Kjör Íþróttamanneskju Borgarfjarðar 2023 fór fram við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti í dag, 6. janúar. Farið var í samstarf við Ölduna, sem útbjó gjafapoka fyrir þau sem lentu í efstu 10 sætunum, auk þess sem þeir Guðmundur Ingi, Guðmundur Stefán og Ölver aðstoðuðu við verðlaunaafhendinguna. Þökkum við þremenningunum og Öldunni kærlega fyrir afskaplega ánægjulegt samstarf.
Afar jafnt var á milli þeirra efstu í kjöri Íþróttamanneskju Borgarfjarðar, en einungis munaði 0,2 stigum á 1. og 2. sætinu. Fór það svo að Bjarki Pétursson hlaut nafnbótina Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2023. Er þetta í sjöunda sinn sem Bjarki hreppir titilinn en hann var kjörinn íþróttamaður Borgarfjarðar í fyrsta sinn árið 2008. Hlaut Bjarki 9,6 stig í kjörinu.
Bjarki hefur á síðustu árum stigið fram sem einn af allra bestu kylfingum Íslands og var mjög nálægt því að fá keppnisrétt á sterkustu mótaröð Evrópu í golfi, og þeirri næst sterkustu í heimi. Bjarki er í landsliðshópi atvinnukylfinga á Íslandi og er einn sex kylfinga sem fá úthlutað úr „Forskoti afrekssjóði“.
Bjarki er sem stendur númer 1673 á heimslista atvinnumanna í golfi, sem er hækkun um 232 sæti á milli ára sem er frábær árangur.
Á myndinni má sjá Fjólu Pétursdóttir, móður Bjarka, sem tók við verðlaununum fyrir hans hönd.
Í 2. sæti var Kristín Þórhallsdóttir sem kjörin var Íþróttamanneskja Borgarfjarðar síðastliðin tvö ár, fyrir kraftlyftingar. Kristín hlaut 9,4 stig.
Í 3. sæti var Helgi Guðjónsson fyrir knattspyrnu með 8 stig.
Í 4. sæti var Bjarni Guðmann Jónsson fyrir körfuknattleik með 7 stig,
Í 5. sæti var Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir fyrir frjálsar íþróttir með 5,4 stig.
Í 6. – 10. sæti voru, í stafrófsröð:
Brynjar Snær Pálsson – knattspyrna
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – sund
Heiður Karlsdóttir – körfuknattleikur
Jósep Magnússon – hlaup
Kristín Eir Holaker – hestaíþróttir
Veittar voru viðurkenningar fyrir val í landslið á árinu 2023
Viðurkenningar fyrir A-landslið hlutu:
Anna Heiða Baldursdóttir – Bridge
Bjarki Pétursson – Golf
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – Sund
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir – Frjálsar íþróttir
Kristín Þórhallsdóttir – Kraftlyftingar
Þorgeir Ólafsson – Hestaíþróttir
Viðurkenningar fyrir val í yngri landslið:
Beníta Líf Palladóttir – unglingalandslið í klifri
Björgvin Þór Ívarsson – U15 landslið drengja í körfuknattleik
Eiríkur Frímann Jónsson – U16 landslið drengja í körfuknattleik
Heiður Karlsdóttir – U18 og U-20 landslið stúlkna í körfuknattleik
Jón Árni Gylfason – U15 landslið drengja í körfuknattleik –
Sara Líf Sigurðardóttir – U15 landslið stúlkna í körfuknattleik
Sævar Alexander Pálmason – U16 landslið drengja í körfuknattleik
UMSB óskar öllu þessa frábæra íþróttafólki innilega til hamingju og við hlökkum til að fylgjast með ykkur áfram.
Samhliða kjöri Íþróttamanneskju Borgarfjarðar eru jafnframt veitt fleiri verðlaun, Maraþonbikarinn, Auðunsbikarinn og Hvatningarverðlaun UMSB.
Maraþonbikarinn
Maraþonbikarinn var gefinn af Bjarna Bjarnasyni á sínum tíma og er veittur fyrir besta tímann í maraþonhlaupi á árinu. Hlaut Jósep Magnússon Maraþonbikarinn þriðja árið í röð.
Auðunsbikarinn
Auðunsbikarinn var afhentur í 29. sinn í ár en Auðunsbikarinn er veittur af Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar sem lést, 2. ágúst 1995, aðeins 14 ára gamall. Bikarinn er veittur 14 ára unglingi sem þykir efnilegur í íþrótt sinni, sýnir metnað í ástundun og framkomu og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan.
Tilgangur viðurkenningarinnar er að minnast Auðuns Hlíðkvist og einnig að styðja við og hvetja áfram unga og efnilega íþróttamenn á svæðinu.
Valið var sérstaklega erfitt í ár en sex unglingar komu til greina og fór það að lokum svo að tvö ungmenni voru efst og jöfn, og var ákveðið að veita þeim báðum Auðunsbikarinn í ár. Það eru þau Kristín Eir Hauksdóttir Holaker, sem hefur náð framúrskarandi árangri í hestaíþróttum og Sindri Karl Sigurjónsson, sem hefur náð framúrskarandi árangri í hlaupum. Eru þau bæði í hópi efnilegustu unglinga landsins í sinni íþrótt, auk þess sem þau eru virkilega góðar fyrirmyndir á öðrum sviðum lífsins.
