SAGA UMSB 1912 –2002

Hér má finna hluta af sögu UMSB.
Erindi Guðmundar Sigurðssonar flutt á 90 ára afmælishátíð UMSB 25. apríl  2002 í Logalandi
Aðdragandi að stofnum UMSB má rekja til þess þegar hópur ungra manna var á bændanámskeiði  á Hvanneyri sem haldið var  um mánaðarmótin  janúar- febrúar  1912. Á  þessu námskeiði voru komnir margir leiðandi félagar í ungmennafélögunum  sem höfu verið stofnuð á árunum á undan. Föstudagskvöldið  2. feb var haldinn undirbúningsfundur á Hvanneyri   þar sem félagar úr 7 ungmennafélögum úr héraðinu voru staddir og var  ákveðið að  efna til stofnfundar ungmennasambands ungmennafélaganna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Sá  fundur var haldinn að Hvítárbakka 26 apríl 1912, á fundinum mættu fulltrúar frá eftirtöldum ungmennafélögum: Reykdælum , Dagrenningu,  Íslendingi, Haukum, Birni Hítdælakappa Agli Skallagrímssyni og Baulu. Á þeim fundi var samþykkt að samþykkja lög og kjósa stjórn sem hvorutveggja var til bráðabirgða. Lögin voru síðan lögð fyrir hvert félag,  Um vorið tilkynntu öll þau félög sem fulltrúa áttu á fundinum þátttöku sína í  UMSB að auki Umf. Brúin.  Fyrsta stjórn skipuðu þeir Páll Zóphoníasson, formaður og meðstjórnendur þeir Bjarni Ásgeirsson og Jón Hannesson. Allir þessir menn áttu síðan eftir að verða áhrifamenn í þjóðfélaginu.

Fyrsta sambandsþingið var haldið á Hvanneyri í febrúar 1913.Strax á fyrstu árum UMSB einkendist starf þess af íþróttamótum sem var aðalstarf sambandsins. Fyrsta íþróttamót  UMSB var haldið á Hvítárbakka  í ágúst.1913, þar sem   piltar og stúlkur syntu í Hvítá . Flokkakeppni var í sundi og glímu og sigruðu Reykdælir þar  Keppt var í 500 og 100 m.hlaupum.  Íþrótttanámskeið  var haldið 1915 og stóð það í 14 daga. Í ýmsum greinum var keppt í á  íþróttamótunum.  meðal annars í kappslætti og kappreiðum.  1939 er fyrst keppt í handhnattleik kvenna  á héraðsmóti, sem varð síðan fastur liður á héraðsmótunum ásamt knattspyrnu. Á árunum upp úr 1930 gátu Borgfirðingar sér góðan orðstýr í keppnum utan héraðs sérstaklega í víðavangshlaupum.Héraðsmótin fóru fram  fyrstu árin á Hvítárbakka en 1919 fluttust þau  að  Þjóðólfsholti  á bökkum Hvítár í landi Ferjukots og var keppt þar allt fram til 1961.

Árið 1943 var 5. Landsmóti UMFÍ  haldið á Hvanneyri og hafði UMSB að flestu leyti veg og vanda að framkvæmd mótsins. Þar var byggð úti sundlaug 25 m löng veggir voru hlaðnir úr sniddu en tréþil í endum laugin var köld. Íþróttavöllur var gerður  á svo nefndri  Fit skammt frá bökkum Hvítár. Fitin er nenni slétt og hinn ákjósalegasti  íþróttavöllur. Þess ber að geta að knattpsyrnu keppnin á Landsmótinu í Borgarnesi 1997 fór þar fram.Á fjórða þúsund gesta sóttu landsmótið. Mótið gekk vel, að vísu var veður ekki sem ákjósanlegast,var nokkur kuldagjóstur.  Þótti undirbúningur og framkvæmd mótsins borgfirskum ungmennafélögum til sóma  Stjórn UMSB annaðist framkvæmdastjórn og í stjórn voru þá Þorgils Guðmundsson sambandsstjóri, Ingimundur Ásgeirsson og Ásmundur Jónsson.Allt frá stofnum UMSB höfðu skólamál verið mikið rædd á sambandsþingum og hafði UMSB alla tíð styrkt  alþýðuskólann á Hvítárbakka. Á sambandsþingi  UMSB 1928 urðu miklar umræður um skólamál sem enduðu með samþykkt tillagna sem mörkuðu skýra stefnu um upphaf  þess að Héraðsskólinn í Reykholti var stofnaður. UMSB vann einnig að því að  Húsmæðraskólinn  á Varmalandi yrði stofnaður  og styrkti skólabygginguna fjárhagslega. Samþykkt var á sambandsþingi 1935 til skólanefnda í héraðinu áskorum um að taka upp leikfimi kennslu á öllum barnaskólum. Var þeirri ályktum fylgt eftir.

Árið 1938 gekkst UMSB  fyrir stofnum Skógræktarfélags Borgarfjarðar.Á sambandsþingi 1939 var ályktað um virkjanamál, þar sem bent var á Andakílsárfossa sem álitlegan virkjunarstað. UMSB kom gaf út blaðið  Vor  sem kom út 1927-1933. Tímaritið Svanir var gefið út árið 1939  sem birti greinar, sögu og ljóð það átti að koma út sem ársrit UMSB en kom aðeins einu sinni út. Á sambandsþingi 1962 staðfesti UMSB aðild að byggðasafn í héraðinu ásamt fleiri félagasamtökum.Íþróttafólk frá UMSB tók þátt í landsmótum UMFÍ frá fyrstu tíð og árið 1961 fór fríður flokkur íþróttamanna norður í Lauga í Suður Þingeyjarsýslu og eru það min fyrstu kynni af  borgfirsku íþróttafólki þar fylgdist ég 12 ára strákur  með borgfirsku hlaupurunum vinna sínar greinar, Björk Ingimundardóttir vann 100 m hlaupið og Haukur Engilbertsson  1500 og 5000 m þar var hann lang fyrstur nærri hring á undan næsta manni. Er það hlaup  er  mér mjög eftirminnilegt. Þá sýndi  UMSB hópurinn  slíka framkomu og umgengni að hópurinn var sæmdur háttprýðisverðlaununum  mótsins og kom það í hlut Ragnars Olgeirssonar þáverandi sambandsstjóra að taka við gripnum. Eftir þetta leit ég upp til  Borgfirðinga og voru þeir prúðmenni og  fyrirmyndafólk  í mínum huga  sem ég fékk síðan  staðfest sjö árum síðar þegar ég kynntist þeim að eigin raun.

Á sambandsþingi 1963 voru samþykktar tillögur um merkingar vega og sveitabýla og hafði UMSB frumkvæði þar um.Um sumarið 1965  var fyrsta frjálsíþróttamótið haldið á  Varmalandsvellinum en mörg undan farin ár hafði verið unnið við völlinn og hann kostað sambandið allmikið. Við þetta batnaði aðstaða til íþróttaiðkanna. Síðar fluttust íþróttamótin í Borgarnes.UMSB starfrækti sumarbúðir fyrir unglinga að Varmalandi 1965 og voru þær fastur liður í starfsemi UMSB um árabil. Síðar voru þær starfræktar á á árunuim 1983-1989.  Til ársins 1967 hafði stjórnin annast alla framkvæmdarstjórn sjálf og ekki haft fastan starfsmann en þá var fyrsti framkvæmdarstjóri UMSB ráðinn sem var Höskuldur Goði Karlsson en áður hafði hann komið að stjórnum sumarbúða og íþróttaþjálfunar. Breytti þetta miklu um starfsemi  UMSB og  á næstu árum varð allmikil gróska í íþróttastarfi UMSB en árin þar á undan hafði verið lægð í íþróttastarfinu.

