Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2024 – umfjöllun og myndir

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Kjör Íþróttamanneskju Borgarfjarðar 2024 fór fram við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti í gær, 19. janúar. Er kjör Íþróttamanneskju Borgarfjarðar samstarfsverkefni UMSB og þeirra sveitarfélaga sem sambandssvæðið nær til, Borgarbyggðar, Skorradals og Hvalfjarðarsveitar. Auk þess var farið í samstarf við Ölduna sem útbjó gjafapoka fyrir 10 efstu sætin auk þess sem Árni og Ölver aðstoðuðu við verðlaunaafhendingu. Viljum við þakka þeim öllum kærlega fyrir afar ánægjulegt og farsælt samstarf.

Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2024 var útnefnd Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir en hún stimplaði sinn sem einn af fremstu sleggjukösturum heims á síðasta ári.

Hlaut Guðrún 9,6 stig í kjörinu.

Á myndinni má sjá Kristján Karl Hallgrímsson, bróður Guðrúnar Karítasar, sem tók við verðlaununum fyrir hennar hönd ásamt Guðrúnu Hildi Þórðardóttur, sambandsstjóra UMSB.

 

Í 2. sæti var Kristín Þórhallsdóttir með 8,8 stig og Helgi Guðjónsson með 7,8 stig í 3. sæti

F.v. Helgi Guðjónsson, Kristján Karl fyrir hönd Guðrúnar Karítasar og Kristín Þórhallsdóttir.

Í 4. – 10. sæti voru, í stafrófsröð:

Bjarki Pétursson – golf

Bjarni Guðmann Jónsson – körfuknattleikur

Flosi Ólafsson – hestaíþróttir

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – sund

Heiður Karlsdóttir – körfuknattleikur

Hilmar Elís Hilmarsson – knattspyrna

Sigursteinn Ásgeirsson – frjálsar íþróttir

 

 

Viðurkenningar voru veittar fyrir val í landslið á árinu auk þess sem veitt var auka úthlutun úr Afrekssjóði UMSB til að styðja við bakið á afreksíþróttafólkinu.

Viðurkenningar fyrir val í A-landslið hlutu:

Bjarni Guðmann Jónsson – körfuknattleikur

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir – frjálsar íþróttir

Kristín Þórhallsdóttir – kraftlyftingar

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – sund

 

F.v. Guðrún Hildur Þórðardóttir sambandsstjóri UMSB, Bjarni Guðmann Jónsson, Arnheiður Hjörleifsdóttir fyrir hönd Guðbjargar Bjarteyjar, Kristján Karl fyrir hönd Guðrúnar Karítasar og Kristín Þórhallsdóttir.

 

Árni veitir hér Bjarna Guðmanni viðurkenningu og styrk úr Afrekssjóði UMSB

 

Viðurkenningar fyrir val í yngri landslið hlutu:

Heiður Karlsdóttir – körfuknattleikur

Sindri Karl – frjálsar íþróttir

Jón Árni Gylfason – körfuknattleikur

Eyja Rún Gautadóttir – frjálsar íþróttir

F.v. Guðrún H. Þórðard. sambandsstjóri, Berglind Ragnarsdóttir fyrir hönd Heiðar, Jóhannes Guðjónsson fyrir hönd Eyju Rúnar, Guðrún Helga Árnadóttir fyrir hönd Jóns Árna, á myndina vantar Sindra Karl.

 

Það leynist margt afreksfólk innan raða UMSB og  í ár voru einnig veittar viðurkenningar fyrir að hafa slegið met en tvö heimsmet og nokkur Íslandsmet féllu á síðasta ár. Þau sem voru heiðruð fyrir að slá met voru:

Guðmunda Ólöf Jónasdóttir Íslandsmethafi í sundi

Guðmunda Ólöf eða Mumma Lóa eins og við þekkjum hana flest er lifandi sönnun þess að hreyfing og heilbrigt líferni eru undirstaða bæði líkamlegrar og andlegrar heilsu, en hún  setti hvorki meira né minna en níu Íslandsmet á síðasta ári í aldursflokknum 75 – 79 ára. Mumma Lóa sló Íslandsmet í 50, 100, 200, 400 og 800 metra skriðsundi, 50, 100 og 200 metra baksundi og 100 metra fjórsundi.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir

Guðrún Karítas byrjaði árið 2024 af miklum krafti, og þríbætti Íslandsmet sín í lóðkasti úr lóðkasti 20,03 m í 22,44 m, auk þess sem hún bætti árangur sinn í sleggjukasti um rúma 4 metra á árinu og kastaði lengst 69,76, sem var Íslandsmet í u.þ.b. 15 mín.

