Kjör Íþróttamanneskju Borgarfjarðar 2025 fór fram við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti í dag, 25. janúar.
Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2025 er Helgi Guðjónsson en hann átti án efa sitt besta ár í fyrra þar sem hann var einn besti leikmaður fyrnasterks liðs Víkings Reykjavík sem varð Íslandsmeistari árið 2025.

Á myndinni má sjá Helga ásamt Guðrúnu Hildi Þórðardóttur, sambandsstjóra UMSB
Hlaut Helgi 9,6 stig í kjörinu.
Í 2. sæti var Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir með 9,4 stig
Í 3. sæti var Kristín Þórhallsdóttir með 8 stig.

Á myndinni frá vinstri eruÓlafur Daði Birgisson, formaður Umf. Stafholtstungna, sem tók við verðlaununum fyrir hönd Kristínar, Helgi Guðjónsson, íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2025, Helga Jensína Svavarsdóttir, móðir Guðrúnar Karítasar, sem tók við verðlaununum fyrir hennar hönd ásamt Guðrúnu Hildi Þórðardóttur, sambandsstjóra UMSB.
Í 4. – 10. sæti voru, í stafrófsröð:
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – sund
Heiður Karlsdóttir – körfuknattleikur
Kristín Eir Holaker Hauksdóttir – hestaíþróttir
Magnús Engill Valgeirsson – körfuknattleikur
Sindri Karl Sigurjónsson – frjálsar íþróttir
Sveinn Svavar Hallgrímsson – knattspyrna
Sævar Alexander Pálmason – körfuknattleikur

Efri röð frá vinstri: Sara, systir Kolbrúnar Eirar, Kolbrún Eiríksdóttir, amma Guðbjargar Bjarteyjar, Berglind Ragnarsdóttir mamma Heiðar, Magnús Engill, Sindri Karl, Kristján Karl bróðir Sveins Svavars og Sævar Alexander Pálmason. Fremri röð frá vinstri: Ólafur Daði fyrir hönd Kristínar, Helgi og Helga Jensína fyrir hönd Guðrúnar Karítasar.
Viðurkenningar voru veittar fyrir val í landslið á árinu auk þess sem veitt var auka úthlutun úr Afrekssjóði UMSB til að styðja við bakið á afreksíþróttafólkinu okkar.
Viðurkenningar fyrir val í A-landslið hlutu:
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – sund
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir – frjálsar íþróttir
Kristín Þórhallsdóttir – kraftlyftingar
Viðurkenningar fyrir val í yngri landslið hlutu:
Anna Björk Þórisdóttir – Píla
Brynjar Þór Bjarnason – Frjálsar
Eyja Rún Gautadóttir – Frjálsar
Heiður Karlsdóttir – Körfuknattleikur
Sindri Karl Sigurjónsson – Frjálsar

