Lög UMSB

I. Kafli: Um sambandið

1. grein

Sambandið heitir Ungmennasamband Borgarfjarðar, skammstafað UMSB. Starfssvæði þess er Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. Heimili sambandsins og varnarþing er í Borgarnesi.

2. grein

Merki sambandsins er blár skjöldur með hvítri umgjörð. Á skildi þessum er skammstöfun sambandsins, UMSB, ásamt fjaðurpenna og laxi.

3. grein

Tilgangur UMSB er að efla samhug og samvinnu íþrótta- og ungmennafélaganna á sambandssvæðinu og stuðla að fjölbreyttu íþrótta- og félagsmálastarfi þeirra í samræmi við lög UMFÍ og ÍSÍ. Ennfremur að vera sameiginlegur málsvari félaganna út á við.

4. grein

Sambandið skal á hverjum tíma starfa eftir stefnu sem mörkuð skal af sambandsþingi.

5. grein

Rétt til aðildar að sambandinu hafa þau ungmenna- og íþróttafélög sem starfa eða munu starfa á sambandssvæðinu, enda séu lög þeirra og starfsemi í samræmi við lög UMSB, UMFÍ og ÍSÍ.

6. grein

Umsóknir um inngöngu í sambandið skulu sendar til stjórnar þess ásamt eintaki af lögum viðkomandi félags, upplýsingum um stjórn og félagaskrá. Félagið telst fullgildur aðili að sambandinu við samþykki stjórnar, þó með fyrirvara um staðfestingu sambandsþings og ÍSÍ.

7. grein

Ósk um úrsögn úr sambandinu skal tilkynna skriflega til sambandsstjórnar enda hafi úrsögnin verið samþykkt á lögmætum aðalfundi félagsins. Úrsögnin tekur gildi þegar stjórn hefur samþykkt hana en þó skal staðfesta hana á næsta sambandsþingi.
Eigi getur félag, sem gengur úr sambandinu, krafist endurgjalds á fé, sem það hefur lagt til sambandsins, eða nokkurs hluta af eignum þess. Úrsögn viðkomandi félags skal eigi tekin gild nema félagið sé skuldlaust við sambandið.

II. Kafli: Um aðildarfélög

8. grein

Hafi félag ekki skilað starfsskýrslum í tvö ár samfellt má stjórn UMSB gera tillögu til sambandsþings um að færa félagið á lista yfir óvirk aðildarfélög. Sé félag á lista yfir óvirk félög missir það allan rétt til greiðslna frá sambandinu og skal ekki tekið með við útreikning á slíkum greiðslum.
Óvirku félagi ber ekki skylda til að greiða gjöld til sambandsins.

9. grein

Árlega skal hvert aðildarfélag standa UMSB skil á árgjaldi af hverjum gjaldskyldum félaga í samræmi við ákvörðun sambandsþings. Eindagi gjaldanna er 15. júlí. Eftir eindaga er heimilt að skuldajafna gjaldið við inneign viðkomandi félags hjá UMSB.

10. grein

Við hver áramót skulu stjórnir sambandsfélaganna semja skýrslu um hag sinn og starfsemi, samkvæmt fyrirmælum UMFÍ og ÍSÍ. Skýrslu þessari skal skila eigi síðar en 15. febrúar.

III. Kafli: Um sambandsþing

11. grein

Sambandsþing UMSB er æðsta vald í málefnum UMSB og skal haldið árlega, eigi síðar en 30. apríl. Þó er stjórn heimilt, að fengnu samþykki formannafundar, að fresta þingi ef sérstakar ástæður liggja fyrir.
Sambandsstjórn ákveður þingstað og boðar til þings. Er það lögmætt sé það boðað með minnst eins mánaðar fyrirvara. Fundarboð, dagskrá og tillögur um breytingar á lögum sambandsins skal senda aðildarfélögum eigi síðar en 14 dögum fyrir þing.
Tillögur að lagabreytingum skulu sendar stjórn eigi síðar en þremur vikum fyrir þing.
Sambandsstjóri skal enn fremur boða til aukaþings telji hann þess þörf eða ef tveir þriðju sambandsaðila bera fram ósk um slíkt.

12. grein

Hvert aðildarfélag hefur rétt til að senda fulltrúa á sambandsþing. Fulltrúafjöldinn miðast við einn fulltrúa á hverja byrjaða 100 skattskylda félaga við undangengin áramót að 1000 félögum en einn fulltrúa fyrir hverja 200 félaga þar fyrir ofan. Formenn aðildarfélaganna (eða staðgenglar þeirra) eru sjálfkjörnir á þing sem fyrstu fulltrúar sinna félaga.
Atkvæðisrétt á sambandsþing hafa einungis kjörnir fulltrúar aðildarfélaganna. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum atkvæðagreiðslna nema um lagabreytingu sé að ræða.