Undir forustu Sigurðar Guðmundssonar á Leirá er komið á unglingamóti á Leirá 1968 svokölluðum vorleikum sem  haldir hafa verið fram til þessa en er nú orðnir hluti af héraðsmóti UMSB og haldnir í Borgarnesi.. Án efa hafa vorleikarnir haft mjög jákvæð áhrif á allt frjálsíþróttastarf hjá UMSB.Á þinginu 1967 var samþykkt að heimila stjórninni að gangast fyrir útihátíð. Farið var stað strax um vorið að undirbúa útihátíð að Húsafelli sem haldin var um verslunarmannahelgina. Vandað var til skemmtiatriða og tókst samkoman vel. Mikil vinna var á höndum ungmennafélaga til að sem best tækist.Alls komu  um 7000 manns á hátíðina. Á næstu árum voru útihátíðar haldnar og árið 1970 er talið að yfir  20000 manns hafi sótt hátíðin. Síðasta útihátíðin var haldin 1976. Árið 1987 var  Húsafellsmótið endurvakið en þá á öðrum stað í landi Húsafells. Ekki varð um frekari samkomur. Árin eftir Húsafellsmótin hét UMSB dansleiki í nokkur ár um verslunarmannahelgina. Árið 1975 kom í hlut Borgfirðinga að sjá um 15. Landsmót UMFÍ í fyrstu var talað um að halda það á Varmalandi og Húsafelli jafnvel víðar í héraðinu, en niðurstaðan var að það var haldið á Akranesi í samvinnu við við UMF. Skipaskaga. Sigurður Guðmundsson á Leirá var formaður landsmótsnefndar og Ingólfur Steindórsson var framkvændarstjóri. Mótið tóks í alla staði vel og fór vel fram og eitt glæsilegasta landsmót til þess tíma. En gestafjöldi brást og varð mótið UMSB  fjárhagslega erfitt. UMSB hefur oft staðið fyrir skemmtanahaldi  til fjáröflunar. Árið 1969 var háð  spurningarkeppni  milli sambandsaðila  og einnig 1981. Árið  1984 var spurningakeppni milli sveitarstjórnarmanna og 1991 milli aðildarfélaga ungmennafélaga.

Þessar skemmtanir voru vinsælar og gáfu nokkrar tekjur. UMSB tók þátt í Borgfirðingavöku 1974 í samstarfi við önnur félagasamtök í héraðinu.  Ekki voru þessar samkomur árlega  síðast var haldin Borgfirðingavaka 1989. Árið 2001 var staðið að svokölluðu Vorblóti, þar sem listamenn úr héraðinu komu saman í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og skemmtu til styrktar ferð á Landsmót UMFÍ á Egilsstöðum seinna um sumarið.  Það var á árinu 1989 sem  samstarf hófst milli Ungmennasambands Borgarfjarðar og Sparisjóðs Mýrasýslu um Sparisjóðshlaupið að frumkvæði  Bjarna Bjarnasonar. Bjarni  gaf veglegan farandbikar  sem sigursveitin hlýtur og er bikarinn enn í umferð.  Sparisjóðurinn sem er aðal styrktaraðili UMSB hefur kostað hlaupið og boðið öllum þátttakendum að loknu hlaupi  í veitingar  á Hótelinu í Borgarnesi. Bjarni Bjarnason gaf einnig farandbikar til Helgusunds. En það var keppni um sund frá Geirshólma í Helguvík.í Hvalfirði. Aðeins einu sinni hefur verið tekið þátt í þessu sundi árið 1992 og var einn keppandi Kristinn Einarsson  sem synnti. Þetta var merkt framtak en mikinn viðbúnað þurfti til þess að  gæti orðið að sundinu og hefur stjórn UMSB ekki treyst sér í frekari keppni. Skrifstofu og fundaraðstaða UMSB var í mörg ár á heimili sambandsstjóra þar sem hann geymdi þau gögn sem fylgdu starfinu  í árslok 1982 fékk UMSB inni í herbergi í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og síðar var innréttuð skrifstofa í bílskúrnum hjá Ingimundi Ingimundarsyni árið 1986 þegar hann tók við framkvæmdastjórn UMSB.

Árið 1988 var keypt núverandi húsnæði að Borgarbraut 61. Við það stórbatnaði öll aðstaða stjórnar og starfsmanna. Árið 1987 hóf UMSB útgáfu á héraðsfréttablaðinu Borgfirðingi í samvinnu við verkalýðsfélagið í Borgarnesi Ingimundur Ingimundarson var driffjöðrin að blaðinu og fyrsti ritstjóri. Blaðið kom út til ársins 1996. Þá var það selt. 1988 samþykkti ÍSÍ reglur um aðild hestamannafélaganna að ÍSÍ 1990 gengu  íþróttadeildir hestamannafélaganna Skugga og Faxa í UMSB. Íþróttafélagið Kveldúlfur var stofnað 1992 og gekk þá í UMSB. Íþróttafélagið er félag fatlaðra.

Meðal þeirra fjáraflana sem unnið hefur verið  að árlega er  að gefa út þjónustualmanak UMSB, dagatal í A3 formi með handhægum upplýsingum um símanúmer fyrirtækja og stofnana í héraðinu. Jólamerki hafa árlega verið gefin út með myndum af kirkjum úr héraðinu. Myndirnar eru teiknaðar af Guðmundi Sigurðssyni í Borgarnesi. Árið 1998 komst á samstarf milli Skógræktarfélags Borgarfjarðar og UMSB um skógargöngur á afmælisári Skóræktarfélagsins. Göngurnar um skóga Borgarfjarðar urðu alls 10. Næsta ár var ákveðið að UMSB stæði fyrir kvöldgöngum vítt um héraðið. Var farið í 8 kvöldgöngur 1999 , 9 árið 2000 og 10 árið 2001.

