Skrifstofa Sambandsins er við Skallagrimsgötu 7a, 310 Borgarnesi og er opin á mánudögum til föstudags milli kl.9-12 og kl.13-16.
Símanúmer á skrifstofunni er: 437 1411, 8613 – 379 og netfangið er umsb@umsb.is

SAGA UMSB 1912 –2002

Erindi Guðmundar Sigurðssonar flutt á 90 ára afmælishátíð UMSB 25. apríl  2002 í Logalandi

Aðdragandi að stofnum UMSB má rekja til þess þegar hópur ungra manna var á bændanámskeiði  á Hvanneyri sem haldið var  um mánaðarmótin  janúar- febrúar  1912. Á  þessu námskeiði voru komnir margir leiðandi félagar í ungmennafélögunum  sem höfu verið stofnuð á árunum á undan. Föstudagskvöldið  2. feb var haldinn undirbúningsfundur á Hvanneyri   þar sem félagar úr 7 ungmennafélögum úr héraðinu voru staddir og var  ákveðið að  efna til stofnfundar ungmennasambands ungmennafélaganna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Sá  fundur var haldinn að Hvítárbakka 26 apríl 1912, á fundinum mættu fulltrúar frá eftirtöldum ungmennafélögum: Reykdælum , Dagrenningu,  Íslendingi, Haukum, Birni Hítdælakappa Agli Skallagrímssyni og Baulu. Á þeim fundi var samþykkt að samþykkja lög og kjósa stjórn sem hvorutveggja var til bráðabirgða. Lögin voru síðan lögð fyrir hvert félag,  Um vorið tilkynntu öll þau félög sem fulltrúa áttu á fundinum þátttöku sína í  UMSB að auki Umf. Brúin.  Fyrsta stjórn skipuðu þeir Páll Zóphoníasson, formaður og meðstjórnendur þeir Bjarni Ásgeirsson og Jón Hannesson. Allir þessir menn áttu síðan eftir að verða áhrifamenn í þjóðfélaginu.

Fyrsta sambandsþingið var haldið á Hvanneyri í febrúar 1913.Strax á fyrstu árum UMSB einkendist starf þess af íþróttamótum sem var aðalstarf sambandsins. Fyrsta íþróttamót  UMSB var haldið á Hvítárbakka  í ágúst.1913, þar sem   piltar og stúlkur syntu í Hvítá . Flokkakeppni var í sundi og glímu og sigruðu Reykdælir þar  Keppt var í 500 og 100 m.hlaupum.  Íþrótttanámskeið  var haldið 1915 og stóð það í 14 daga. Í ýmsum greinum var keppt í á  íþróttamótunum.  meðal annars í kappslætti og kappreiðum.  1939 er fyrst keppt í handhnattleik kvenna  á héraðsmóti, sem varð síðan fastur liður á héraðsmótunum ásamt knattspyrnu. Á árunum upp úr 1930 gátu Borgfirðingar sér góðan orðstýr í keppnum utan héraðs sérstaklega í víðavangshlaupum.Héraðsmótin fóru fram  fyrstu árin á Hvítárbakka en 1919 fluttust þau  að  Þjóðólfsholti  á bökkum Hvítár í landi Ferjukots og var keppt þar allt fram til 1961.

Árið 1943 var 5. Landsmóti UMFÍ  haldið á Hvanneyri og hafði UMSB að flestu leyti veg og vanda að framkvæmd mótsins. Þar var byggð úti sundlaug 25 m löng veggir voru hlaðnir úr sniddu en tréþil í endum laugin var köld. Íþróttavöllur var gerður  á svo nefndri  Fit skammt frá bökkum Hvítár. Fitin er nenni slétt og hinn ákjósalegasti  íþróttavöllur. Þess ber að geta að knattpsyrnu keppnin á Landsmótinu í Borgarnesi 1997 fór þar fram.Á fjórða þúsund gesta sóttu landsmótið. Mótið gekk vel, að vísu var veður ekki sem ákjósanlegast,var nokkur kuldagjóstur.  Þótti undirbúningur og framkvæmd mótsins borgfirskum ungmennafélögum til sóma  Stjórn UMSB annaðist framkvæmdastjórn og í stjórn voru þá Þorgils Guðmundsson sambandsstjóri, Ingimundur Ásgeirsson og Ásmundur Jónsson.Allt frá stofnum UMSB höfðu skólamál verið mikið rædd á sambandsþingum og hafði UMSB alla tíð styrkt  alþýðuskólann á Hvítárbakka. Á sambandsþingi  UMSB 1928 urðu miklar umræður um skólamál sem enduðu með samþykkt tillagna sem mörkuðu skýra stefnu um upphaf  þess að Héraðsskólinn í Reykholti var stofnaður. UMSB vann einnig að því að  Húsmæðraskólinn  á Varmalandi yrði stofnaður  og styrkti skólabygginguna fjárhagslega. Samþykkt var á sambandsþingi 1935 til skólanefnda í héraðinu áskorum um að taka upp leikfimi kennslu á öllum barnaskólum. Var þeirri ályktum fylgt eftir.

