Vegna Covid-19 þarf að gera ráðstafanir sem vert er að fara yfir.
Ýmsar takmarkanir eru á íþróttastarfi til að hefta útbreiðslu kórónuveiru. Tekið skal fram að hömlurnar ná ekki til barna í leik- og grunnskólum. Samt er mikilvægt að fara varlega og því er gott að fara yfir nokkrar aðgerðir sem ákveðið var að far í og varða íþróttastarf innan UMSB.
- Nú ganga öll börn sem koma í íþróttahúsið í Borgarnesi inn um ská ganginn. Það er inngangurinn að neðan gengið inn frá úti körfuboltavellinum. Þar eru snagar sem hægt er að hengja töskuna sína upp og úlpur.
- Anddyrið í íþróttahúsinu í Borgarnesi verður nú afmarkað þannig að ekki verður hægt að fara um allt húsið.
- Áfram er hægt að bíða í horninu þar sem sjónvarpið og salernin eru. Þar hafa þau verið að borða nestið sitt.
- Mælst er til þess að krakkar verji eins stuttum tíma og kostur er í biðrýminu.
Aðrar almennar upplýsingar:
Heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýjar reglugerðir um takmarkanir á samkomum og skólahaldi. Áhorfendur verða ekki leyfðir á íþróttaleikjum innandyra og takmarkað við 100 manns á leikjum utandyra, eins metra nándartakmörkun verður í búningsklefum og öðrum svæðum íþróttafólks og skal sótthreinsa keppnisáhöld á milli notenda.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra byggir reglugerðina á. Minnisblaðið kveður á um hertar samfélagslegar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu.
Í tillögum sóttvarnalæknis segir að í hertari aðgerðum felist að frá og með 5. október verði 20 manna fjöldatakmörkun með ákveðnum undantekningum og að líkamsræktarstöðvum verði lokað. Sundlaugar verða áfram opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.
Gerð verður sérstök grein fyrir reglum í íþrótta- og menningarstarfsemi í auglýsingu en ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum.
Tekið er fram í minnisblaði sóttvarnalæknis sem nýjar aðgerðir grundvallast á að engar hömlur gilda hjá börnum sem fædd eru 2005 og síðar heldur einungis hjá eldri einstaklingum. Um þá einstaklinga gildir 20 manna hámarksreglan og eins metra nándartakmörkun. Lögð verði áhersla á einstaklingsbundnar smitvarnir eins og kostur er. Sama gildir um æskulýðsstarf, íþróttir og tómstundir leik- og grunnskólabarna.
Ítarlegri tillögur um íþróttastarf:
Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Áhorfendur á íþróttaleikjum: Óheimilt er að leyfa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímu.
Frekari skilyrði:
- Sérsambönd ÍSÍ geri reglur um framkvæmd æfinga og keppni í sínum greinum.
- Reglurnar verði unnar í samvinnu við ÍSÍ sem leitar sérfræðiráðgjafar hjá sóttvarnalækni.
- Eins metra nándartakmörkun verði virt í búningsklefum og öðrum svæðum utan keppni og æfinga skv. reglum hvers sérsambands ÍSÍ.
- Keppnisáhöld verði sótthreinsuð milli notenda eins og kostur er og samkvæmt reglum hvers sérsambands ÍSÍ.
- Íþróttir sem ekki eru innan ÍSÍ njóti sömu leiðbeininga og sambærilegar íþróttir innan ÍSÍ.
Sjá nánar á heimasíðu heilbrigðisráðuneytis: COVID-19: Hertar samkomutakmarkanir taka gildi 5. október
Deildu þessari frétt