Íþróttamaður Borgarfjarðar var fyrst kjörin árið 1980 og hlaut langhlauparinn Jón Diðriksson þann titil fyrstur Borgfirðinga. Síðan hefur bikarinn verið veittur árlega. Árið 2001 hlaut einnig hlaupari titilinn en það var Gauti Jóhannesson. 22. landsmót UMFÍ var haldið í Borgarnesi 1997, þetta eitt  stæðsta verkefni sem UMSB hefur ráðist í og hófst undirbúningur árið 1994.  Formaður landsmótsnefndar var Ingimundur Ingimundarson og  framkvæmdarstjóri Kristmar Ólafsson. Bæjarstjórn Borgarnss sýndi málinu strax áhuga sem hún fylgdi eftir. Byggður var upp fullkominn frjálsíþróttavöllur og byggð útisundlaug. Vel tókst með þessar framkvæmdir og er aðstaðan hin glæsilegasta. Hefur hún verið íþróttalífi í héraðinu mikil lyftistöng.Mótið tókst mjög vel og var gerður góður rómur hvað varðaði skipulag allt,  sérstaklega skipulag starfsmannamála, var gott.Mótið skilaði hagnaði til UMSB.  Þó UMSB hafi víða komið að  málefnum í héraði hafa íþróttir ætið verið aðalastaf UMSB og hefur það séð um fjölda íslands- og bikar móta í gegn um árin. Með tilkomu glæsilegrar íþróttaaðstöðu í Borgarnesi hefur UMSB tekið að sér nokkur stór mót. Fyrir utan Landsmótið 1997  má nefna árið 1998 Meistarmót Íslands 15- 22 ára  1999 Meistarmót Íslands 12-14 ára, öldungamót íslands   og Aldursflokkameistaramót íslands í sundi.  Árið 2000 Norðurlandamót unglinga sem var mjög krefjandi mót. Öll þessi mót kröfðust mikillar vinnu og komust félaga UMSB vel frá þeim og nutu lof fyrir gott starf. Í heild gáfu þessi  mót UMSB góðar tekjur og mikla vinnu.

Íris Grönfeldt hefur verið héraðsþjálfari frá haustinui 1989 og hefur  borið hitann og þungann af úrvalsliði UMSB í frjálsum íþróttum, jafnframt því  að halda úti héraðsæfingum fyrir alla aldurshópa. Ekki er hægt að ræða íþrótttamál í héraðinu án þess að nefna í Ingimund Ingimundarsson en hann var um árabil þjálfari í sundi og frálsum íþróttum bæði í launuðu og ólaunuðu starfi, einnig kom hann að þjáfun í borðtennis og átti UMSB öflugt borðtennis lið um tíma. Margir aðrir hafa komið að þjáfum íþróttafólks  UMSB þó þessi tvö séu hér nefnd.  Héraðsmót í sundi og frjálsum íþróttum hafa verð haldin árlega og mörg önnur mót innan héraðs. Um tíma var haldið héraðsmót í borðtennis en ekki nú á seinni árum. Héraðsmót í hestaíþróttum hefir að minsta kosti tvisvar verið haldið. Íþróttafólk innan raða UMSB hefur tekið þátt í mörgum mótum á landsvísu og hlotið marga íslandmeistaratitla og keppt á erlendri grundu og ber hæst Ólympíuleikjafarana þau Einar Vilhjámsson,  Írisi Grönfeldt og Einar Trausta Sveinsson.UMSB hefur alla tíð haft metnað til  að senda föngulegan hóp á Landsmót  UMFÍ og hefur  oft náð góðum árangri þó að liðið hafi oft verið ungt að árum. UMSB hefur staðið fyrir íþróttaferðum eða æfingabúðum erlendis í nokkur skipti nú síðast til Portugals um síðustu páska með frjálsíþróttafólk.

Sumarið 2001 kom upp sú hugmynd að stofna þjónustumiðstöðvar UMFÍ út um landið. Í febrúar var skrifað undir samning við UMFÍ um stofnun þjónustumiðstöðva UMFÍ, í Borgarnesi á vegum UMSB, ásamt fjórum öðrum héraðssamböndum. Þjónustusvæði miðstöðvar UMFÍ í umsjá UMSB er svæði Umf. Skipaskaga á Akranesi, HSH, UDN og USVH. Það er því nú í okkar höndum að vinna markvisst að uppbyggingu þjónustumiðstöðvar UMFÍ í Borgarnesi. Núverandi samningur gildir út árið og því mikilvægt að standa vel að verkefninu,  þannig að það verði í umsjá UMSB til lengri tíma. Hér er komið að nýjum starfvettvangi UMSB sem vonandi á eftir að efla og styrkja það starf sem hingað til hefur verið unnið. Hér mun ég láta staðar numið. Helstu heimildir sem ég hef unnið eftir eru afmælisrit UMSB og ársskýrslur og mikið stuðst við greinar Jóns A Guðmundssonar frá Innra Hólmi sem rakti sögu UMSB fyrstu 60 árin. Það er ljóst að hér hefur verið styklað á stóru og ekki getið þeirra fjölmörgu sem borið hafa starf UMSB uppi hver á sínum tíma. Þeirra verður vonandi minnst ef ráðist verður í að skrifa sögu UMSB fyrir 100 ára afmælið.

G.Sig.

Húsafellshátíðir

Rætt við nokkra þeirra sem stóðu í eldlínu Húsafellshátíðanna fyrir hálfri öld

FS

Tíundi hluti þjóðarinnar í Húsafelli þegar mest lét

Þeir sem komnir eru vel yfir miðjan aldur muna flestir eftir Húsafellshátíðunum, sem haldnar voru um verslunarmannahelgi  á árunum 1967 til 1976. Hátíðarnar voru á þess tíma mælikvarða gríðarstórar fjölskylduskemmtanir og ekkert til sparað. Landsþekktar hljómsveitir fengnar til að spila á þremur útisviðum samtímis, haldin voru íþróttamót og vegleg hátíðar- og skemmtidagskrá á sunnudeginum. Þá var enginn unglingur maður með mönnum nema hafa farið í Húsafell um verslunarmannahelgi til að upplifa Trúbrot og allar hinar hljómsveitirnar og gista á unglingatjaldstæðinu á bökkum Kaldár. Aðsóknin slagaði hátt í tuttugu þúsund gesti þegar mest lét og enn í dag er það einna helst Þjóðhátíð í Vestamannaeyjum sem kemst nærri Húsafellshátíðum í aðsókn og umfangi. En Húsafellsmótin voru ekki aðeins hátíð unglinganna heldur allrar fjölskyldunnar og mikið upp úr því lagt að áfengi væri ekki haft um hönd. Margir reyndu að komast framhjá því skilyrði, sumir með árangri, en aðrir voru teknir með búsið sem undantekningarlaust var hellt niður ef upp komst, enda gæslan öflug. Dagskrá hátíðanna var fyrir alla aldurshópa og því þótti útilokað að áfengisneysla og skemmtun allrar fjölskyldunnar gæti farið saman.

En Húsafellsmótin heyra fortíðinni til. Hálf öld er síðan þetta var og hét. Frægð hátíðanna reis skjótt með skini og skúrum og að endingu var striki slegið undir þennan kafla í sögu Ungmennasambands Borgarfjaðar. En UMSB lifir enn, trútt sínu upphaflega hlutverki í margbreyttum tíðaranda. Til að rifja upp þennan tíma var hóað saman nokkrum þeirra sem komu að skipulagningu og framkvæmd Sumarhátíðanna í Húsafellsskógi á sjöunda og áttunda áratugnum. Hist var á heimili Ófeigs Gestssonar á Akranesi. Auk hans voru í stjórn hátíðanna um skeið þeir Gísli V. Halldórsson í Borgarnesi og Jón G. Guðbjörnsson á Lindarhvoli. Þeim til aðstoðar var Hjörtur Þórarinsson fyrrum skólastjóri á Kleppjárnsreykjum. Einungis vantaði Vilhjálm Einarsson fyrrum skólastjóra í Reykholti og formann UMSB til sex ára til að hópurinn væri fullmannaður þeim sem oftast stóðu í brúnni.

