ólafsson. Aðrir í framkvæmdastjórn voru Rósa Marinósdóttir, Gísli V Halldórsson, Einar Ole Pedersen, þá sambandsstjóri UMSB, Birgir Þórðarson og Einar K Jónsson, öll frá UMSB. Síðar hættu Einar K. Jónsson og Birgir Þórðarson og komu Birgir Karlsson og Hálfdán Þórisson í þeirra stað. Frá UMFÍ kom Þórir Jónsson. Bæjarstjórn Borgarness sýndi málinu strax áhuga og fylgdi honum eftir. Byggður var upp fullkominn frjálsíþróttavöllur og gerð útisundlaug. Vel tókst með þessar framkvæmdir og er aðstaðan hin glæsilegasta. Hefur hún verið íþróttalífi í héraðinu mikil lyftistöng. Mótið tókst mjög vel og var gerður góður rómur að því hvað varðaði skipulag allt, sérstaklega þótti skipulag starfsmannamála gott. Mótið skilaði hagnaði  til UMSB.

Árið 2010 sá UMSB um 13. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Metþátttaka var, keppendur voru 1650 og gestir á mótinu milli 10 – 12 þúsund.  Keppt var í tíu greinum. Samningur var gerður milli UMSB og Borgarbyggðar þar sem Borgarbyggð lagði til mannvirki og tjaldstæði. Formaður Unglingalandsmótsnefndar var Björn Bjarki Þorsteinsson fulltrúi Borgarbyggðar. Aðrir í landsmótsnefnd voru Álfheiður  Marinósdóttir,  Ásdís Helga Bjarnadóttir, Friðrik Aspelund, sambandsstjóri UMSB, Guðmundur Sigurðsson og Veronika Sigurvinsdóttir, öll frá UMSB. Sæmundur Runólfsson og Garðar Svansson frá UMFÍ. Verkefnisstjóri var Margrét Baldursdóttir og framkvæmdastjóri Ómar Bragi Stefánsson frá UMFÍ. Mótið tókst í alla staði vel og er þetta fjölmennasta íþróttamót sem haldið hefur verið á vegum UMSB og skilaði hagnaði til UMSB og aðildarfélaga þess.

Íþróttamaður Borgarfjarðar
Íþróttamaður Borgarfjarðar var fyrst kjörinn árið 1980.
Eftirtalin hafa hlotið titilinn Íþróttamaður Borgarfjarðar:
Jón Diðriksson, frjálsar íþróttir 1980
Einar Vilhjálmsson, frjálsar íþróttir,  1981. 1983,1984
Íris Grönfeldt. frjálsar íþróttir, 1982. 1985.1986, 1987, 1988. 1991
Margrét Brynjólfsdóttir , frjálsar íþróttir 1989
Bergþór Ólason. frjálsar íþróttir ,1990
Ingi Valur Þorgeirsson . lyftingar, 1992. 1993
Sigmar Gunnarsson,  frjálsar íþróttir, 1994, 1995, 1996
Halldóra Jónasdóttir,  frjálsar íþróttir, 1997
Einar Trausti Sveinsson, frjálsar íþróttir, 1998. 2000
Kristín Þórhallsdóttir, frjálsar íþróttir,  1999
Gauti Jóhannesson.  frjálsar íþróttir ,2001. 2004, 2005
Sigurkarl Gústavsson, frjálsar íþróttir,  2002, 2003
Tinna Kristín Finnbogadóttir ,skák, 2006
Sigurður Þórarinsson, körfubolti, 2007
Bjarki Pétursson, golf,  2008, 2010, 2011
Trausti Eiríksson, körfubolti, 2009

Skák
Skákáhugi hefur verið töluverður innan UMSB gegnum tíðina og hafa verið haldin skákmót á þess vegum. Árið 1968 var skákkeppni innan sambandsins og á árunum 1972-1975 voru haldnar sveitakeppnir. Á árunum 1972 og 1974 var stofnanakeppni og firmakeppni og kom Guðmundur Sigurjónsson stórmeistari í heimsókn og tefldi fjöltefli. Á árunum 2003-2006 voru haldin innanfélagsmót og sá Helgi Ólafsson stórmeistari um skákæfingar innan UMSB.

