12 tilnefningar bárust til Íþróttmanneskju Borgarfjarðar 2025 en á sambandsþingi UMSB 2024 var ákveðið að fimm manna valnefnd sem skipuð er af stjórn UMSB, sambandsþingi UMSB og sveitarfélögunum þremur sem að kjörinu standa myndi fara yfir þær tilnefningar sem berast og velja tíu efstu sem færu svo áfram í atkvæðagreiðslu til stjórnar UMSB og aðildarfélaga og deilda.
Af þeim tíu verður svo Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2025 útnefnd við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti þann 25. janúar nk. kl.15:00.
10 efstu í kjöri Íþróttamanneskju Borgarfjarðar 2025 í stafrófsröð eru:
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – sund

Félag/lið sem viðkomandi keppir fyrir: ÍA/Towson
Afrek á árinu 2025:
Helstu afrek Guðbjargar Bjarteyjar á árinu 2025: Í febrúar fór fram lokaumferð í CAA deildinni sem Towson Swimming & Diving keppir í (Towson er Division 1 skóli á austurströnd USA í Marylandfylki, skammt frá Washington DC). Þar setti hún ásamt 3 öðrum skólamet í 4*50 metra skriðsundsboðsundi og hluti fyrir það silfurverðlaun á mótinu, aðeins 3 sekúndbrotum frá gulli!
Hún sló skólamet Towson University í 50 metra skriðsundi í 50 metra laug. Hún var valin “Rookie of the Year” að loknu fyrsta sundárinu sínu í Towson University í Maryland. Á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug sem haldið var í Laugardalslaug í apríl, tryggði Guðbjörg sér silfur í 50 metra baksundi og brons í 50 metra skriðsundi og 50 metra flugsundi. Með árangri sínum tryggði Bjartey sér sæti í Landsliðinu í sundi.
Guðbjörg bætti 20 ára gamalt Akranesmet á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra skriðsundi þegar hún synti á 26,45 sek en gamla metið var 26,46 og það átti Ólympíufarinn Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir.
Á Sumarmeistaramóti SSÍ vann Guðbjörg til gullverðlauna í 100 metra skriðsundi og silfurverðlauna í 50 metra flugsundi. Á mótinu átti Guðbjörg sinn þátt í því að Sundfélag Akraness náði öðru sæti í stigakeppni liðanna fyrir sundmenn 16 ára og eldri. Í október keppti hún á World Cup í Toronto með Landsliði Íslands í sundi en mótið var afar sterkt og slegin voru 8 heimsmet!
Á mótinu náði Bjartey lágmarki á NM (Norðurlandameistaramótið) sem fram fór í Reykjavík í nóvember, en því miður hafði hún ekki tök á að keppa þar vegna verkefna sinna ytra.
_________________________________________________________________
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir – frjálsar íþróttir

Íþróttagrein: Frjálsar íþróttir – sleggjukast
Félag/lið sem viðkomandi keppir fyrir: ÍR
Kastaði lengst 71,38 m á árinu 2025 og setti með því kasti íslandsmet í sleggjukasti. Með þessu kasti ásamt árangri á öðrum mótum á árinu tryggði hún sig inná heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum sem haldið var í Tokyo í Japan.
Guðrún á í dag íslandsmet í sleggjukasti (71,38m) og lengsta kast íslenskra kvenna í lóðkasti, 23,19m.
Guðrún Karítas er í 36. sæti heimslistans og 18. sæti á Evrópulistanum í sleggjukasti.
Guðrún Karítas byrjaði árið 2025 á því að keppa í lóðkasti innanhúss og þar var hápunkturinn annað sætið á Bandaríska háskólameistaramótinu þar sem hún endaði með kasti uppá 23,19m sem jafnframt er lengsta kast íslenskrar konu frá upphafi.
Í sleggjukastinu bætti hún sig lítillega á utanhúss tímabili NCAA og kastaði lengst 69,92m sem tryggði henni þátttökurétt inn á svæðismeistaramót austurstrandarinnar þar sem hún gerði sér lítið fyrir og endaði í 1.sæti sem tryggði henni rétt til þátttöku á bandaríska háskólameistaramótinu þar sem hún að lokum endaði í 6.sæti af 24 keppendum með kasti uppá 68,66m.