Jósep Magnússon

Jósep sem hefur margoft verið tilnefndur til Íþróttamanneskju Borgarfjarðar fyrir afrek sín í hlaupi og hlaut meðal annars Maraþonbikarinn  þrjú ár í röð, setti Íslandsmet í 5.000 metra hlaupi 45-49 ára þegar hann hljóp á 17:13,53 mínútum, fyrra metið var 19:29,08 mínútur og bætti hann því metið um rúmar tvær mínútur.

Kristín Þórhallsdóttir

Eins og fyrr segir litu tvö heimsmet dagsins ljós en Kristín bætti heimsmetið í samanlögðum árangr  í aldursflokknum 40-49 ára á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum þegar hún lyfti samanlagt 545 kílóum, auk þess sem hún tvíbætti heimsmetið í hnébeygju í sama aldursflokki.

Sindri Karl Sigurjónsson

Sindri Karl átti frábært ár í fyrra en hann setti  Íslandsmet 15 ára í 2000 og 3.000 m hlaupi innanhúss, bætti 42ja ára gamalt Íslandsmet í 2.000 m hlaupi utanhúss sem var einnig Íslandsmet í aldurflokknum fyrir ofan. Þá tvíbætti hann Íslandsmet 15 ára í 5 km götuhlaupi.

Þá vakti það mikla athygli þegar Sindri Karl sló 24 ára gamalt aldurflokkamet Kára Steins Reynissonar í 10 kílómetra götuhlaupi þegar hann hljóp á 36 mínútum og þremur sekúndum. Sindri Karl hafði að vísu slegið metið áður í Reykjavíkurmaraþoninu þegar hann hjóp á 35:49 mínútum en þar sem hlaupið var ekki vottað þá var það ekki tekið gilt. Þannig að hann gerði sér lítið fyrir og sló það bara aftur.

Stefán Gíslason

Stefán hefur um árabil verið einn af fremstu fjallvegahlaupurum landsins og hefur með áhuga sínum og elju byggt upp sterka hlaupamenningu hér í Borgarfirðinum sem hefur alið af sér marga öfluga hlaupara. Stefán er þó sjálfur hvergi af baki dottinn en hann setti Íslandsmet í 5 kílómetra hlaupi í aldursflokknum 65-69 ára í ágúst þegar hann hljóp á 21 mínútu og 28 sekúndum.

 

Hér má sjá mynd af þessum glæsilega hópi.

F.v. Guðrún Hildur sambandsstjóri, Mumma Lóa, Kristján Karl fyrir hönd Guðrúnar Karítasara, Jósep, Kristín, Sindri Karl og Stefán.

 

Samhliða kjöri Íþróttamanneskju Borgarfjarðar eru jafnframt veitt fleiri verðlaun, Maraþonbikarinn, Auðunsbikarinn og Hvatningarverðlaun UMSB.

 

Maraþonbikarinn

Maraþonbikarinn var gefinn af Bjarna Bjarnasyni, betur þekktur sem Bjarni hlaupari, á sínum tíma og er veittur fyrir besta tímann í maraþonhlaupi á árinu. Í ár kom nýtt nafn á bikarinn eftir að Jósep Magnússon hafði hlotið hann þrjú ár í röð. Davíð Andri Bragason átti besta tímann í maraþonhlaupi árið 2024 þegar hann hljóp á tímanum 3:24:46 klst í Haustmaraþoninu sem skilaði honum jafnframt 3. sætinu í flokki 18 – 39 ára.

 

 

 

Auðunsbikarinn

Auðunsbikarinn var afhentur í 30. sinn í ár en Auðunsbikarinn er veittur af Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar sem lést, 2. ágúst 1995, aðeins 14 ára gamall. Bikarinn er veittur 14 ára unglingi sem þykir efnilegur í íþrótt sinni, sýnir metnað í ástundun og framkomu og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan.

Tilgangur viðurkenningarinnar er að minnast Auðuns Hlíðkvist og einnig að styðja við og hvetja áfram unga og efnilega íþróttamenn á svæðinu.

Í ár hlaut Brynjar Þór Þorsteinsson Auðunsbikarinn en auk þess að uppfylla þau skilyrði sem talin eru upp að ofan var auk þess nefnt hversu jákvæður hann er og mikil gleði sem fylgir honum.

Hér má sjá Sævar Hlíðkvist, bróður Auðuns heitins, veita Brynjari Þór Auðunsbikarinnar.

Innilega til hamingju Brynjar Þór. Vill stjórn UMSB einnig nýta tækifærið og þakka þeim hjónum Írisi Hlíðkvist Bjarnadóttur og Kristmari Ólafssyni, foreldrum Auðuns, fyrir afskaplega gott og farsælt samstarf. Það hefur verið virkilega ánægjulegt að fá að taka þátt í að halda minningu sonar þeirra svona fallega á lofti allan þennan tíma.