Húsafellsmótin
Á þinginu 1967 var samþykkt að heimila stjórninni að gangast fyrir útihátíð. Farið var af stað strax um vorið að undirbúa útihátíð að Húsafelli sem haldin var um verslunarmannahelgina. Vandað var til skemmtiatriða og tókst samkoman vel. Mikil vinna var á höndum ungmennafélaga til að sem best tækist. Lagður var vegur um samkomusvæðið, reistir danspallar, smíðaðir söluskúrar og kamarhús, settur upp íþróttavöllur og byggt leiksvið. Alls komu  um 7000 manns á hátíðina. Á næstu árum voru einnig útihátíðir og árið 1969 er talið að yfir 20000 manns hafi sótt hátíðina. Síðasta útihátíðin var haldin 1976.  Skipulag, undirbúningur og framkvæmd þessara móta hvíldi á herðum stjórnarmanna UMSB.  Árið 1987 var Húsafellsmótið endurvakið, en þá á öðrum stað í landi Húsafells. Ekki varð af frekari útihátíðum. Húsafellshátíðirnar gáfu mjög góðar tekjur framan af, en síðari árin varð tap á þeim.  Nokkur ár eftir Húsafellsmótin hélt UMSB dansleiki um verslunarmannahelgina.

Aðrar skemmtanir
UMSB tók þátt í Borgfirðingavöku 1974 í samstarfi við önnur félagasamtök í héraðinu. Ekki voru þessar samkomur árlega, síðast var haldin Borgfirðingavaka 1989. Árið 2001 var staðið að svokölluðu Vorblóti, þar sem listamenn úr héraðinu komu saman í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og skemmtu til styrktar ferð á Landsmót UMFÍ á Egilsstöðum seinna um sumarið. Árið 1969 var háð spurningakeppni milli sambandsaðila og einnig 1981. Árið 1984 var spurningakeppni milli sveitarstjórnarmanna og 1991 milli aðildarfélaga. Árið 2003 var aftur farið af stað með spurningakeppni og þá á milli fyrirtækja og félaga í héraðinu. Slík keppni fór einnig fram 2004 og 2005.

Húsnæði UMSB
Skrifstofu- og fundaraðstaða UMSB var í mörg ár á heimili sambandsstjóra þar sem hann geymdi þau gögn sem fylgdu starfinu. Í árslok 1982 fékk UMSB til afnota herbergi í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi.  Síðar var innréttuð skrifstofa í bílskúrnum hjá Ingimundi Ingimundarsyni árið 1986, þegar hann tók við framkvæmdastjórn UMSB. Árið 1988 var keypt núverandi húsnæði að Borgarbraut 61. Við það stórbatnaði öll aðstaða stjórnar og starfsmanna.

Fjáraflanir og styrktaraðilar.
Húsafellsmótin hafa án efa verið  öflugasta  fjáröflunin sem UMSB hefur staðið fyrir,  þau  gáfu góðar tekjur. Þá hafa stærri íþróttamót sem UMSB hefur haldið gefið nokkrar tekjur eins spurningakeppir og aðrar skemmtanir. Meðal þeirra fjáraflana sem unnið hefur verið var útgáfa þjónustualmanaks UMSB, dagatals í A3 formi með handhægum upplýsingum um símanúmer fyrirtækja og stofnana í héraðinu. Jólamerki voru árlega gefin út með myndum af öllum kirkjum í héraðinu. Myndirnar teiknaði Guðmundur Sigurðsson  fv. skólastjóri í Borgarnesi. Þá hefur UMSB tekið að sér  ýmis verkefni meðal annars að að einangra hitaveitulögn  HAB. Seinni árin hefur UMSB gefið út síma- og þjónustuskrá fyrir starfssvæði UMSB. Mörg fyrirtæki og einstaklingar hafa stutt UMSB fjárhagslega gegnum árin, Sparisjóður Mýrasýslu var um árabil helsti styrktaraðili sambandsins ásamt sveitarfélögum á starfssvæðinu.

