Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ. Mótið verður haldið á Egilsstöðum dagana 3.- 6. ágúst. Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) heldur mótið með UMFÍ.
Mótið er fyrir 11-18 ára og þarf aðeins að greiða eitt þátttökugjald. Gjaldið er 7.000 krónur og er fyrir það hægt að skrá sig til keppni í fleiri en einni grein. Þau börn geta komið og keppt á mótinu sem verða 11 ára á árinu. Þau þurfa hvorki að vera skráð í ungmennafélag né íþróttafélag og geta komið hvort þau vilja með öðrum í hópi eða sem einstaklingar og mynda þá hóp með öðrum stökum börnum og ungmennum.
Þetta er 20. Unglingalandsmót UMFÍ. Það hefst 3. ágúst næstkomandi með keppni í golfi og verður því slitið sunnudaginn 6. ágúst.
Gert er ráð fyrir miklum fjölda fólks á Egilsstöðum yfir mótshelgina eða á milli 1.000-2.000 keppendum og aðstandendum þeirra, jafnvel allt upp undir 10.000 manns.
Á Unglingalandsmótinu verður keppt í 23 geysispennandi greinum. Þetta eru greinarnar: Boccia – Bogfimi – Fimleikalíf – Fjallahjólreiðar – Frisbígolf – Frjálsar íþróttir – Glíma – Golf – Götuhjólreiðar – Hestaíþróttir – Knattspyrna – Kökuskreytingar – Körfuknattleikur – Motocross – Ólympískar lyftingar – Rathlaup – Skák – Stafsetning – Strandblak – Sund – UÍA þrekmót – Upplestur og Íþróttir fatlaðra.
Úlfur Úlfur og fleiri skemmta
Kvöldvökur verða haldnar mótsdagana á Egilsstöðum og verða þar engin smástirni á ferðinni. Á meðal þeirra tónlistarmanna sem fram koma eru Úlfur Úlfur, Hildur, Aron Hannes, Emmsjé Gauti, hljómsveitirnar Amabadama og Mur Mur, Hafnfirðingurinn Jón Jónsson og fleiri.
Danski sýningarhópurinn sem sló í gegn í Danmark Got Talent mæta á svæðið og sýnir listir sínar. Hópurinn kemur hingað til lands í boði fyrirtækisins Motus.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð.
Hér eru ítarlegar upplýsingar um allt sem þú þarft að vita um Unglingalandsmótið.
Deildu þessari frétt