Árið 1938 gekkst UMSB  fyrir stofnum Skógræktarfélags Borgarfjarðar.Á sambandsþingi 1939 var ályktað um virkjanamál, þar sem bent var á Andakílsárfossa sem álitlegan virkjunarstað. UMSB kom gaf út blaðið  Vor  sem kom út 1927-1933. Tímaritið Svanir var gefið út árið 1939  sem birti greinar, sögu og ljóð það átti að koma út sem ársrit UMSB en kom aðeins einu sinni út. Á sambandsþingi 1962 staðfesti UMSB aðild að byggðasafn í héraðinu ásamt fleiri félagasamtökum.Íþróttafólk frá UMSB tók þátt í landsmótum UMFÍ frá fyrstu tíð og árið 1961 fór fríður flokkur íþróttamanna norður í Lauga í Suður Þingeyjarsýslu og eru það min fyrstu kynni af  borgfirsku íþróttafólki þar fylgdist ég 12 ára strákur  með borgfirsku hlaupurunum vinna sínar greinar, Björk Ingimundardóttir vann 100 m hlaupið og Haukur Engilbertsson  1500 og 5000 m þar var hann lang fyrstur nærri hring á undan næsta manni. Er það hlaup  er  mér mjög eftirminnilegt. Þá sýndi  UMSB hópurinn  slíka framkomu og umgengni að hópurinn var sæmdur háttprýðisverðlaununum  mótsins og kom það í hlut Ragnars Olgeirssonar þáverandi sambandsstjóra að taka við gripnum. Eftir þetta leit ég upp til  Borgfirðinga og voru þeir prúðmenni og  fyrirmyndafólk  í mínum huga  sem ég fékk síðan  staðfest sjö árum síðar þegar ég kynntist þeim að eigin raun.

Á sambandsþingi 1963 voru samþykktar tillögur um merkingar vega og sveitabýla og hafði UMSB frumkvæði þar um.Um sumarið 1965  var fyrsta frjálsíþróttamótið haldið á  Varmalandsvellinum en mörg undan farin ár hafði verið unnið við völlinn og hann kostað sambandið allmikið. Við þetta batnaði aðstaða til íþróttaiðkanna. Síðar fluttust íþróttamótin í Borgarnes.UMSB starfrækti sumarbúðir fyrir unglinga að Varmalandi 1965 og voru þær fastur liður í starfsemi UMSB um árabil. Síðar voru þær starfræktar á á árunuim 1983-1989.  Til ársins 1967 hafði stjórnin annast alla framkvæmdarstjórn sjálf og ekki haft fastan starfsmann en þá var fyrsti framkvæmdarstjóri UMSB ráðinn sem var Höskuldur Goði Karlsson en áður hafði hann komið að stjórnum sumarbúða og íþróttaþjálfunar. Breytti þetta miklu um starfsemi  UMSB og  á næstu árum varð allmikil gróska í íþróttastarfi UMSB en árin þar á undan hafði verið lægð í íþróttastarfinu.