Að frumkvæði Vilhjálms

Til Húsafellshátíða var stofnað til styrkingar þröngum fjárhag Ungmennasambands Borgarfjarðar svo efla mætti aðra starfsemi á þess vegum. Ungmennafélagar í aðildarfélögum UMSB tóku virkan þátt í undirbúningi, skipulagningu og ekki síst störfum við hátíðirnar sjálfar, seldu veitingar, sinntu gæslu, frágangi og öðru sem til fellur við stór mannamót. Veitingasala, svo sem á sælgæti, gosi, samlokum og öðru, var alfarið á þeirra vegum. Afraksturinn af mótshaldinu sjálfu var hins vegar ungmennasambandsins. Í upphafi samtalsins við hina öldnu mótsstjórn kemur skýrt fram að það hafi verið hugmynd og að frumkvæði Vilhjálms Einarssonar, þá skólastjóra Héraðsskólans í Reykholti og frjálsíþróttakappa, sem efnt var til hátíðanna í Húsafelli. Jón rifjar það upp, að hann telur með réttu, að þegar þess var farið á leit við Vilhjálm að hann tæki við formennsku í UMSB hafi hann sett það upp að ráða mætti framkvæmdastjóra fyrir sambandið. „Hvort fjármögnun slíkrar nýlundu í starfsemi UMSB var rædd í því samhengi veit ég ekki,“ segir Jón en telja má víst að Vilhjálmur hafi viðrað hugmyndir sínar í því efni. Vilhjálmur er síðan kosinn formaður, oftast kallast sambandsstjóri, UMSB snemma árs 1967. Með honum í stjórn voru kjörnir Kristján Benediktsson ritari, Friðjón Árnason gjaldkeri og Sveinn Jóhannesson og Sigurður R. Guðmundsson meðstjórnendur. Þeir Kristján og Sveinn voru báðir nýliðar í stjórninni. Eitt fyrsta verk stjórnarinnar var að ráða sér framkvæmdastjóra samkvæmt heimild ársþingsins og valdist Höskuldur Goði Karlsson til þess starfa. Jafnframt lagði stjórnin það til á formannafundi sama ár að stefnt yrði að Sumarhátíð í Húsafelli um komandi verslunarmannahelgi. „Það þurfti að efla fjárhag sambandsins til að standa undir öflugu íþrótta- og æskulýðsstarfi og starfi framkvæmdastjóra,“ rifjar Jón upp. „Það voru á þessum árum að verða kynslóðaskipti í ungmennafélagshreyfingunni og menn voru tilbúnir til að takast á við nýjar áskoranir.“

Veðursæld í Húsafelli

Góðtemplarareglan hafði á árunum 1962-66 haldið bindindismót í gilinu fyrir innan Húsafell um verslunarmannahelgar við góðan orðstír en svo eignast aðstöðu á Suðurlandi. Eins hafði æskulýðsnefnd Mýra- og Borgafjarðarsýslu (ÆMB) efnt í tvígang til síðsumarsmóta við Grábrók; vel heppnaðar en fremur lítið sóttar. „Vilhjálmur og Höskuldur Goði höfðu meðal annarra komið að þeim samkomum,“ segir Ófeigur. Þegar staðarval fyrir Sumarhátíð UMSB kom til álita voru þessir tveir staðir bornir saman með tilliti til kosta og ókosta og niðurstöðuna þekkjum við.

Fyrsta verk var því að leita til hjónanna á Húsafelli sem jafnframt voru landeigendur mótssvæðisins, þeirra Kristleifs Þorsteinssonar og Sigrúnar Bergþórsdóttur. Svæðið þótti einkar hentugt frá náttúrunnar hendi en samgöngur síðri. „Samningar tókust við þau og Ferðaþjónustan á Húsafelli skyldi fá prósentur af aðgangseyri. Þau hjón höfðu þegar þetta var lagt af hefðbundinn búskap í Húsafelli og voru byrjuð að byggja upp ferðaþjónustuna í skóginum. Þeim hentaði að fá aura til þeirrar uppbyggingar,“ rifjar Gísli upp. „Húsafell er auk þess fremur veðursæll staður og yfirleitt vorum við heppin með veður. Þarna er skjólsælt og mikið hraun sem drenar vel og því urðu gróðurskemmdir hverfandi þótt gestir væri taldir í þúsundum,“ bætir hann við.

„Kristleifur lagði strax ríka áherslu á að mótin yrðu á forsendum hins sanna ungmennafélagsanda og án áfengis,“ segir Hjörtur. Vorið 1967 fór undirbúningur fyrir fyrstu hátíðina í fullan gang. „Undirbúningur gekk vel og rösklega var gengið í öll þau verk og undirbúning sem við töldum þurfa. Á fyrstu Húsafellshátíðina þá um sumarið komu um sjö þúsund gestir og færði það mönnum von um að þarna væri komin framtíðar tekjuöflunarleið fyrir ungmennasambandið,“ rifjar Hjörtur upp. Á næstu árum voru útihátíðar haldnar á hverju sumri og hróður þeirra barst út. Hápunktinum var náð sumarið 1969 en þá er talið að yfir tuttugu þúsund manns hafi komið í Húsafell. Ástæðan fyrir þessu hástökki í aðsókn var sú að yfir sunnanvert landið gekk rigningarslagveður þessa helgi þannig að þeir sem höfðu ætlað að leggja leið sína á mót í Galtalæk eða á Laugarvatn, fóru frekar í Húsafell. Veðrið var skárra þar, en engu að síður rigndi fram á sunnudag, en það regn klæddu mótsgestir af sér með að skrýðast svörtum ruslapokum þar sem tekið var úr fyrir haus og höndum. Það var nýlunda.

Uppbygging svæðisins

Þegar hér var komið sögu höfðu margvíslegar umbætur og viðbætur verið gerðar á aðstöðunni frá fyrstu gerð. Upphaflegu framkvæmdirnar voru í raun lágmarksaðstaða sem samt stóð fyllilega undir sínu hlutverki og telja má afreksverk sem mestallt var unnið í sjálfboðavinnu. Margt lagði þó hið náttúrulega umhverfi til, svo sem tjaldsvæði og Hátíðarlundinn eins og lagði sig nema að byggja þurfti útisviðið og danspallinn. Áhorfendabrekkan í hraunkantinum hafði eiginlega beðið þarna frá því að Hallmundarhraun rann. En öll árin sem mótin voru haldin var unnið að ýmsum endurbótum. Í gamla bænum á Húsafelli var aðsetur lögreglu meðan mótin stóðu yfir og þar voru vistaðir þeir sem taka þurfti úr umferð tímabundið sökum óspekta.

