Allt íþróttastarf fellur niður hjá félögum og deildum inna UMSB

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Kæru foreldrar, forráðamenn og iðkendur

Í framhaldi af fréttatilkynningu ÍSÍ og UMFÍ ásamt tilmælum frá sóttvarnarlækni mun allt skipulagt íþróttastarf falla niður tímabundið hjá öllum félögum og deildum innan UMSB.

Við í UMSB munum halda ykkur upplýstum um hvenær við fáum að hefja starfið að nýju en ljóst er að engar æfingar verða á meðan samkomubannið stendur yfir.

Í ljós stöðunnar viljum við minna á mikilvægi þess að iðkendur og félagsmenn haldi áfram að hreyfa sig innan þeirra skilyrða sem sett hafa verið. Brýnt er að þjálfarar hvetji iðkendur til að hreyfa sig á óvissutímum sem þessum, einkum í ljósi þess hvað hreyfing hefur jákvæð áhrif á líkama og sál.

Búið er að taka upp nokkur myndbönd sem má finna undir ,,heimaæfingar“ á heimasíðu UMSB. Þjálfarar félaga og deilda munu áfram búa til heimaæfingar og vera í sambandi við iðkendur sína í gegnum Sportabler eða tölvupóst.

Við munum fara í gegnum þetta saman og ef einhverjar spurningar vakna hafið endilega samband við UMSB á siggi@umsb.is eða ykkar þjálfara.

Starfsmenn UMSB, Siggi og Sigga Dóra, vinna núna mest heima en alltaf er hægt að nálgast þau í gegnum tölvupóst siggi@umsb.is og siggadora@umsb.is

Með baráttukveðjum,

Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB

 

Sameiginleg yfirlýsing frá UMFí og ÍSÍ:

Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, hefur sent frá sér leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna.

Hvað varðar íþróttastarf barna og ungmenna er eftirfarandi beint til íþróttahreyfingarinnar:

„…að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur.”

Hvað varðar íþróttaiðkun fullorðinna þá er eftirfarandi beint til til íþróttahreyfingarinnar:

„…er þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila og skipuleggjenda annars íþrótta- og æskulýðsstarfs að með sama hætti verði gert hlé á starfi sem felur í sér snertingu eða nálægð milli iðkenda sem er minni en 2 metrar, í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í auglýsingu um takmörkun á samkomum og á meðan þær takmarkanir eru í gildi.”

Jafnframt hvetja ráðuneytin skipuleggjendur íþróttastarfs til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.

Eftirfarandi árétting barst frá sóttvarnalækni í dag í tilefni útgáfu leiðbeinandi viðmiða frá heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti:

„Sóttvarnalæknir vill árétta að í auglýsingum heilbrigðisráðherra um samkomubann og um takmarkanir á skólastarfi er fjallað um að nálægð einstaklinga verði ekki minni en tveir metrar ef því er við komið. Einnig er ljóst að með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir t.d. varðandi hreinlæti og smitleiðir að sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleira án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir.

Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa.

Sóttvarnalæknir vill beina því til Íþrótta- og ólympíusambands Íslands að, líkt og gert hefur varðandi börn og ungmenni, að tekið verði hlé í æfingum og keppnum á vegum sambandsins og aðildarfélaga þeirra á meðan samkomubann varir.“ (birt á Facebook síðu Almannavarna).

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og UMFÍ treysta því að öll íþróttahreyfingin muni fara að þessum afgerandi tilmælum og að allt íþróttastarf falli tímabundið niður.

Það er augljóslega ekki auðvelt fyrir íþróttahreyfinguna en við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að þjóðin standi saman sem einn maður og að íþróttahreyfingin sýni fulla samstöðu og ábyrgð.

Við viljum jafnframt minna á mikilvægi þess að landsmenn haldi áfram að hreyfa sig þrátt fyrir að skipulagt íþróttastarf sé ekki til staðar. Þá er mikilvægt að félögi haldi áfram að þjónusta sína iðkendur með þeim hætti sem mögulegt er, með fjar- og heimaæfingum.

Deildu þessari frétt