Frístundastyrkur fyrir börn og ungmenni í Borgarbyggð
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum 8. desember sl. reglur um frístundastyrk fyrir börn og ungmenni í Borgarbyggð. Með tilkomu styrksins eru öll börn og ungmenni á aldrinum 6-18 ára styrkt með framlagi að upphæð kr. 20.000 á ári eða kr. 10.000 á önn . Markmið framlagsins er að hvetja börn og ungmenni til að taka þátt í frístundastarfi í Borgarbyggð.
Ástæða þess að sveitarfélög um land allt hafa tekið upp slíka styrki eru niðurstöður langtíma rannsókna á líðan íslenskra barna og ungmenna sem sýna að þátttaka í slíku starfi, sem nær yfir að minnsta kosti 10 vikur, hefur marktæk áhrif á bætta líðan. Íþróttastarf og skátastarf vegur þar langþyngst á metum.
Hægt er að nýta frístundastyrk í:
- skipulagt frístundastarf í Borgarbyggð sem stundað er undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda samfellt í amk. 10 vikur. Þetta á t.d. við um allt íþróttastarf sem stundað er á vegum viðurkenndra íþróttafélaga, dans í dansskólum, skátastarf og annað reglubundið frístundastarf,
- íþrótta- og tómstundanámskeið barna í 1. og 2. bekk sem skráð eru í íþrótta- og tómstunaskólann,
- árskort/sundkort fyrir ungmenni eldri en 16 ára,
- nám í tónlistarskóla sem er samfellt í 10 vikur.
Úthlutun frístundastyrksins hefst í byrjun janúar 2017 og fer hún fram á íbúagátt Borgarbyggðar og í gegnum skráningarkerfið Nóra vegna starfs hjá félögum UMSB. Bæði er hægt að nýta styrkinn beint hjá félögum innan Borgarbyggðar sem og í öðrum sveitarfélögum. Þegar frístundastyrkurinn er nýttur í gegnum skráningarkerfi Nóra þarf að haka í kassann „Nota frístundastyrk Borgarbyggðar“ og þá lækkar upphæð æfingagjalda um þá upphæð sem nemur inneign frístundastyrks fyrir barnið.
Þeir sem nýta frístundastyrkinn til niðurgreiðslu á tónlistarnámi velja að nýta styrkinn í skráningarformi Tónlistarskólans.
Í öllum tilfellum byrjarðu á að skrá þig inn á íbúagátt Borgarbyggðar. Ef þú átt ekki lykilorð skráirðu kennitöluna þína í reitinn Nýskráning og færð lykilorð sent í heimabankann þinn.
Greitt er tvisvar á ári, kr. 10.000 eru greiddar í janúar fyrir vorönn og kr. 10.000 í ágúst fyrir haustönn.
Mikilvægt er að nýta styrkinn við skráningu í upphafi annar. Styrkurinn færist ekki milli ára.
Deildu þessari frétt