Stærsta mótið var 1969

„Mótið 1969 varð því langfjölmennast og líklega það sem heppnaðist best,“ rifjar Jón upp. „Annars er erfitt að leggja mat á slíkt. Yfirleitt voru mótin vel heppnuð og mikið í þau lagt. En að komast svo vel frá mótinu 1969 var auðvitað mikið lán í ljósi þess mannfjölda sem þá var.“ Í lýsingu Gerðar Unndórsdóttur, eiginkonu Vilhjálms, af hátíðinni 1969 segir að veðrið hafi verið milt þótt rignt hafi framan af og hljómsveitin Trúbrot sem var á tindi ferils síns var meðal þeirra sem spilaði fyrir dansi. Auk þess voru hljómsveitir á borð við BG og Ingibjörgu frá Ísafirði, Hljómsveit Ingimars Eydals og unglingahljómsveitir fengu einnig sín tækifæri. Meira að segja voru haldnar hljómveitakeppnir. Danspallarnir voru þrír; við Lambhúsalind, Hátíðarlundur og Paradís. Gerður segir að mannfjöldinn hafi verið gríðarlegur enda var þarna saman kominn tíundi hver Íslendingur. Eftir hádegið á sunnudeginum var menningardagskrá í boði, þjóðkunnir menn fluttu ávörp og skemmtiatriði. Helena Eyjólfsdóttir söng til dæmis lag Vilhjálms Einarssonar; „Í Húsafellsskógi“ við ljóð Jónasar Árnason.

Í frásögn blaðamanns Morgunblaðsins frá hátíðinni þetta ár sagði m.a: Á þessum kyrrláta stað reis upp lítil borg með aðalhverfum, úthverfum, götum og stígum, danspöllum og sjoppum í seilingarfjarlægð.“ Og bætti sá hinn sami við: „Hljómsveitirnar voru svo góðar að margir unglingar gleymdu að dansa en stóðu bara og hlustuðu.“

Skrefinu á undan Woodstock

„Síðar var gert að því grín að við hefðum þetta sumar orðið skrefinu á undan Woodstock, en sá frægi tónlistarviðburður var einmitt haldinn síðar í ágúst 1969,“ rifjar Jón upp. „Samt ekki alveg sambærileg mót nema að veðrið var blautt á báðum stöðum. Hann bendir á að tekjur af mótshaldinu hafi verið umtalsverðar fyrir mörg þau ungmennafélög sem lögðu til mannskap og vinnu, ekki bara við eigin tekjuöflun heldur einnig við mótshaldið sjálft að öðru leyti.

Lagt nótt við dag

Engum blöðum er um það að fletta að það var samhentur hópur sem hér var saman kominn á heimili Ófeigs og hafði áratugum fyrr komið að undirbúningi og framkvæmd Sumarhátíðanna í Húsafelli með ýmsum hætti. Þeir mynduðu tengsl og vinskap sem haldið hefur síðan. Mótsstjórn var frá upphafi á höndum stjórnar UMSB og formaðurinn jafnframt framkvæmdastjóri mótsstjórnar. „Við Gísli komum ekki inn í stjórnina fyrr en 1971 en báðir verið árin á undan í forustu fyrir okkar félög. Ófeigur kom svo inn ári síðar en þetta reyndust vera tvö síðustu ár Vilhjálms á vettvangi UMSB. Það var okkur ómetanlegt, ekki síst eftir á að hyggja, að ná því að eiga þann tíma með Vilhjálmi og raunar árin þar á undan líka. Svo varð það hlutskipti mitt að taka við af honum sem sambandsstjóri árið 1973,“ segir Jón. „Það verður varla sagt að maður sé áhættufælinn en þegar félagarnir hafa snúið upp á handlegg manns gagnast útúrsnúningar lítt. Þeir hafa eflaust verið ánægðir með sína valdbeitingu en konan var ókát í rúminu með tíðindin þegar heim var komið. Ég hafði jú ætlað að koma heim sem frjáls maður,“ rifjar Jón upp. Síðasta árið sem Vilhjálmur var sambandsstjóri, þ.e. 1972, þá var Hjörtur Þórarinsson ráðinn framkvæmdastjóri mótsstjórnarinnar og hélst svo næstu ár.

Fjölmargir dagar voru lagðir í undirbúning og skipulagningu. Gefum Ófeigi orðið: „Við í stjórninni reyndum að skipta með okkur verkum og var sú skipting dálítið í ljósi aðstöðu okkar og starfa. Jón var til dæmis kúabóndi á Lindarhvoli og júlí því mikill annatími við heyskap hjá honum. Hann var því mjög upptekinn um hábjargræðistímann en í hans hlut kom að semja við og ráða skemmtikrafta og hljómsveitir sem varð að tryggja tímanlega,“ segir Ófeigur. Og Jón bætir við þessa sögu: „Eigi að síður fylgdi þessu talsvert ónæði. Þá vantaði ennþá áratug upp á að sveitasíminn gamli hefði runnið sitt skeið. Klukkan 9 til 12 og 15 til 18 var það sem gilti. Hádegið og kvöldin voru ónýt til slíkra samskipta. Þeim sem vildu ná sambandi var þetta hins vegar mörgum torskilið fyrirkomulag og hringdu samt. Því gat það verið býsna snúið og úrtökusamt að standa í samskiptum við fólk. Smámál verða nefnilega stundun stór ef ekki tekst að útkljá þau í tíma í síma eins og allir vita í dag. Heima fyrir voru hvít handklæði eða viskastykki aðal samskiptamáti okkar hjóna; í þessu sambandi vel að merkja,“ segir Jón. „En Ófeigur átti oft leið hjá og kom við óháð því hvort það beið yxna kýr í fjósinu. Það var til mikils hagræðis því þá mátti leysa ýmis mál á stuttum túnfundi.“

En Ófeigur heldur áfram um verkaskiptingu mótsstjórnar: „Eðli máls samkvæmt sá ég sem gjaldkeri um skipulagningu og framkvæmd miðasölunnar. Oft voru fengnir skólahópar til að selja miðana. Gísli tók að sér að ferja innkomuna í Sparisjóðinn í Borgarnesi eftir samkomulagi óháðu reglulegum afgreiðslutíma. Enn fremur sá hann um sjálfboðaliðalöggæsluna,“ segir Ófeigur. „Diðrik Jóhannsson sem þá var yfir Nautastöðinni tók að sér skipulagningu verslunar og veitingasölu en það var vandasamt verk en mikilvægt,“ bætir hann við.

Eftirspurn að fá að koma

Ófeigur rifjar upp að eftir því sem mótin urðu þekktari á landsvísu varð auðveldara að fá góðar hljómsveitir og skemmtikrafta. „Það var reyndar orðið þannig að eftirspurnin var frá hljómsveitunum að fá að koma og við þurftum ekki sérlega mikið að dekstra þær til verka. Svo var þetta orðin ákveðin hefð. Ingimar Eydal var að höfða til eldri kynslóðarinnar og „átti“ sitt svið, spilaði alltaf í Hátíðalundi. Svo voru yngri hljómsveitir og vaxandi sem lögðu mikið upp úr því að fá að koma fram enda töldu þær mikil tækifæri felast í kynningunni. Þessar hljómsveitarkeppnir sem haldnar voru gáfu mörgum auk þess tækifæri til aukins frama og frægðar.“

Þjappaði héraðsbúum saman

Þeir félagar eru ekki í vafa um að það hafi verið snjallt strax í upphafi að fela ungmennafélögunum í héraðinu rekstur verslana og veitingasölu á hátíðunum. „Félögin þurftu að vanda til þessa þáttar í undirbúningnum, áttu jafnvel sinn söluskúr hvert fyrir sig, stóðu sameiginlega að innkaupum og reyndu að hafa sem mest út úr sölunni. Þetta þjappaði héraðsbúum saman við ýmis störf og svo að afloknum mótunum var alltaf safnað liði til að hreinsa svæðið og það var yfirleitt ótrúlega lítið sem þurfti að tína saman af rusli eftir mótsgesti,“ segir Hjörtur.