Undir forustu Sigurðar Guðmundssonar á Leirá er komið á unglingamóti á Leirá 1968 svokölluðum vorleikum sem  haldir hafa verið fram til þessa en er nú orðnir hluti af héraðsmóti UMSB og haldnir í Borgarnesi.. Án efa hafa vorleikarnir haft mjög jákvæð áhrif á allt frjálsíþróttastarf hjá UMSB.Á þinginu 1967 var samþykkt að heimila stjórninni að gangast fyrir útihátíð. Farið var stað strax um vorið að undirbúa útihátíð að Húsafelli sem haldin var um verslunarmannahelgina. Vandað var til skemmtiatriða og tókst samkoman vel. Mikil vinna var á höndum ungmennafélaga til að sem best tækist.Alls komu  um 7000 manns á hátíðina. Á næstu árum voru útihátíðar haldnar og árið 1970 er talið að yfir  20000 manns hafi sótt hátíðin. Síðasta útihátíðin var haldin 1976. Árið 1987 var  Húsafellsmótið endurvakið en þá á öðrum stað í landi Húsafells. Ekki varð um frekari samkomur.Árin eftir Húsafellsmótin hét UMSB dansleiki í nokkur ár um verslunarmannahelgina.. Árið 1975 kom í hlut Borgfirðinga að sjá um 15. Landsmót UMFÍ í fyrstu var talað um að halda það á Varmalandi og Húsafelli jafnvel víðar í héraðinu, en niðurstaðan var að það var haldið á Akransi í samvinnu við við UMF. Skipaskaga. Sigurður Guðmundsson á Leirá var formaður landsmótsnefndar og Ingólfur Steindórsson var framkvændarstjóri.. Mótið tóks í alla staði vel og fór vel fram og eitt glæsilegasta landsmót til þess tíma. En gestafjöldi brást og varð mótið UMSB  fjárhagslega erfitt. UMSB hefur oft staðið fyrir skemmtanahaldi  til fjáröflunar.Árið 1969 var háð  spurningarkeppni  milli sambandsaðila  og einnig 1981. Árið  1984 var spurningakeppni milli sveitarstjórnarmanna og 1991 milli aðildarfélaga ungmennafélaga.

Þessar skemmtanir voru vinsælar og gáfu nokkrar tekjur. UMSB tók þátt í Borgfirðingavöku 1974 í samstarfi við önnur félagasamtök í héraðinu.  Ekki voru þessar samkomur árlega  síðast var haldin Borgfirðingavaka 1989. Árið 2001 var staðið að svokölluðu Vorblóti, þar sem listamenn úr héraðinu komu saman í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og skemmtu til styrktar ferð á Landsmót UMFÍ á Egilsstöðum seinna um sumarið.  Það var á árinu 1989 sem  samstarf hófst milli Ungmennasambands Borgarfjarðar og Sparisjóðs Mýrasýslu um Sparisjóðshlaupið að frumkvæði  Bjarna Bjarnasonar. Bjarni  gaf veglegan farandbikar  sem sigursveitin hlýtur og er bikarinn enn í umferð.  Sparisjóðurinn sem er aðal styrktaraðili UMSB hefur kostað hlaupið og boðið öllum þátttakendum að loknu hlaupi  í veitingar  á Hótelinu í Borgarnesi. Bjarni Bjarnason gaf einnig farandbikar til Helgusunds. En það var keppni um sund frá Geirshólma í Helguvík.í Hvalfirði. Aðeins einu sinni hefur verið tekið þátt í þessu sundi árið 1992 og var einn keppandi Kristinn Einarsson  sem synnti.. Þetta var merkt framtak en mikinn viðbúnað þurfti til þess að  gæti orðið að sundinu og hefur stjórn UMSB ekki treyst sér í frekari keppni. Skrifstofu og fundaraðstaða UMSB var í mörg ár á heimili sambandsstjóra þar sem hann geymdi þau gögn sem fylgdu starfinu  í árslok 1982 fékk UMSB inni í herbergi í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og síðar var innréttuð skrifstofa í bílskúrnum hjá Ingimundi Ingimundarsyni árið 1986 þegar hann tók við framkvæmdastjórn UMSB.

Árið 1988 var keypt núverandi húsnæði að Borgarbraut 61. Við það stórbatnaði öll aðstaða stjórnar og starfsmanna. Árið 1987 hóf UMSB útgáfu á héraðsfréttablaðinu Borgfirðingi í samvinnu við verkalýðsfélagið í Borgarnesi Ingimundur Ingimundarson var driffjöðrin að blaðinu og fyrsti ritstjóri. Blaðið kom út til ársins 1996. Þá var það selt. 1988 samþykkti ÍSÍ reglur um aðild hestamannafélaganna að ÍSÍ 1990 gengu  íþróttadeildir hestamannafélaganna Skugga og Faxa í UMSB. Íþróttafélagið Kveldúlfur var stofnað 1992 og gekk þá í UMSB. Íþróttafélagið er félag fatlaðra.