F.v. Kristmar Ólafsson, Sævar Hlíðkvist, Brynjar þór og Íris Hlíðkvist Bjarnadóttir

 

Hvatningarverðlaun UMSB

Hvatningarverðlaun UMSB voru veitt í þriðja sinn í ár en þau sem geta hlotið hvatningarverðlaun UMSB eru aðildarfélag, deild innan aðildarfélags eða einstaklingur innan aðildarfélags UMSB fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sem skara framúr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins.

Hvatningarverðlaun UMSB 2024 hlaut Guðjón Guðmundsson

 

Guðjón eða Gaui, hefur starfað sem íþróttakennari við Kleppjárnsreykjaskóla sem síðar varð Grunnskóli Borgarfjarðar frá árinu 1984 til dagsins í dag og þannig komið að íþróttauppeldi allra ungmenna sem í skólanum hafa verið á þessu tímabili.

Hann útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands með grunn-og framhaldsskólaréttindi árið 1990 með íþróttir sem valgrein. Hann tók þjálfarapróf SSÍ (Sundsambands Íslands) og hefur sótt ótal þjálfaranámskeið á vegum ÍSÍ, (Íþróttasambands Íslands) KSÍ (Knattspyrnufélags Íslands) og KKÍ (Körfuknattleikssambands Íslands) einnig hefur hann verið mjög iðinn við að sækja sér endurmenntun í þeim íþróttagreinum sem hann hefur mest verið að þjálfa.

Guðjón hefur sinnt Ungmennafélagi Reykdæla – uppeldisfélagi sínu af einstakri tryggð. Hann hefur þjálfað bæði frjálsar íþróttir, knattspyrnu, sund og körfuknattleik frá árinu 1990 eða í 34 ár. Það hefur Gaui gert af óbilandi áhuga, krafti og elju og er enn að. Þennan veturinn þjálfar hann 7.-10 flokk í körfu og er með sundæfingar fyrir 6 – 16 ára börn og ungmenni. Einnig hefur hann komið að ýmsu starfi innan félagsins sem sjálfboðaliði í gegnum öll þessi ár, haldið utan um ófá mót og komið að samstarfi á milli aðildafélaga í Borgarbyggð sem og í öðrum sveitafélögum með vinamótum í sundi, körfu og fótbolta.

Við vitum öll sem að slíku starfi komum hversu miklu máli mannauðurinn skiptir og það má með sanni segja að Gaui hafi lagt sitt af mörkum til að ungmenni í Borgarfirði hafi átt þess kost að taka þátt í íþróttastarfi, leik og keppni öll þessi ár. Við sem eigum eða höfum átt börn og ungmenni vitum hversu mikilvægt það er fyrir þau að vera hluti af heild og fá tækifæri til að æfa íþróttir, keppa við aðra, bæta árangur sinn í líkamlegri og andlegri færni.

Stjórn UMSB vill með Hvatningarverðlaununum þakka Gaua fyrir hans ómetanlega framlag í gegnum tíðina, framlag sem skilur eftir sig djúp spor í samfélaginu og vonum að hann eigi allavega önnur 34 góð ár eftir.

 

Í ávarpi sínu kom Gaui inn á að það vinnur enginn svona þrekvirki einn, að félagið hans, Ungmennafélag Reykdæla, hafi haldið úti gríðarlega öflugu og mikilvægu starfi öll þessi ár og að það væri heiður að fá að vera hluti af því. Við hjá UMSB tökum svo sannarlega undir þau orð.

 

UMSB óskar öllu þessu frábæra íþróttafólki innilega til hamingju. Jafnframt viljum við þakka öllum þeim sem lögðu leið sína í Hjálmaklett í dag og tóku þátt í athöfninni.

Að lokum fær Hestamannafélagið Borgfirðingur sérstakar þakkir en þau sáu um undirbúning, veitingar og frágang, enn og aftur sannast mikilvægi sjálboðaliða, takk fyrir ykkar framlag.

Steinunn Þorvaldsdóttir tók ljósmyndir á kjörinu, hér fyrir neðan má sjá fleiri svipmyndir.

Jón Eiríkur Einarsson oddviti Skorradalshrepps flutti ávarp

 

Þorsteinn Logi og Friðgeir Kári fluttu nokkur lög

   

Hluti af stjórn UMSB og framkvæmdastjóri, f.v. Guðrún H. Þórðardóttir sambandsstjóri, Svala Svavarsdóttir gjaldkeri, Bjarney L. Bjarnadóttir fkv.stjóri og Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir ritari.

 

Stjórn og frkv.stjóri UMSB ásamt gestum frá sveitarfélögunum þremur sem að kjörinu standa þeim Jóni Eiríki Einarssyni fyrir hönd Skorradals, Andreu Ýr Arnarsdóttur fyrir hönd Hvalfjarðarsveitar og Stefáni Brodda Guðjónssyni fyrir hönd Borgarbyggðar.

 

Stjórn og frkv.stjóri UMSB ásamt fulltrúum Hmf. Borgfirðings sem hélt utan um kjörið

Deildu þessari frétt