Lærðu á kerfið

Takturinn hafði verið sleginn. Mótið 1967 skilaði afgangi og næstu ár áttu eftir að skapa UMSB og aðildarfélögum þess miklar tekjur enda jókst aðsóknin. Eftir þrjú vel heppnuð mót sem öll gáfu ríkulegan tekjuafgang fyrir sambandið og aðildarfélög þess var komið að árinu 1970. Það mót fór úr böndunum, eru þeir félagar sammála um, og líklega markaði það á sinn hátt upphafið að endalokum Húsafellsmótanna, þótt töluvert ætti eftir að reyna til þrautar. Ófeigur bendir á að það var sífellt verið að gera auknar kröfur til aðstöðu, afþreyingar og það var auðvelt að bæta í kostnaðinn. „Við vorum alltaf að toppa okkur. Árið 1970 varð því dýrt en skilaði samt ágætri afkomu. Það sem verra var að áfengisneysla hafði aukist. Menn fundu nýjar leiðir til að smygla áfengi inn á mótssvæðið. Meðal annars voru komnir rúðupisskútar í bílana sem einmitt var fyllt á og einhverjir fóru vikurnar áður og grófu bús í jörðu. Það var leitað í bílum við komuna á svæðið en allt kom fyrir ekki, fólk var farið að þekkja aðstæður. Við höfðum það fyrirkomulag ef upp komst um vínsmygl að hella niður því sem yngra fólk var uppvíst að reyna að koma inn á svæðið. Hinsvegar ef fullorðnir áttu í hlut bauðst þeim að vínið yrði fært til geymslu á lögreglustöðinni í Borgarnesi þar sem fólk gat vitjað þess eftir helgina,“ segir Ófeigur.

„Það versta við hátíðina 1970 var að hún kom óorði á allar hinar fyrr og síðar,“ segir Jón. „Alltaf þegar fólk finnur hvöt hjá sér til að til að tala illa um útisamkomur í seinni tíð þá nefna menn Húsafellsmótin. Af hverju? Jú, það er vegna þess að það muna allir eftir Húsafelli og öllu því góða og skemmtilega sem hátíðirnar höfðu upp á að bjóða. Merkileg þversögn það. Og jafnvel þótt svo færi 1970 sem raun varð á, þá var ekki um stjórnlaust ölæði að ræða, engin sukkhátíð. Ég fullyrði að það var alltaf reynt að halda í heiðri af fyllsta mætti að Húsafellsmótin væru fjölskylduhátíðir án áfengis. En það var ekki vel séð af sumum gestum sem vildu hafa sitt áfengi en vera samt á Húsafellsmóti. En það fólk reyndi e.t.v samt að fara varlegar, eða laumulegar, í neyslu þess.“

Í mótsskrá fyrir Húsafellshátíðina 1971 skrifaði Vilhjálmur Einarsson um hátíðina árið áður og er ekki skemmt yfir áfengisnotkun þetta ár: „Það munu víst fáir vera að öllu leyti ánægðir með hversu til tókst að hafa hemil á áfengisvandamálinu. Þar kom margt til, sem ekki verður rakið hér, en ýmsir telja, að hið óhagstæða veður mótsdagana, hafi gert sitt til að útkoman varð ekki betri. Vissulega þarf UMSB á hverju tíma að vega og meta stefnuna í samkomumálum í ljósi fenginnar reynslu, og ef áfram er haldið, að leitast þá við að gera betur næst.“

Féllu niður ´74 og ´75

Árið 1971 tókst til muna betur til um framkvæmd Húsafellsmótsins í öllu tilliti en reyndist erfitt rekstrarlega. Væntanlega hefur dregið eitthvað úr aðsókn.  En árið 1972 var afleitt, veður var óhagstætt og aðsókn datt niður. „Það var stóra tapárið okkar,“ eru þeir félagar sammála um. En þrátt fyrir litla aðsókn og því lágar tekjur var búið að stofna til mikils kostnaðar. Fyrir þeim félögum lá því að reyna að ná fram lækkun á verði fyrir tónlistar- og skemmtanaflutning. Hljómsveitir eins og Ingimar Eydal, Trúbrot og fleiri voru að spila og ljóst að aðgangseyrir myndi ekki dekka allan þann kostnað sem lagt hafði verið út í.  Það kom í hlut Jóns að leggja í þann bónarveg. „Fyrst var leitað til Ingimars sem hafði verið svona stóra númerið á hátíðunum, spilað á sviðinu í Hátíðarlundinum og svo margar fleiri hjómsveitir á hinum sviðunum. Samþykkt var af mótsstjórninni að fara fram á 20 eða 25% lækkun frá umsömdu verði eða ella yrði ekkert greitt að svo stöddu. „Ingimar og hans fólk féllst á þetta að því skilyrtu að jafnt gengi yfir alla. „Ég ætla að ganga með þér yfir til strákanna,“ sagði Ingimar og átti við þá í Trúbroti sem voru í næsta sumarhúsi, en við höfðum þegar þetta var flest hús Kristleifs undir alla helgina. Það fór á sama veg, Trúbrotsmenn tóku vel í þessa málaleitan og þar með má segja að björninn hafi verið unninn. En það tók mig það sem eftir lifði dags að hafa upp á öllum en það gekk upp,“ segir Jón. „Allt fór þetta því vel að lokum, en engu að síður varð mikið tap á hátíðinni 1972. Það tap var að mestu greitt upp með hátíðinni næsta ár á eftir og með sérstökum „hallaskatti“ sem var lagður á aðildarfélögin.“

Féll niður í tvö ár

Svo komu tvö ár sem ekkert Húsafellsmót var haldið. Það fyrra vegna þess að þá var Þjóðhátíðarárið 1974 og farið hafði verið fram á að fella niður Húsafellsmót vegna hátíðarhalda bæði á landsvísu og heima í héraði. „Ásgeir Pétursson sýslumaður hafði ætíð verið okkur fremur hliðhollur og allt hans fólk hjá lögreglunni. Hann sem formaður Þjóðhátíðarnefndar í héraðinu fór ákveðið fram á það við okkur að ekki yrði haldið Húsafellsmót þetta sumar. Við urðum við því. Svo árið 1975 var Landsmót ungmennafélaganna haldið á Akranesi á vegum UMSB og Umf. Skipaskaga og var ekkert Húsafellmót heldur það sumarið af þeim sökum. Skemmst er frá því að segja að landsmótið á Akranesi tókst afleitlega rekstrarlega og fengu mótshaldarar skell af því mótshaldi,“ segir Ófeigur. Til að mæta því tapi ákvað Ungmennasamband Borgarfjarðar svo að halda Húsafellsmót sumarið 1976 sem jafnframt varð það síðasta. Sumrin 1974 og 75 voru þó ekki alveg alveg tíðindalaus hjá UMSB því haldnar voru skemmtanir í Logalandi um verslunarmannahelgi bæði sumrin.