Meðal þeirra fjáraflana sem unnið hefur verið  að árlega er  að gefa út þjónustualmanak UMSB, dagatal í A3 formi með handhægum upplýsingum um símanúmer fyrirtækja og stofnana í héraðinu. Jólamerki hafa árlega verið gefin út með myndum af kirkjum úr héraðinu. Myndirnar eru teiknaðar af Guðmundi Sigurðssyni í Borgarnesi. Árið 1998 komst á samstarf milli Skógræktarfélags Borgarfjarðar og UMSB um skógargöngur á afmælisári Skóræktarfélagsins. Göngurnar um skóga Borgarfjarðar urðu alls 10. Næsta ár var ákveðið að UMSB stæði fyrir kvöldgöngum vítt um héraðið. Var farið í 8 kvöldgöngur 1999 , 9 árið 2000 og 10 árið 2001.

Íþróttamaður Borgarfjarðar var fyrst kjörin árið 1980 og hlaut langhlauparinn Jón Diðriksson þann titil fyrstur Borgfirðinga. Síðan hefur bikarinn verið veittur árlega. Árið 2001 hlaut einnig hlaupari titilinn en það var Gauti Jóhannesson. 22. landsmót UMFÍ var haldið í Borgarnesi 1997, þetta eitt  stæðsta verkefni sem UMSB hefur ráðist í og hófst undirbúningur árið 1994.  Formaður landsmótsnefndar var Ingimundur Ingimundarson og  framkvæmdarstjóri Kristmar Ólafsson. Bæjarstjórn Borgarnss sýndi málinu strax áhuga sem hún fylgdi eftir. Byggður var upp fullkominn frjálsíþróttavöllur og byggð útisundlaug. Vel tókst með þessar framkvæmdir og er aðstaðan hin glæsilegasta. Hefur hún verið íþróttalífi í héraðinu mikil lyftistöng.Mótið tókst mjög vel og var gerður góður rómur hvað varðaði skipulag allt,  sérstaklega skipulag starfsmannamála, var gott.Mótið skilaði hagnaði til UMSB.  Þó UMSB hafi víða komið að  málefnum í héraði hafa íþróttir ætið verið aðalastaf UMSB og hefur það séð um fjölda íslands- og bikar móta í gegn um árin. Með tilkomu glæsilegrar íþróttaaðstöðu í Borgarnesi hefur UMSB tekið að sér nokkur stór mót. Fyrir utan Landsmótið 1997  má nefna árið 1998 Meistarmót Íslands 15- 22 ára  1999 Meistarmót Íslands 12-14 ára, öldungamót íslands   og Aldursflokkameistaramót íslands í sundi.  Árið 2000 Norðurlandamót unglinga sem var mjög krefjandi mót. Öll þessi mót kröfðust mikillar vinnu og komust félaga UMSB vel frá þeim og nutu lof fyrir gott starf. Í heild gáfu þessi  mót UMSB góðar tekjur og mikla vinnu.

Íris Grönfeldt hefur verið héraðsþjálfari frá haustinui 1989 og hefur  borið hitann og þungann af úrvalsliði UMSB í frjálsum íþróttum, jafnframt því  að halda úti héraðsæfingum fyrir alla aldurshópa. Ekki er hægt að ræða íþrótttamál í héraðinu án þess að nefna í Ingimund Ingimundarsson en hann var um árabil þjálfari í sundi og frálsum íþróttum bæði í launuðu og ólaunuðu starfi, einnig kom hann að þjáfun í borðtennis og átti UMSB öflugt borðtennis lið um tíma. Margir aðrir hafa komið að þjáfum íþróttafólks  UMSB þó þessi tvö séu hér nefnd.  Héraðsmót í sundi og frjálsum íþróttum hafa verð haldin árlega og mörg önnur mót innan héraðs. Um tíma var haldið héraðsmót í borðtennis en ekki nú á seinni árum. Héraðsmót í hestaíþróttum hefir að minsta kosti tvisvar verið haldið. Íþróttafólk innan raða UMSB hefur tekið þátt í mörgum mótum á landsvísu og hlotið marga íslandmeistaratitla og keppt á erlendri grundu og ber hæst Ólympíuleikjafarana þau Einar Vilhjámsson,  Írisi Grönfeldt og Einar Trausta Sveinsson.UMSB hefur alla tíð haft metnað til  að senda föngulegan hóp á Landsmót  UMFÍ og hefur  oft náð góðum árangri þó að liðið hafi oft verið ungt að árum. UMSB hefur staðið fyrir íþróttaferðum eða æfingabúðum erlendis í nokkur skipti nú síðast til Portugals um síðustu páska með frjálsíþróttafólk.

