Ungmennafélag Reykdæla hlaut Hvatningarverðlaun UMFÍ

Ungmennasamband Borgarfjarðar Reykdælir, UMSB

Fjögur íþrótta- og ungmennafélög hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ sem fram fór um helgina, þar á meðal Ungmennafélag Reykdæla.

Í frétt UMFÍ segir:
Ungmennafélag Reykdæla er kannski lítið félag – en það er borið uppi af svo miklu hugsjónafólki sem hugsar út fyrir rammann að starfið hefur sprungið út.
Á síðasta ári voru um 80 iðkendur hjá félaginu í allskonar greinum sem í boði voru. Skráningar í greinar voru um 120 þar sem iðkendur tóku þátt í fleiri en einni grein. Þetta er eftirtektarvert og til fyrirmyndar enda um tvöföldun frá fyrri árum. Ljóst er að þetta litla félag gerði iðkendum víðs vegar að úr Borgarfirði mögulegt að finna eitthvað við sitt hæfi.
Ljóst er að framboð greina er heilmikið miðað við hina frægu höfðatölu fyrir alla iðkendur á grunnskólaaldri. Þar að auki gerir félagið vel við iðkendur og hefur keypt treyjur fyrir allan hópinn. Með því móti er dregið úr kostnaði foreldra og tryggt að allir iðkendur verði með.
Starf Ungmennafélags Reykdæla byggir að stórum hluta á einstaklingsframtaki, vilja, drifkrafti, góðu fólki og góðum þjálfurum.
Stjórn UMSB óskar Ungmennafélagi Reykdæla innilega til hamingju með þessu verðskulduðu verðlaun.
Á myndinni má sjá Gunnhildi Gunnarsdóttur, svæðisfulltrúa á Vesturlandi, sem tók við Hvatningarverðlaununum fyrir hönd UMSB í fjarveru Guðrúnar Hildar Þórðardóttur, sambandsstjóra UMSB.

Deildu þessari frétt