Hún hlaut nokkur einstaklingsverðlaun í deildinni sem háskólinn hennar keppir í (Atlantic 10) auk þess að verða svæðismeistari bæði í lóð- og sleggjukasti.
Guðrún Karítas vann sér inn þátttökurétt á HM í Tokyo með góðum bætingum þegar leið á sumarið, fyrst með því að kasta 69,99 m á móti í Ungverjalandi og síðan með því að setja glæsilegt Íslandsmet á Meistaramóti Íslands þar sem hún kastaði 71,38m.
_________________________________________________________________
Heiður Karlsdóttir – körfuknattleikur
Félag/lið sem viðkomandi keppir fyrir: Wyoming Cowgirl / U-20 landslið íslands
Árangur á árinu 2025.
Heiður stundar háskólanám í Bandaríkjunum og spilar körfubolta með Wyoming Cowgirl. Hún spilaði með U20 landsliðinu í körfubolta síðastliðið sumar og keppti bæði á NM í Svíþjóð og EM í Búlgaríu. Á EM. í Búlgaríu náði liðið frábærum árangri og endaði í fjórða sæti á mótinu sem er besti árangur sem íslenskt unglingalandslið hefur náð á EM.
Heiður æfði í upphafi handbolta, sund, körfu, og hestaíþróttir en sneri sér síðan alfarið að körfuknattleik. Heiður spilaði með UMFR í yngri flokkunum í körfu frá því að hún var 10 ára og síðan með sameiginlegu liði UMFR og Skallagríms.
Hún spilaði með meistaraflokki Skallagríms þar til hún fór í skóla til Reykjavíkur og þá flutti hún sig yfir í Fjölni. Hún hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands síðan hún var 15 ára.
Heiður stundar háskólanám í Bandaríkjunum og spilar körfubolta með Wyoming Cowgirl.
Hún spilaði með U20 landsliðinu í körfubolta síðastliðið sumar sem keppti bæði á NM í Svíþjóð og EM í Búlgaríu. Á EM. í Búlgaríu náði liðið frábærum árangri og endaði í fjórða sæti á mótinu sem er besti árangur sem íslenskt unglingalandslið hefur náð á EM.
_________________________________________________________________
Helgi Guðjónsson – knattspyrna
Félag/lið sem viðkomandi keppir fyrir:
Víkingur Reykjavík
Árangur á árinu:
Helgi Guðjónsson hefur allan sinn feril leikið sem framherji eða kantmaður þar til í febrúar 2025 í umspilsleik fyrir 16 liða úrslit sambandsdeildar Evrópu sem var leikinn gegn gríska stórveldinu Panathinaikos FC. Í þeim leik var Helgi færður í stöðu vinstri bakvarðar og má segja að sá leikur hafi reynst afdrifaríkur þar sem Helgi hefur leikið í þeirri stöðu síðan nánast án undantekninga. Það má án vafa halda því fram að Helgi hafi átt sitt langbesta ár hingað til árið 2025 og eru hér nefndar nokkrar af helstu ástæðum fyrir því.
Helgi lék alla leiki nema einn sem Víkingur spilaði á undirbúningstímabili, bikarkeppni, Íslandsmóti og í Evrópukeppninni. Hann komst ásamt Víkingum í umspil um að komast í 16 liða úrslit Sambandsdeildarinnar í febrúar 2025 þar sem liðið féll naumlega úr leik gegn gríska stórveldinu Panathinaikos FC. Þetta er besti árangur sem íslenskt félagslið hefur náð í Evrópukeppni.
Helgi skoraði 8 mörk og átti 9 stoðsendingar á Íslandsmótinu og kom að flestum mörkum félagsins sem þykir merkileg tölfræði fyrir bakvörð. Samtals skoraði Helgi 14 mörk og átti 10 stoðsendingar í öllum keppnum ársins fyrir Víkinga.