Sumarið 2001 kom upp sú hugmynd að stofna þjónustumiðstöðvar UMFÍ út um landið. Í febrúar var skrifað undir samning við UMFÍ um stofnun þjónustumiðstöðva UMFÍ, í Borgarnesi á vegum UMSB, ásamt fjórum öðrum héraðssamböndum. Þjónustusvæði miðstöðvar UMFÍ í umsjá UMSB er svæði Umf. Skipaskaga á Akranesi, HSH, UDN og USVH. Það er því nú í okkar höndum að vinna markvisst að uppbyggingu þjónustumiðstöðvar UMFÍ í Borgarnesi. Núverandi samningur gildir út árið og því mikilvægt að standa vel að verkefninu,  þannig að það verði í umsjá UMSB til lengri tíma. Hér er komið að nýjum starfvettvangi UMSB sem vonandi á eftir að efla og styrkja það starf sem hingað til hefur verið unnið. Hér mun ég láta staðar numið. Helstu heimildir sem ég hef unnið eftir eru afmælisrit UMSB og ársskýrslur og mikið stuðst við greinar Jóns A Guðmundssonar frá Innra Hólmi sem rakti sögu UMSB fyrstu 60 árin. Það er ljóst að hér hefur verið styklað á stóru og ekki getið þeirra fjölmörgu sem borið hafa starf UMSB uppi hver á sínum tíma. Þeirra verður vonandi minnst ef ráðist verður í að skrifa sögu UMSB fyrir 100 ára afmælið.

G.Sig.

 

Sögubrot úr sögu UMSB.

Frækin boðhlaupssveit Reykdæla

Héraðsmet í boðhlaupi hefur staði óhaggað í 63 ára.

Á 10. Landsmóti UMFÍ á  Þingvöllum 1957 sendi UMSB sveit í 1000 m boðhlaup. Það sérstaka við sveitina var að liðsmenn hennar voru allir úr sama félaginu, Umf Reykdæla. Jón Blöndal 24 ára hljóp 100 m og keppti  í 100 m hlaupi og langstökki. Vigfús Pétursson 21 árs hljóp 200 m nýkominn úr 1500 m hlaupi. Hinrik Guðmundsson 26 ára hljóp 300 m og keppti í 100 m hlaupi, og Magnús Jakobsson 18 ára hljóp 400 m og keppti einnig í 100 m hlaupi. Meðalaldur sveitarinna var rúm 22 ár.  Þetta er í fyrsta og eina skiptið sem UMSB sendi bolhlaupssveit á mót þar sem allir eru úr sama félaginu. Árangurinn var því hérðasmet félagssveitar og stendur enn 63 árum síðar. Aðrir sem kepptu fyrir UMSB á landsmótinu í frjálsum íþróttum voru: Bjarni Guðráðsson Nesi í þrístökki og kúluvarpi. Jón Eyjólfsson Fiskilæk kringlukasti og Sveinn Jóhannesson Flóðatang í kúluvarpi og kringlukasti.

En hverjir voru þessir félagar í boðhlaupssveitinni og hver var íþrótta- og lífsferill þeirra?

