UMSB fékk afhenta gæðaviðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ á Sambandsþingi UMSB

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

98. sambandsþing UMSB var haldið miðvikudaginn 12. mars í Logalandi í Reykholtsdal.  Ungmennafélagið Reykdælir sáu um framkvæmd þingsins og tók vel á móti þingfulltrúum með góðum veitingum. Dagskrá þingsins var hefðbundin og í samræmi við lög sambandsins.

Í upphafi þings voru veittir styrkir úr afreksmannasjóði UMSB. Þær sem hlutu styrk uppá 180 þúsund voru þær Birgitta Dröfn Björnsdóttir dansari, Alexandrea Guðnýjardóttir kraftlyftingar kona og Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingar kona.

Góðir gestir, þau Hallbera Eiríksdóttir frá UMFÍ og Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ, komu á þingið og ávörpuðu fundarmenn.

Hallbera heiðraði nokkra sjálfboðaliða UMSB. Starfsmerki UMFÍ fengu að þessu sinni Brynjólfur Guðmundsson og Ingvi Árnason. Gullmerki UMFÍ fékk Íris Grönfeldt fyrir ómetanlegt starf fyrir frjálsar íþróttir í áranna rás.

Viðar Sigurjónsson veitti þeim Sigurði Guðmundssyni og Jóni G. Guðbjartssyni gullmerki ÍSÍ fyrir frábært starf í þágu hreyfingarinnar. Einnig veitti hann UMSB viðurkenningu fyrir fyrirmyndarhéraðssamband ÍSÍ. Er þetta stór áfangi þar sem UMSB hefur stefn að þessu í nokkur ár.

Þingstörf gengu vel fyrir sig og voru þingfulltrúar ánægðir að sjá að rekstur UMSB er sterkur. Mikilvægt er að viðhalda áfram góðum rekstri sambandsins. Samstaða var um þær tillögur sem afgreiddar voru á þinginu og fundarmenn voru sáttir með gott þing. Sveitarfélögum innan UMSB var sérstaklega þakkað fyrir dýrmætan stuðning og gott samstarf á liðnu ári. Stuðningur sem þessi gerir UMSB kleift að halda úti öflugu starfi, samfélaginu öllu til heilla. Landsmót UMFÍ 50 + verður haldið í sumar í Borgarnesi og verður mikil þörf á öflugum sjálfboðaliðum til tengslum við þann viðburð.

Á þinginu var kosið í nýja stjórn UMSB. Bragi Þór Svavarsson er sambandsstóri, Sigríður Bjarnadóttir er gjaldkeri, Guðrún Þórðardóttir er varasambandsstjóri, Borgar Páll Bragason er vara varasambandsstjóri, Bjarni Traustason er ritari, Rakel Guðjónsdóttir er meðstjórnandi, Ástríður Guðmundsdóttir er vara ritari og Eyjólfur Kristinn Örnólfsson er varagjaldkeri.

Deildu þessari frétt