Hann var valinn íþróttamaður íþróttafélagsins Víkings árið 2025. Hann var valinn besti leikmaður Íslandsmeistara Víkings af þjálfurum og stjórn félagsins árið 2025.
Hann var valinn í lið ársins af www.fotbolti.net.
Hann var valinn í lið ársins af Morgunblaðinu. Hann var valinn í lið ársins af fótboltaþættinum Stúkunni á Sýn sem fjallar um alla leiki í Bestu deildinni hér á landi.
Hann var valinn besti bakvörður deildarinnar af www.fotbolti.net. Valnefnd samanstóð af spilandi bakvörðum hérlendis og erlendis í knattspyrnu.
Í umsögn kom fram að ,,hann væri ekki bara besti bakvörður bestu deildarinnar, heldur langbestur”. Hann var valinn besti fótboltamaður Bestu deildarinnar af lesendum Dr.Football.
Hann er annar markahæsti leikmaður frá upphafi í sögu Víkings.
Helgi varð Íslandsmeistari með Víkingum árið 2025.
Á síðustu fimm árum, frá því hann hóf að leika fyrir Víking Reykjavík hefur hann orðið þrisvar sinnum Íslandsmeistari og þrisvar sinnum Bikarmeistari með Víkingum. Þar að auki hafa þeir tvisvar sinnum orðið meistarar meistaranna.
Gaman verður að fylgjast með næstu skrefum hjá Helga en vitað er að nokkur erlend knattspyrnufélög hafa sýnt því áhuga á að fá hann í sínar raðir.
_________________________________________________________________
Kristín Eir Hauksdóttir Holaker – hestaíþróttir
Félag/lið sem viðkomandi keppir fyrir:
Hestamannafélagið Borgfirðingur
Kristín Eir Hauksdóttir Holaker er fædd árið 2009 og uppalin á hrossaræktarbúinu Skáney og nánast alin upp á hestbaki í skjóli foreldra sinna sem bæði eru miklar keppnismanneskjur. Hún er afar metnaðarfull keppnismanneskja sem þó gengur að hverju verkefni með fullri virðingu fyrir öðrum keppendum. Hún kemur alltaf fram á keppnisvöllinn á vel tilhöfðum hestum og er öðrum keppendum fyrirmynd í snyrtimennsku og framkomu allri. Hún hefur keppt í mörg ár með frábærum árangri og verið kjörin íþróttamanneskja Borgfirðings fjórum sinnum. Er nú tilnefnd í fyrsta sinn til kjörs Íþróttamanneskju Borgarfjarðar enda búin að ná tilskyldum aldursmörkum.
Á árinu 2025 keppti hún á nokkrum stærstu mótum landsins í hestaíþróttum, Reykjavíkurmeistaramóti, Íslandsmóti og Fjórðungsmóti Vesturlands, á öllum þessum mótum náði hún afbragðsárangri. Eins hefur hún keppt á mótum félagsins – inni- sem útimótum og jafnan í 1. sæti í þeim greinum sem hún hefur tekið þátt í.
Kristín Eir á eftir að ná langt í íþrótt sinni haldi hún ótrauð áfram á sinni vegferð.
Íþróttamaður Borgfirðings 2025
Stigahæsti knapi í KB mótaröðinni 2025
Íþróttakona Kleppjárnsreykjaskóla 2025
_________________________________________________________________
Kristín Þórhallsdóttir – kraftlyftingar

Kraftlyftingakona ársins 2025
Kristín keppir í -84 kg flokki og er í Kraftlyftingafélagi Akraness. Þetta er í þriðja skiptið sem Kristín hlýtur þennan titil. Á árinu náði Kristín 4. sæti í samanlögðum árangri á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum eftir hörkubaráttu um bronsið. Á mótinu tók hún 3. sætið í hnébeygju.
Kristín varð Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum á árinu og var þar hæst á stigum yfir bæði kvenna- og karlaflokk.