Jákvæð áhrif á íþróttir og ungmennastarf

Eftir því sem afkoma Húsafellshátíðanna batnaði vænkaðist fjárhagur aðildarfélaganna og ekki síst Ungmennasambandsins sjálfs. „Við fundum fyrir því að félagsstarf efldist vítt um héraðið þegar við urðum þess megnug að standa betur við bakið á félags- og íþróttastarfi. Íþróttaiðkun jókst og upp risu íþróttastjörnur á lands- og jafnvel einnig heimsvísu, ef við lítum til árangurs þeirra Einars Vilhjálmssonar, Írisar Grönfeldt og Jóns Diðrikssonar, svo einhverjir séu nefndir. UMSB varð þannig meira gildandi á sviði íþrótta en verið hafði með því að við gátum stutt betur við þjálfun og æskulýðsstarf. Það var ráðinn framkvæmdastjóri UMSB. Sá fyrsti varð Höskuldur Goði, þá Matthías Ásgeirsson og síðar komu aðrir. Að geta haft framkvæmdastjóra til að sinna daglegum rekstri sambandsins varð dýrmætt og efldi héraðið félagslega og faglega. Fleiru var hægt að áorka. Haldið var áfram að gera íþróttavöllinn á Varmalandi og til sambandsins réðust öflugir íþróttaforkólfar sem jafnvel eru enn að, svo sem þeir Flemming Jessen og Ingimundur Ingimundarson sem báðir eru enn að láta gott af sér leiða, nú í íþróttum eldri borgara,“ segir Jón.

Stangaðist á við hagsmuni sumarhúsafólks

Húsafellshátíðirnar höfðu verið haldnar árlega frá 1967 til 1973. Þegar þar var komið sögu voru farnir að koma brestir í þann grunn sem hátíðin átti að vera; fjárhagslegur bakhjarl Ungmennasambands Borgarfjarðar. „Það voru líka agnúar í ýmsu fleiru. Ferðaþjónustan hjá Kristleifi og Sigrúnu var farin að vaxa og mótshaldið að hamla þeirri þróun sem þar átti sér stað. Sumarhúsum hafði fjölgað í skóginum og hagsmunir eigenda þeirra stönguðust á við okkar í vaxandi mæli. Sumarhúsafólkið varð andsnúið því að hafa þessi stórmót yfir sér langa helgi í ágúst auk annars rasks. Kristleifur varð því svolítið á milli þeirra og okkar. Engu að síður voru íbúar í Húsafelli alltaf jákvæðir í garð mótanna. Það má nefna Guðmund Pálsson og Ástríði konu hans, systur Kristleifs. Þau báru mótunum ætíð vel söguna. Andstaðan var því mest úr garði eigenda sumarhúsa. Svona mót eru ekki haldin nema almenn og víðtæk sátt ríki um þau,“ eru þeir félagar sammála um.

Þeir Hjörtur Þórarinsson, Ófeigur Gestsson, Jón G. Guðbjörnsson og Gísli V. Halldórsson eru á því að að margir samverkandi þættir hafi orðið til að Húsafellsmótin liðu undir lok 1976. Tíðarandi breytist og þá voru tvö erfið ár sem gerðu bakslag í fjárhag UMSB; mótin urðu áhættusamari fjáröflun. Svona stórmót gætu ekki endalaust verið knúin áfram af sjálfboðavinnu og því fór sem fór. Þá var kostnaður við löggæslu á mótunum orðinn meiri en sem nam kostnaði við skemmtikrafta og mjög íþyngjandi. Því var batteríið einfaldlega orðið of stórt. Þeir eru heldur ekki afhuga þeirri kenningu að það hafi dregið úr ánægjunni við mótshaldið, og ef til vill einnig aðsókn, að sífellt þurfti að beita meiri aðgangshörku við áfengisleit við komu á svæðið. Það var ekki til vinsælda fallið að öllu leyti.

Skuggi féll á

Almennt eru þeir fjórmenningar þó sammála um að í baksýnisspeglinum hafi Húsafellshátíðir almennt haft jákvæð áhrif og lyft menningar- og íþróttalífi héraðsins upp á stall sem erfitt hefði verið ella. „Einu sinni bar þó skugga á. Það varð eitt banaslys þegar ungur maður féll í Hvítá á móts við flugvöllinn og drukknaði. Lík hans fannst skammt frá Hraunfossum. En utan þess atviks gengu mótin áfallalaust. Við reyndum að leggja áherslu á afþreyingu þannig að fjölskyldan gæti sameinast í gleðinni. Unglingar fengu vissulega að tjalda á unglingatjaldstæði en allir áttu að geta skemmt sér saman, sem þeir og gerðu,“ segir Hjörtur.

Héraðinu til sóma

Það voru margir sem lögðu nótt við dag til að Húsafellshátíðarnar gætu gengið sem best. „Þetta voru miklar vökur,“ segir Ófeigur; „jafnvel að menn vöktu meira og minna frá fimmtudegi til sunnudags. Ég minnist þess einu sinni þegar ég var á heimleið að aflokinni einhverri hátíðinni. Þá stöðvaði ég bílinn í Reykholtsdalnum að morgni og fékk mér sundsprett í Reykjadalsá. Eiginlega var ég alveg uppgefinn, en það endurnærði að skella sér í hálfkalda ána og skola af sér ryk og svita helgarinnar.“

 

Kynni sem reyndust farsæl

Gísli V Halldórsson rifjar upp skemmtilega sögu sem tengist Húsafellshátíðunum:

„Að lokinni einni útihátíðinni heyrði ég skemmtilega sögu. Hún var um stúlku í Reykjavík sem hafði drifið sig á útihátíð í Húsafelli. Nokkrum vikum eftir að hún kom af mótinu fór að bera á morgunógleði og þá uppgötvast að stúlkan var ófrísk. Hún fæddi barnið, og allt í lagi með það, í hennar foreldrahúsum. Nokkrum vikum eftir að barnið fæddist, fór hún í bíó í Reykjavík ásamt móður sinni. Þegar mæðgurnar voru að koma út úr kvikmyndahúsinu veitti hún eftirtekt pilti sem henni fannst hún kannast við. Stúlkan hnippti í móður sína og sagði: „Þarna er hann strákurinn, þarna er hann strákurinn sem á barnið.“

Móðirin áttaði sig strax og sagði að þær yrði þá endilega að gefa sig á tal við hann. Pilturinn tók stúlkunni vel og þegar hún var búin að segja honum málavöxtu féllust þau í faðma. Sagan segir að upp frá þessu hafi þau bundist heitum og áttu í vændum farsælt hjónaband.“

Gísli segist vel trúa þessari sögu, enda er hún í takt við mótin í Húsafelli. „Þau voru mörg kynnin sem mynduðust þar og margir eiga frá þeim skemmtilegar minningar,” segir Gísli.

 

MT2: Árið er 1968 og á sviðinu þegar þessi mynd er tekin er Ríó tríóið að spila. Ljósm. Helgi Bjarnason.

MT3: Íþróttasýning á flötinni sumarið 1968. Ljósm. Helgi Bjarnason.

MT4: Fjölmenni var oft á mótunum. Þessi mynd var tekin 1968, en mestur var fjöldinn 1969 en þá voru fáir með myndavélar því rigning var fram á sunnudag. Ljósm. Helgi Bjarnason.

MT5: Trúbrot spilar á hátíðinni 1969, þeirri fjölmennustu. Ljósm. óþekktur.