Á efri myndinni má sjá Kristmar Ólafsson (lengst til vinstri), föður Auðuns heitins, ásamt Sindra Karli og Hauki, föður Kristínar Eirar sem stödd er erlendis. Og á þeirri neðri er auk þeirra Íris Hlíðkvist Bjarnadóttir, móðir Auðuns.
Hvatningarverðlaun UMSB
Hvatningarverðlaun UMSB voru veitt í annað sinn en þau sem geta hlotið hvatningarverðlaun UMSB eru aðildarfélag, deild innan aðildarfélags eða einstaklingur innan aðildarfélags UMSB fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sem skara framúr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins.
Hvatningarverðlaun UMSB 2023 hlaut Rósa Marínósdóttir
Rósa hefur búið á Hvanneyri í Borgarfirði frá 1980 þegar hún fluttist þangað með fjölskyldu sinni. Rósa hefur alla tíð unnið gríðarlega mikið og óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf fyrir fjölda félaga í Borgarfirði, Ungmennafélagið Íslending, Ungmennafélagið Skallagrím, Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB), Frjálsíþróttafélag Borgarfjarðar, Ungmennafélag Íslands (UMFÍ), Frjálsíþróttasamband Íslands, Íbúasamtök Hvanneyrar og nágrennis og Kvenfélagið 19. júní.
Við komuna til Hvanneyrar varð Rósa strax virk í félagsstarfi Umf. Íslendings og UMSB þar sem hún hefur alla tíð verið ötull sjálfboðaliði. Þá tók hún mikinn þátt í starfsemi leikdeildar Umf. Íslendings. Rósa hefur skipulagt og starfað á nær öllum frjálsíþróttamótum sem haldin hafa verið í héraðinu, innanfélagsmótum eða landsmótum, við dómgæslu, undirbúning o.fl.
Einnig hefur hún unnið sem sjálfboðaliði á mótum UMFÍ um allt land, meðal annars á nánast öllum unglingalandsmótum, sem og öðrum mótum félagsins og Frjálsíþróttasambands Íslands. Þá hefur Rósa unnið mikið fyrir körfuknattleiksdeild Umf. Skallagríms, meðal annars starfað á nytjamarkaði sem félagið rekur í fjáröflunarskyni fyrir starf deildarinnar.
Árið 2018 var Rósa sæmd Gullmerki UMFÍ fyrir vel unnin störf í þágu íþróttastarfs UMSB. Það er samfélagi héraðsins gríðarlega mikilvægt að hafa slíka fyrirmynd sem Rósa er, hvort sem það er fyrir unga eða aldna. Hún nær til allra aldurshópa og er jafningi, þótt hún sé óhrædd við að taka að sér leiðtogahlutverkið þegar þess þarf. Það er ekki síður mikilvægt fyrir samfélag fólks í litlu þorpi svo sem á Hvanneyri að hafa einstakling eins og Rósu sem hefur sýnt að hún er óhrædd við að hvetja til góðra verka, drífa þau verkefni áfram sem ráðast þarf í og leiða þannig starf sem bætir líf og leik fyrir alla sem á svæðinu búa og dvelja. Þar hefur hún, eins og annars staðar, sýnt að hún vinnur jafnt gagnvart öllum hópum á öllum aldri.
Jafnframt sést af sjálfboðaliðastarfi Rósu hversu mikilvægu hlutverki hver einstaklingur gegnir í dreifðum byggðum, ekki hvað síst til að halda gangandi ýmiskonar íþrótta- og félagslífi fyrir ungt fólk, sem stuðlar þannig að vellíðun og lýðheilsu þess sem og samfélagsins alls.
UMSB þakkar Rósu hennar ómetanlega framlag í gegnum tíðina, og við vitum að hún er hvergi nærri hætt, sem er afskaplega dýrmætt, sérstaklega núna í aðdraganda Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið verður í Borgarbyggð um verslunarmannahelgina 2024.
Einnig viljum við þakka körfuknattleiksdeild Skallagríms sem sá um undirbúning, veitingar og frágang, enn og aftur sannast mikilvægi sjálboðaliða, takk fyrir ykkar framlag.
Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá kjörinu sem Gunnhildur Lind Hansdóttir tók.
Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, flutti ávarp.
Eva Margrét Jónudóttir og Jón Sigurður Snorri Bergsson fluttu þrjú lög við góðar undirtektir og fengu fólk til að rísa úr sætum og syngja með.
Íris Grönfeldt sem varð sex sinnum Íþróttamanneskja Borgarfjarðar hélt stórskemmtilega ræðu.
Hér eru þau Íris Hlíðkvist Bjarnadóttir og Kristmar Ólafsson, foreldrar Auðuns Hlíðkvist, ásamt þeim Helgu Halldórsdóttur og Rósu Marínósdóttur, en þær, ásamt Bjarna Kjartanssyni, eru í valnefnd Minningarsjóðs Auðuns Hlíðkvist.
Að lokum vill UMSB þakka öllum þeim sem lögðu leið sína í Hjálmaklett í dag og tóku þátt í athöfninni. Einnig öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og annað sem þarf til að allt gangi upp.
Deildu þessari frétt