Jón Blöndal er fæddur 1933 og uppalinn á Laugarholti í Andakíl. Hann er stúdent frá MR en gerðist síðar bónd á fæðingarbæ sínum. Hann keppti  á héraðsmótum UMSB í 100 m hlaupi langstökki, þrístökki, spjótkast og boðhlaupum. Jón keppti í 100 m, langstökki og þrístökki á Landsmóti UMFÍ á Akureyri 1955. Besti árangur hans var 6,59 m í langstökki, sem er annar besti árangur UMSB manns frá upphafi. Vigfús Pétursson er fæddur 1936 og uppalinn í Hægindi í Reykholtsdal. Hann varð síðar bóndi á Hægindi. Hann byrjaði að keppa á héraðsmótum UMSB 17 ára 1953. Fyrst keppti hann í lengri hlaupum en bætti síðar við þrístökki og kringlukasti. Hann keppti í 29 ár á héraðsmótunum og síðustu árin eingöngu í kringlukasti. Hann taldi að besti árangur sinn væri  í 800 m hlaupið á vísluhátíð Laugardalsvallar 1959. Þá hljóp hann 800 m í fyrsta og eina skiptið á 2:10,2 mín.  Hann rifjaði upp skemmtilegt atviki á einu mótanna á Ferjukotsbökkum. Reykdælir höfðu stefnt að því að vinna tvöfalt í 400 m hlaupi. Með þeim í riðli var ungur maður úr Leirársveitinni sem hóf hlaupið með miklum látum, þannig að þeir félagar höfðu vart við honum. En hann reysti sér hurðarás um öxl, sprengði sig og hætti hlaupinu. Magnús Jakabsson vann hlaupið, Vigfús varð annar og Hinrik þriðji. Að hlaupi loknu varð Magnúsi að orði: Helvítis kvikindið hann var næstum því búinn sprengja okkur. Vigfús er  hagmæltur og var beðinn um að koma með eina góða. Hann brosti og sagði: Að undanförnu hefur verið blessunalega friður fyrir messum vegna veirunnar. Í því tilefni varð þessi vísa til:

Þó hann aldrei messi meir

og minnki andans kraftur.

Mér er vel við gamla Geir,

hann gengur kansi aftur.

Hinrik Guðmundsson var fæddur 1931 á Auðsstöðum í Hálsasveit.  Hann hóf keppni á héraðsmótum í lengri hlaupum og keppti þá fyrir Umf Brúna. Eftir smá hlé fór hann að keppa fyrir Umf Reykdæla og þá í spretthlaupum. Hann bjó á Auðsstöðum en flutti síðar að Bólu í Biskupstungum. Hinrik keppti á Landsmóti UMFÍ á Eiðum 1952 í 400 m og 1500 m hlaupum. Hann lést árið 2013.

Magnús Jakobsson er fæddur 1939 að Hömrum í Reykholtsdal og ólst þar upp. Hann keppti fyrst á héraðsmóti UMSB 13 ára gamall í 3000 m hlaupi. Varð hann annar í hlaupinu á eftir Hinrik Guðmundssyni. Hann keppti á héraðsmótum UMSB til ársins 1964 og aðallega í spretthlaupum og stökkum.  En stangarstökk var hans aðal grein. Hann var sigursæll á héraðsmótum UMSB og vann til eignar styttu sem Þórarinn Magnússon gaf 1956 sem stigahæsti einstaklingur mótsins. Hann vann hana þrjú á í röð og til eignar 1960. Tvö síðustu árin vann hann allar einstaklingsgreinar sem hann kepppti í auk boðhlaups. Árið 1965 skifti hann yfir í Breiðablik í Kópavogi. Hann keppti á landsmóti UMFI á Laugum 1961 í langstökki og boðhlaupi og varð þriðji í stangarstökki. Á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni og á Eiðum 1968 varð hann einnig  þriðji í stangarstökki. Á Sauðárkróki varð hann fyrir því óhappi að brjóta stöngina  og varð að hætta keppni vegna meiðsla. Hæst stökk hann 3,30 m í stangarstökki á stálstöng. Magnús byrjaði ungur að vinna að framgangi frjálsra íþrótta í Reykholtsdalnum og dreif íþróttastarfið áfram. Hann hélt því starfi áfram innan Breiðabliks eftir að hann flutti suður. Hann var í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands 1968-1986 og farsæll formaður 1989-1993. Þá var hann  liðsstjóri landsliðsins 1973-1982.  Hann var sérgreinastóri í frjálsum íþróttum og mótsstjóri á landsmótum UMFÍ frá því í Keflavík 1984 allt til Kópavogsmótsins 2007. Svo hægt er að segja að hann hafi sett svip sinn á frálsíþróttastarf hér á landi í yfir 50 ár. Þeir félagar hittust nýlega ásamt undirrituðum í Geirabakaríi fyrir skömmu og rifjuðu upp skemmtileg atvik frá íþróttaferlinum. Varð þar fagnaðarfundur því þeir félagar höfðu ekki hist í nokkra áratugi.