103. sambandsþing UMSB var haldið í Borgarnesi þann 30. apríl sl. Var þingið haldið á Hótel Vesturlandi í umsjón knattspyrnudeildar Skallagríms og færum við þeim kærar þakkir fyrir þeirra góðu störf. Góð mæting var á þingið og góð vinna sem þar fór fram.
Þingforsetar voru Flemming Jessen og Rósa Marínósdóttir, og ritarar þingsins þau Sigurbjörg Þórunn Marteinsdóttir og Sölvi G. Gylfason.
Skýrsla stjórnar
Guðrún Hildur Þórðardóttir sambandsstjóri UMSB fór yfir helstu verkefni og starfsemi Ungmennasambandsins árið 2024 ásamt starfsemi aðildarfélaga en þar bar hæst Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina og tókst vel til. Kom þar berlega í ljós hversu mikill mannauður er innan UMSB.
Þá fór hún einnig yfir kjör Íþróttamanneskju Borgarfjarðar, reglugerðarbreytingum sem samþykktar voru á síðasta sambandsþingi, úthlutun starfsstyrkja til aðildarfélaga, lottóúthlutunum, ferðastyrkjum, íþróttahátíðinni 17. júní og úthlutun úr Afrekssjóði UMSB.
Svala Svavarsdóttir, gjaldkeri UMSB, kynnti ársreikning sambandsins fyrir árið 2024 þar sem fram kom að tap var á rekstrinum en fjárhagsáætlun 2025 tekur mið af því og næst vonandi að rétta fjárhaginn af á þessu ári.
Góðir gestir ávörpuðu þingið
Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, flutti ávarp þar sem hún fór yfir vinnu sveitarfélagsins við mótun lýðheilsustefnu og íþróttastefnu. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að styðja við íþróttastarf í sveitarfélaginu og kom inn á margvísleg atriði sem tengjast stefnumótun á því sviði.
Hörður Þorsteinsson, gjaldkeri ÍSÍ, hélt ávarp þar sem hann fjallaði um breytingar í íþróttastarfi, meðal annars í tengslum við Lottógreiðslur, ríkisstyrki, nýtingu fjármuna og samstarf ÍSÍ og UMFÍ. Hann ræddi einnig um breytt hlutverk sjálfboðaliða, áskoranir og mikilvægi þess að skapa hvata til að laða fólk að sjálfboðastörfum. Þá kom hann inn á þau gildi sem ÍSÍ leggur áherslu á að fylgt sé eftir.
Ragnheiður Högnadóttir, fulltrúi UMFÍ, flutti ávarp og fjallaði meðal annars um skattamál íþróttafélaga, starfsemi svæðisstjóra UMFÍ og nýtt fyrirkomulag lottóúthlutana.
Heiðar Mar Björnsson, svæðisfulltrúi ÍSÍ og UMFÍ, kynnti stöðu verkefna á sambandssvæði UMSB. Hann nefndi meðal annars þróun áfanga um sjálfboðaliðastörf við FVA, aðstoð við stefnumótun hjá félögum og sveitarfélögum, stuðning við lausn erfiðra mála og leiðbeiningar við gerð styrkumsókna.
Að lokum kom Ragnheiður Högnadóttir aftur í pontu og veitti Borgari Páli Bragasyni starfsmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt starf hans fyrir Ungmennafélagið Íslending.
Óskum við Borgari Páli innilega til hamingju og þökkum honum innilega fyrir hans mikilvægu og óeigingjörnu störf í þágu hreyfingarinnar.
Úhlutun úr Afrekssjóði UMSB
Stjórn sjóðsins er skipuð þeim Írisi Grönfeldt, Rósu Marinósdóttur og Sigurkarli Gústavssyni og sá stjórn sjóðsins alfarið um yfirferð umsókna og úthlutun úr sjóðnum
Þrjár umsóknir bárust og voru þær allar samþykktar.
Þær sem fengu úthlutað úr sjóðnum í ár voru:.
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir hlaut 250.000 krónur fyrir afrek sín í sundi.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir hlaut 350.000 krónur fyrir afrek sín í frjálsum íþróttum.
Kristín Þórhallsdóttir hlaut 350.000 krónur fyrir afrek sín í kraftlyftingum.
Óskum við þeim innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi afrekum þeirra.
F.v. Helga J. Svavarsdóttir sem tók við styrknum fyrir hönd dóttur sinnar Guðrúnar Karítasar, Arnheiður Hjörleifsdóttir sem tók við styrknum fyrir hönd dóttur sinnar Guðbjargar Bjarteyjar og Kristín Þórhallsdóttir.
Laga- og reglugerðarbreytingar
Ekki lágu fyrir margar laga- eða reglugerðarbreytingar en ein lagabreyting var þó samþykkt sem snýr að því að nú munu aðildarfélög UMSB sem ekki standa skil á starfsskýslum, ársskýrslum og ársreikningum á tilsettum tíma missa atkvæðisrétt á næsta sambandsþingi UMSB. Ef misbrestur verður á tvö ár samfellt er heimilt að víkja félagi úr sambandinu en hingað til hefur einungis verið hægt að gera félög og deildir óvirk.
Einnig var reglugerð afrekssjóðs UMSB uppfærð í samræmi við kjör íþróttamanneskju Borgarfjarðar þar sem aldurstakmark var hækkað úr 14 ára í 16 ára á síðasta sambandsþingi.
Eins og fyrr segir voru ekki margar tillögur til umfjöllunar á þinginu en þær sem teknar voru fyrir fengu mjög góða og efnislega meðferð og á nefndarfólk hrós skilið fyrir vel unnin störf.
Stjórnarkjör
Að lokum var stjórnarkjör en að þessu sinni urðu engar breytingar á aðalstjórn þar sem öll sem voru að klára sitt kjörtímabil gáfu kost á sér áfram en tvær breytingar urðu í varastjórn UMSB.
Stjórn UMSB verður því þannig skipuð sambandsárið 2025 – 2026:
Guðrún Hildur Þórðardóttir gaf áframhaldandi kost á sér sem sambandsstjóri en sambandsstjóri er kjörinn til eins árs í senn. Þá gáfu Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir, ritari og Kristján Jóhannes Pétursson, meðstjórnandi einnig kost á sér áfram og eru þau kjörin til tveggja ára. Áfram í stjórn sitja Sigurbjörg Þórunn Marteinsdóttir, varasambandsstjóri og Svala Svavarsdóttir, gjaldkeri á sínu seinna ári.
Í varastjórn koma inn Einar Reynisson sem varavarasambandsstjóri og Hafdís Jóhannsdóttir, varameðstjórnandi kjörin til tveggja ára í stað Thelmu Daggar Harðardótur og Þórhildar Maríu Kristinsdóttur. Stjórn UMSB þakkar þeim kærlega fyrir þeirra störf. Áfram í varastjórn sitja Ólafur Daði Birgisson, vararitari og Eyjólfur Kristinn Örnólfsson, varagjaldkeri á sínu seinna ári.
Ársskýrsla og ársreikningur UMSB eru aðgengileg á heimasíðu UMSB undir flipanum „skjöl“ en þinggerð ásamt ársskýrslum aðildarfélaga verða birt á heimasíðunni á næstu dögum.
Hér má fyrir neðan má sjá fleiri myndir frá þinginu:
Deildu þessari frétt