Frá vinstri: Guðrún sambandsstjóri, Anna Björk, Rósa Marínós fyrir hönd Brynjars Þórs, Jóhannes Guðjónsson fyrir hönd Eyju Rúnar, Berglind fyrir hönd Heiðar, Sindri Karl, Kolbrún fyrir hönd Guðbjargar Bjarteyjar og Helga Jensína fyrir hönd Guðrúnar Karítasar.
Samhliða kjöri Íþróttamanneskju Borgarfjarðar eru jafnframt veitt Hvatningarverðlaun UMSB, Auðunsbikarinn og Maraþonbikarinn.
Hvatningarverðlaun UMSB
Hvatningarverðlaun UMSB voru veitt í þriðja sinn í ár en þau sem geta hlotið hvatningarverðlaun UMSB eru aðildarfélag, deild innan aðildarfélags eða einstaklingur innan aðildarfélags UMSB fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sem skara framúr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins.
Hvatningarverðlaun UMSB 2025 hlaut Sigríður Bjarnadóttir
Sigríði eða Siggu Manna eins og hún er jafnan kölluð, þekkja flest sem hafa verið í kringum íþróttastarf í Borgarbyggð sem og víðar.
Sigga hefur starfað innan íþrótta- og ungmennahreyfingarinnar um árabil og gegnt fjölbreyttum og ábyrgðarmiklum hlutverkum. Hún var m.a. formaður Badmintonsambands Íslands á árunum 2005–2011. Árið 2011 var Sigga valin í nefnd á vegum Evrópska badmintonsambandsins, European Women in Badminton, sem hafði það að markmiði að efla stöðu kvenna á öllum sviðum badmintoníþróttarinnar, meðal annars meðal iðkenda, keppenda, þjálfara, dómara og leiðtoga. Hún var ein af tólf konum víðs vegar að úr Evrópu sem valdar voru til setu í nefndinni og var það mikill heiður fyrir íslenska badmintoníþrótt að eiga þar fulltrúa.
Þá gegndi Sigga um tíma starfi gjaldkera UMSB og er í dag formaður körfuknattleiksdeildar Skallagríms í Borgarnesi en því hlutverki hefur hún gegnt sl. fimm ár.
Fyrir störf sín hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga, sem endurspegla það traust og þá virðingu sem hún nýtur innan hreyfingarinnar, meðal annars gullmerki ÍSÍ árið 2022 fyrir sínu góðu störf í þágu badmintoníþróttarinnar á Íslandi og íþróttastarfs á starfssvæði UMSB.
Sigga hefur verið ómetanleg fyrir íþróttastarf í héraðinu enda fáir sem hafa gefið jafn mikið af tíma sínum í sjálfboðavinnu. Hún er dugleg að ganga í verkefni og er oft með fjölda mála í vinnslu á sama tíma. Þá er ekkert verkefni of lítið eða stórt, hvort sem um ræðir fundarsetur, skipulagningu viðburða, fjármál, gæslu, sjoppu, nytjamarkað eða önnur verkefni, hún er ávallt boðin og búin til að leggja sitt af mörkum þar sem þörf er á hverju sinni.
Að vinna við hlið Siggu er mjög gott og hvetjandi þar sem hún býr yfir smitandi eldmóði og hrífur þannig aðra með sér. Hún er vakin og sofin yfir hagsmunum deildarinnar, leggur sig fram við að vera vel inni í öllum málum og sýnir einstaka óeigingirni þegar kemur að tíma og vinnuframlagi.
Stjórn UMSB vill með veitingu Hvatningarverðlaunanna þakka Siggu fyrir hennar ómetanlega framlag í gegnum tíðina, og við þykjumst vita að hún er hvergi nærri hætt.

Auðunsbikarinn
Auðunsbikarinn var afhentur í 31. sinn í ár en Auðunsbikarinn er veittur af Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar sem lést, 2. ágúst 1995, aðeins 14 ára gamall. Bikarinn er veittur 14 ára unglingi sem þykir efnilegur í íþrótt sinni, sýnir metnað í ástundun og framkomu og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan.
Tilgangur viðurkenningarinnar er að minnast Auðuns Hlíðkvist og einnig að styðja við og hvetja áfram unga og efnilega íþróttamenn á svæðinu.
Í ár hlaut Steinar Orri Hermannsson Auðunsbikarinn. Í umsögn um Steinar Orra segir að ekki einungis standi hann sig vel í íþróttum heldur er hann kurteis og jákvæður leiðtogi sem leggur sig alltaf allan fram, hvort heldur sem er innan eða utan vallar.

Vill stjórn UMSB einnig nýta tækifærið og þakka þeim hjónum Írisi og Kristmari fyrir afskaplega gott og farsælt samstarf.

Hér má sjá nokkra af fyrri handhöfum Auðunsbikarsins samankomna, virkilega skemmtilegt augnablik.

Maraþonbikarinn
Maraþonbikarinn var gefinn af Bjarna Bjarnasyni, eða Bjarna hlaupara eins og hann var kallaður, á sínum tíma og er veittur fyrir besta tímann í maraþonhlaupi á árinu. Í ár kom kunnuglegt nafn aftur á bikarinn en besta tímann árið 2025 átti Jósep Magnússon sem hljóp á tímanum 3:14:13 klst í Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara.

Jósep Magnússon ásamt Guðrúnu sambandsstjóra
UMSB óskar öllu þessu frábæra íþróttafólki innilega til hamingju.
Að lokum vill UMSB þakka Umf. Stafholtstungna sem sá um undirbúning, veitingar og frágang, enn og aftur sannast mikilvægi sjálboðaliða, takk fyrir ykkar framlag. Auk þess þökkum við öllum þeim sem lögðu leið sína í Hjálmaklett í dag og tóku þátt í athöfninni á einn eða annan hátt.
Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá kjörinu sem Katla Gunnarsdóttir tók.

Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, flutti ávarp á kjörinu.

Guðrún Katrín flutti virkilega flott tónlistaratriði, á greinilega framtíðina fyrir sér á þessu sviði.


Gestir voru á öllum aldri




Deildu þessari frétt


