Aðalstjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms ásamt meistaraflokksráðum karla og kvenna og yngri flokka ráði hafa undirritað samkomulag þess efnis að jöfn skipting verði á öllum styrktar- og samstarfssamningum sem deildin aflar hverju sinni.
Með þessu er tryggt jafnræði milli karla og kvennaliða Skallagríms sem og yngri flokka þegar kemur að úthlutun þess fjármagns sem aflað er frá styrktaraðilum.
Samkomulagið er í samræmi við ákvæði jafnréttisstefnu UMSB og áherslum Íþróttasambands Íslands í jafnréttismálum. Fagnaðarefni er að sjá samning sem þennan þar sem einstaklingum líður betur í umhverfi þar sem jafnrétti ríkir. Jafnréttisstefnu UMSB má nálgast hér
Um tímamótasamkomulag er að ræða því eftir því sem best er vitað er körfuknattleiksdeild Skallagríms með fyrstu íþróttafélögunum sem stígur þetta skref innan körfuknattleikshreyfingarinnar á Íslandi.
UMSB óskar Körfuknattleiksdeild Skallagríms til hamingju með samninginn og gott gengi í sumar í efstu deild kvenna og karla í körfuknattleik.
Deildu þessari frétt