MT6: Við upprifjun um hátíðirnar heima í stofu hjá Ófeigi. F.v. Hjörtur Þórarinsson, Jón G Guðbjörnsson, Ófeigur Gestsson, Gísli V Halldórsson og Magnús Magnússon. Ljósm. Sigurður Guðmundsson.

MT7: Veglegar mótskrár fylgdu keyptum miðum. Hér er forsíða blaðsins 1971.

MT8: Í mótskrá mátti finna kort af hátíðarsvæðinu.

MT9: Brottfararmiði frá hátíðinni ´71.

MT10: Auglýsingu fyrir síðustu Húsafellshátíðina, árið 1976, gerði Bjarni Guðmundsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frækin boðhlaupssveit Reykdæla

Héraðsmet í boðhlaupi hefur staði óhaggað í 63 ára.

Á 10. Landsmóti UMFÍ á  Þingvöllum 1957 sendi UMSB sveit í 1000 m boðhlaup. Það sérstaka við sveitina var að liðsmenn hennar voru allir úr sama félaginu, Umf Reykdæla. Jón Blöndal 24 ára hljóp 100 m og keppti  í 100 m hlaupi og langstökki. Vigfús Pétursson 21 árs hljóp 200 m nýkominn úr 1500 m hlaupi. Hinrik Guðmundsson 26 ára hljóp 300 m og keppti í 100 m hlaupi, og Magnús Jakobsson 18 ára hljóp 400 m og keppti einnig í 100 m hlaupi. Meðalaldur sveitarinna var rúm 22 ár.  Þetta er í fyrsta og eina skiptið sem UMSB sendi bolhlaupssveit á mót þar sem allir eru úr sama félaginu. Árangurinn var því hérðasmet félagssveitar og stendur enn 63 árum síðar. Aðrir sem kepptu fyrir UMSB á landsmótinu í frjálsum íþróttum voru: Bjarni Guðráðsson Nesi í þrístökki og kúluvarpi. Jón Eyjólfsson Fiskilæk kringlukasti og Sveinn Jóhannesson Flóðatang í kúluvarpi og kringlukasti.

En hverjir voru þessir félagar í boðhlaupssveitinni og hver var íþrótta- og lífsferill þeirra?

Jón Blöndal er fæddur 1933 og uppalinn á Laugarholti í Andakíl. Hann er stúdent frá MR en gerðist síðar bónd á fæðingarbæ sínum. Hann keppti  á héraðsmótum UMSB í 100 m hlaupi langstökki, þrístökki, spjótkast og boðhlaupum. Jón keppti í 100 m, langstökki og þrístökki á Landsmóti UMFÍ á Akureyri 1955. Besti árangur hans var 6,59 m í langstökki, sem er annar besti árangur UMSB manns frá upphafi. Vigfús Pétursson er fæddur 1936 og uppalinn í Hægindi í Reykholtsdal. Hann varð síðar bóndi á Hægindi. Hann byrjaði að keppa á héraðsmótum UMSB 17 ára 1953. Fyrst keppti hann í lengri hlaupum en bætti síðar við þrístökki og kringlukasti. Hann keppti í 29 ár á héraðsmótunum og síðustu árin eingöngu í kringlukasti. Hann taldi að besti árangur sinn væri  í 800 m hlaupið á vísluhátíð Laugardalsvallar 1959. Þá hljóp hann 800 m í fyrsta og eina skiptið á 2:10,2 mín.  Hann rifjaði upp skemmtilegt atviki á einu mótanna á Ferjukotsbökkum. Reykdælir höfðu stefnt að því að vinna tvöfalt í 400 m hlaupi. Með þeim í riðli var ungur maður úr Leirársveitinni sem hóf hlaupið með miklum látum, þannig að þeir félagar höfðu vart við honum. En hann reysti sér hurðarás um öxl, sprengði sig og hætti hlaupinu. Magnús Jakabsson vann hlaupið, Vigfús varð annar og Hinrik þriðji. Að hlaupi loknu varð Magnúsi að orði: Helvítis kvikindið hann var næstum því búinn sprengja okkur. Vigfús er  hagmæltur og var beðinn um að koma með eina góða. Hann brosti og sagði: Að undanförnu hefur verið blessunalega friður fyrir messum vegna veirunnar. Í því tilefni varð þessi vísa til:

Þó hann aldrei messi meir

og minnki andans kraftur.

Mér er vel við gamla Geir,

hann gengur kansi aftur.

Hinrik Guðmundsson var fæddur 1931 á Auðsstöðum í Hálsasveit.  Hann hóf keppni á héraðsmótum í lengri hlaupum og keppti þá fyrir Umf Brúna. Eftir smá hlé fór hann að keppa fyrir Umf Reykdæla og þá í spretthlaupum. Hann bjó á Auðsstöðum en flutti síðar að Bólu í Biskupstungum. Hinrik keppti á Landsmóti UMFÍ á Eiðum 1952 í 400 m og 1500 m hlaupum. Hann lést árið 2013.

Magnús Jakobsson er fæddur 1939 að Hömrum í Reykholtsdal og ólst þar upp. Hann keppti fyrst á héraðsmóti UMSB 13 ára gamall í 3000 m hlaupi. Varð hann annar í hlaupinu á eftir Hinrik Guðmundssyni. Hann keppti á héraðsmótum UMSB til ársins 1964 og aðallega í spretthlaupum og stökkum.  En stangarstökk var hans aðal grein. Hann var sigursæll á héraðsmótum UMSB og vann til eignar styttu sem Þórarinn Magnússon gaf 1956 sem stigahæsti einstaklingur mótsins. Hann vann hana þrjú á í röð og til eignar 1960. Tvö síðustu árin vann hann allar einstaklingsgreinar sem hann kepppti í auk boðhlaups. Árið 1965 skifti hann yfir í Breiðablik í Kópavogi. Hann keppti á landsmóti UMFI á Laugum 1961 í langstökki og boðhlaupi og varð þriðji í stangarstökki. Á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni og á Eiðum 1968 varð hann einnig  þriðji í stangarstökki. Á Sauðárkróki varð hann fyrir því óhappi að brjóta stöngina  og varð að hætta keppni vegna meiðsla. Hæst stökk hann 3,30 m í stangarstökki á stálstöng. Magnús byrjaði ungur að vinna að framgangi frjálsra íþrótta í Reykholtsdalnum og dreif íþróttastarfið áfram. Hann hélt því starfi áfram innan Breiðabliks eftir að hann flutti suður. Hann var í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands 1968-1986 og farsæll formaður 1989-1993. Þá var hann  liðsstjóri landsliðsins 1973-1982.  Hann var sérgreinastóri í frjálsum íþróttum og mótsstjóri á landsmótum UMFÍ frá því í Keflavík 1984 allt til Kópavogsmótsins 2007. Svo hægt er að segja að hann hafi sett svip sinn á frálsíþróttastarf hér á landi í yfir 50 ár. Þeir félagar hittust nýlega ásamt undirrituðum í Geirabakaríi fyrir skömmu og rifjuðu upp skemmtileg atvik frá íþróttaferlinum. Varð þar fagnaðarfundur því þeir félagar höfðu ekki hist í nokkra áratugi.