Sparisjóðshlaupið
Á árinu 1989 hófst samstarf  milli Ungmennasambands Borgarfjarðar og Sparisjóðs Mýrasýslu um Sparisjóðshlaupið að frumkvæði  Bjarna Bjarnasonar, sem  gaf veglegan farandbikar  sem sigursveitin hlaut. Sparisjóðurinn var aðal styrktaraðili, kostaði  hlaupið og bauð öllum þátttakendum að loknu hlaupi veitingar á Hótelinu í Borgarnesi. Fyrstu árin var hlaupinn 30 km hringur frá Borgarnesi um Borgarhrepp, þaðan um Andakíl og síðan yfir Borgarfjarðarbrú til Borgarness. Alls voru tíu hlauparar í hverri sveit blönduð konum og körlum.  Seinni árin var hlaupinn hringur út frá Sparisjóðnum í Borgarnesi. Síðasta Sparisjóðshlaupið fór fram 2007.

Kvöldgöngur UMSB og fjölskyldan á fjallið
Árið 1998 komst á samstarf milli Skógræktarfélags Borgarfjarðar og UMSB um skógargöngur á afmælisári Skógræktarfélags Borgarfjarðar. UMSB hélt síðan áfram að vera með kvöldgöngur og hefur síðan verið gengið vítt og breytt um héraðið annað hvort fimmtudagskvöld yfir sumarið. UMSB hefur tekið þátt í verkefni UMFÍ “Fjölskyldan á fjallið” öll þau ár sem UMFÍ hefur staðið fyrir þessu verkefni.

Aðildarfélög
Í upphafi voru einungis ungmennafélög aðilar að UMSB. Árið 1974 gekk Golfklúbbur Borgarness í sambandið. Árið 1988 samþykkti ÍSÍ reglur um aðild hestamannafélaga að ÍSÍ  og árið 1990 gengu  íþróttadeildir hestamannafélaganna Skugga og Faxa í UMSB. Íþróttafélagið Kveldúlfur var stofnað 1992 og gekk þá í UMSB, árið 2010 gekk U.Í.F Hvalfjarðarsveitar í UMSB og 2011 Dansíþróttafélag Borgarfjarðar.

Eftirtalin aðildarfélög eru nú innan UMSB: Dansíþróttafélag Borgarfjarðar, Golfklúbbur Borgarness, Golfklúbburinn Glanni, Golfklúbburinn Skrifla, Hestamannafélagið Faxi, Hestamannafélagið Skuggi, Umf. Dagrenning, Umf. Egill Skallagrímsson, U.Í.F Hvalfjarðarsveitar, Umf. Íslendingur, Umf. Reykdæla, Umf. Skallagrímur og Umf. Stafholtstungna.

Helstu heimildir sem ég hef stuðst við eru afmælisrit og ársskýrslur UMSB. Ég hef mikið stuðst við greinar Jóns A Guðmundssonar frá Innra Hólmi sem rakti sögu UMSB fyrstu 60 árin. Það er ljóst að hér hefur verið stiklað á stóru og ekki getið allra viðburða í sögu UMSB né þeirra fjölmörgu sem borið hafa uppi starf UMSB, hver á sínum tíma. Þeirra verður vonandi minnst þegar ráðist verður í að skrifa 100 ára sögu UMSB.

Hvanneyri í maí 2012

Heimildir:
Jón M. Ívarsson. 2007. Vormenn Íslands: Ungmennafélag Íslands.
Ungmennasamband Borgarfjarðar 50 ára 1962.: UMSB
Ungmennasamband Borgarfjarðar 60 ára 1972: UMSB
Ungmennasamband Borgarfjarðar 1912-1982. 1982: UMSB
Ungmennasamband Borgarfjarðar 1912-1992. 1992: UMSB
Ungmennasamband Borgarfjarðar 90 ára afmælisrit.2002: UMSB
Ársskýrslur UMSB 1967- 2011.