13. grein

Dagskrá sambandsþings:
Setning
Kosning þingforseta og ritara
Kosning kjörbréfanefndar
Skýrsla stjórnar og reikningar
Álit kjörbréfanefndar
Kosning starfsnefnda þingsins
Inntaka nýrra aðildafélaga
Umræður um skýrslu stjórnar
Ávörp gesta
Lagðar fram tillögur og lagabreytingar, þ.m.t fjárhagsáætlun og árgjald félaga
Þinghlé – nefndir starfa
Tillögur starfsnefnda þingsins til umræðu og atkvæðagreiðslu
Reikningar bornir til atkvæðagreiðslu
Kosning stjórnar
Kosning á íþróttaþing ÍSÍ
Önnur mál
Þinggerð –  þingslit

IV. Kafli: Um stjórn

14. grein

Stjórn sambandsins skipa fimm menn: Sambandsstjóri, varasambandsstjóri, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi.
Sambandsstjóri skal kjörinn til eins árs í senn en kjörtímabil annarra stjórnarmanna skal vera tvö ár. Þannig skulu annað árið kjörnir varasambandsstjóri og gjaldkeri og varamenn þeirra en hitt árið ritari og meðstjórnandi og varamenn þeirra.
Gefi stjórnarmaður, sem sitja skyldi áfram eftir lögum þessum, kost á sér í starf sambandsstjóra eða annað starf innan stjórnar er heimilt að kjósa hann til þess og þá annan mann í hans stað fyrir þann tíma sem eftir er af kjörtímabilinu. Ennfremur skulu árlega kjörnir tveir skoðunarmenn reikninga  og tveir til vara. Reikningsár skal vera almanaksárið.

15. grein

Sambandsstjórn heldur fundi svo oft sem þurfa þykir. Skal boða alla stjórnarmenn eða varamenn í þeirra stað geti aðalmenn ekki mætt. Stjórn sambandsins hefur á hendi stjórn sameiginlegra mála aðildarfélaga sambandsins milli þinga, eftir þeim reglum og innan þeirra takmarkana sem lög og þingsamþykktir setja. Hún veitir mótttöku öllu því fé er sambandinu áskotnast, ávaxtar sjóði þess og fer með þá samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun. Kaup og sala á fasteignum sambandsins er bundin samþykktum sambandsþings.

16. grein

Stjórn sambandsins skal boða formenn allra aðildarfélaga og deilda þeirra til fundar eigi sjaldnar en tvisvar á ári, ásamt formönnum einstakra nefnda þegar ástæða þykir til. Skylt er formönnum að senda fulltrúa í sinn stað geti þeir ekki mætt.
Atkvæðisrétt á formannafundum hafa stjórn sambandsins og fulltrúar félaga en nefndarmenn aðeins ef um sérmálefni þeirra er að ræða. Aldrei fer þó einn og sami maður með nema eitt atkvæði.

17. grein

Rísi ágreiningur um lög eða reglur sambandsins úrskurðar stjórnin um það en þeirri niðurstöðu má skjóta til næsta sambandsþings.

V. Kafli: Önnur ákvæði

18. grein

Til breytingar á lögum þessum þarf 2/3 hluta atkvæða mættra fulltrúa á lögmætu sambandsþingi.

19. grein

Ef sambandið leysist upp eða hættir störfum skulu allar eignir þess renna í sjóð sem verði í vörslu UMFÍ en þó ávaxtaður í fjámálastofnun. Höfuðstól sjóðsins má eigi skerða en ráðstafa má 2/3 ársávöxtunar til íþrótta- og æskulýðsstarfs á sambandssvæði UMSB. Verði nýtt samband stofnað sem stefnir að sömu markmiðum og UMSB á sambandssvæðinu skulu eignir UMSB renna til þess.

20. grein

Lög þessi öðlast þegar gildi og eru með þeim úr gildi numin öll eldri lög sambandsins.

Reglugerð um skiptingu á lottótekjum UMSB

1. Forsendur skiptingar á milli félaga
Til að hljóta úthlutun samkvæmt reglugerð þessari þurfa félög að skila lögboðnum skýrslum til ÍSÍ og UMFÍ. Síðasti skiladagur þeirra skýrslna er 15. apríl ár hvert.

2. Skipting Lottótekna
a) 5 % í Afreksmannasjóð UMSB
b) 45 % til UMSB
c) 50 % til aðildarfélaga UMSB
3. Skipting lottótekna skv. c-lið 1. greinar milli aðildarfélaga og deilda
a) 10 % jafnt á milli allra aðildarfélaga
b) 10 % eftir fjölda mættra fulltrúa á þing UMSB
c) 80 % eftir fjölda félaga.

4. Skerðingar
Sendi félag ekki fulltrúa á formannafund UMSB skerðir það úthlutunarfé þess félags um 25 % við næstu úthlutun en hefur ekki áhrif á úthlutanir eftir það. Skerðingar samkvæmt þessari grein renna til UMSB.