Sambandsþing UMSB 2018

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Gott sambandsþing Ungmennasambands Borgarfjarðar haldið á Hvanneyri

96. sambandsþing UMSB var haldið miðvikudaginn 14.mars í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Dagskrá þingsins var hefðbundin og í samræmi við lög sambandsins. Góðir gestir komu á þingið en það voru þau Jóhann Steinar Ingimundarson úr stjórn UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ. Jóhann ávarpaði þingið ásamt því að veita Kristjáni Gíslasyni starfsmerki UMFÍ fyrir gott starf í þágu hreyfingarinnar. Jóhann veitti einnig Rósu Marinósdóttur gullmerki UMFÍ en eins og fram kom í umsögn um hana þá hefur hún verið burðarrás í íþróttastarfi innan UMSB í fjölda ára.

Sjö aðilar fengu úthlutað styrk úr afreksmannasjóði UMSB. Það voru þeir Bjarki Pétursson fyrir golf, Máni Hilmarsson fyrir hestaíþróttir, Daði Freyr Guðjónsson fyrir dans og fyrir körfubolta þeir Arnar Smári Bjarnason, Bjarni Guðmann Jónsson og Sigurður Aron Þorsteinsson.

Þingstörf gengu vel enda reyndir ungmennafélagar sem stýrðu þinginu en Rósa Marinósdóttir og Guðmundur Sigurðsson voru þingforsetar í ár.

Þingfulltrúar voru ánægðir að sjá að rekstur UMSB skilaði hagnaði. Mikilvægt er að viðhalda áfram góðum rekstri sambandsins.  

Samstaða var um þær tillögur sem afgreiddar voru á þinginu og fundarmenn voru sáttir með gott þing. Sveitarfélögum innan UMSB var sérstaklega þakkaður stuðningurinn og samstarfið á liðnu ári. Stuðningur sem þessi gerir UMSB kleift að halda úti öflugu starfi.  Einnig voru samþykktar tillögur t.d. tillaga að setja á laggirnar nefnd til að efla þátttöku eldri ungmennafélaga, um að hvetja Borgarbyggð til að setja upp æfingatæki á útivistasvæðum í Borgarbyggð og um að koma af stað nefnd til að fara yfir sögu UMSB svo eitthvað sé nefnt.

Samþykkt var að stofna faghóp sem vinnur að gerð verkferla sem félögum ber að fylgja ef upp koma atvik sem ná m.a. til agabrota, ávana– og vímuefnanotkunar, eineltis, kynferðisbrota, alvarlegra veikinda, áfalla, slysa og andláts. Hópurinn verður skipaður einum aðila frá Borgarbyggð, þremur aðilum frá UMSB og einum aðila frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.  

Á þinginu var kosið í nýja stjórn UMSB. Sólrún Halla sambandsstjóri gaf ekki kost á sér til endurkjörs en hún hefur verið í stjórn frá árinu 2013. Henni voruð þökkuð góð störf á þeim tíma sem hún starfaði sem sambandsstjóri. Ný stjórn UMSB skipar því nú:
María Júlía Jónsdóttir sambandsstjóri, Guðrún Þórðardóttir vara sambandsstjóri, Hafdís Ósk Jónsdóttir vara varasambandsstjóri, Sigríður Bjarnadóttir gjaldkeri, Kristín Gunnarsdóttir ritari, Anna Dís Þórarinsdóttir meðstjórnandi, Þórður Sigurðsson vara ritari, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson varagjaldkeri

Framundan eru fjölbreytt, mikilvæg og skemmtileg verkefni innan UMSB. Eitt af þeim er að fylgja eftir þeim tillögum sem samþykktar voru á þinginu. Í ár eru tveir stórir viðburðir á vegum UMFÍ, Landsmót UMFÍ sem verður haldið á Sauðárkróki og unglingalandsmót UMFÍ verður haldið í Þorlákshöfn. Gaman verður að sjá keppendur frá UMSB spreyta sig á mótum sumarsins.

 

Deildu þessari frétt