Helstu afrek ársins hjá Kristínu:
Stigahæsta konan í klassískum kraftlyftingum árið 2025 með 107,86 IPF GL stig
Evrópumeistaramótið í klassískum kraftlyftingum
4. sæti í samanlögðu – 527,5 kg
Bronsverðlaun í hnébeygju – 202,5 kg
Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum
1. sæti í samanlögðu – 570,5 kg
Íslandsmet í bekkpressu (þrílyftamót) – 125,5 kg
Stigahæst yfir bæði kvenna- og karlaflokk – 107,86 IPF GL stig
Menningarbikarinn í bekkpressu
Í klassík: 1. sæti – 128 kg
Íslandsmet í bekkpressu – 128 kg
_________________________________________________________________
Magnús Engill Valgeirsson – körfuknattleikur

Félag/lið sem viðkomandi keppir fyrir: Skallagrímur
Árangur á árinu 2025:
Meistaraflokkur karla.
Þátttaka í Íslandsmóti og bikarkeppni KKÍ.
Magnús Engill kemur til Skallagríms frá Grindavík. Hann spilaði þar upp yngri flokka og var í leikmannahópi mfl. Grindavíkur í úrvalsdeild áður en hann kom til Skallagríms. Hann er á sínu 3ja tímabili með meistaraflokki og hefur verið einn af lykilleikmönnum meistaraflokks frá því hann kom.
_________________________________________________________________
Sindri Karl Sigurjónsson – frjálsar íþróttir

Sindri Karl er af mörgum talinn vera efnilegasti langhlaupari Íslands í dag.
Íslandsmet Sindri Karl Sigurjónsson (aldursfl. 16-17 ára)
23. feb. 2025 3.000 m hlaup innanhúss 9:07,99 mín MÍ innanhúss
12. júní 2025 5 km götuhlaup 15:39 mín Hafnarfjarðarhlaupið
2. júlí 2025 10 km götuhlaup 33:03 mín Ármannshlaupið
29. des. 2025 3.000 m hlaup innanhúss 9:02,59 mín Áramót Fjölnis
Á árinu 2025 setti Sindri fjögur Íslandsmet í flokki 16-17 ára, þrátt fyrir að vera enn á fyrra árinu í flokknum. Fyrsta metið kom á Meistaramóti Íslands innanhúss í febrúar, þar sem hann hljóp 3.000 m á 9:07,99 mín. Í júní bætti hann svo metið í 5 km götuhlaupi þegar hann hljóp á 15:39 mín í Hafnarfjarðarhlaupinu. Í júlí féll metið í 10 kílómetrunum þegar Sindri hljóp á 33:03 mín í Ármannshlaupinu – og loks bætti hann eigið met í 3.000 m hlaupi innanhúss á Áramóti Fjölnis í lok ársins – og hljóp þá á 9:02,59 mín.
Til að setja tíma Sindra í 5 og 10 km götuhlaupum í samhengi má geta þess að frá upphafi hafa aðeins 7 fullorðnir Íslendingar náð betri tíma í 5 kílómetrunum og þetta var auk þess þriðji besti tími ársins í greininni. Og í 10 km hlaupi á Sindri 7. besta tíma ársins.
Sindri Karl vann fjóra Íslandsmeistaratitla á árinu 2025 í flokki 16-17 ára, þ.e. í 3.000 m hlaupi innanhúss, í 1.500 m hlaupi utanhúss, í 10 km götuhlaupi og í víðavangshlaupi. Þá var hann í tvígang valinn í landslið Íslands, fyrst á Norðurlandameistaramót yngri en 20 ára í Uppsala í júlí og síðan á Norðurlandameistaramót yngri en 20 ára í víðavangshlaupi í Kastrup í Danmörku í nóvember þar sem flestir norrænu keppendurnir á þessum mótum voru tveimur til þremur árum eldri en hann.
_________________________________________________________________
Sveinn Svavar Hallgrímsson – knattspyrna

Félag/lið sem viðkomandi keppir fyrir: Kári
Afrek íþróttamanneskjunnar á árinu 2025:
2.deild – 19 leikir Lengjubikar – 5 leikir / 1 mark Mjólkurbikar – 3 leikir Auk leikja með 2.flokk ÍA þar sem liðið varð bikarmeistari.
Sveinn er ungur og efnilegur fótboltamaður sem hefur spilað fyrir yngri landslið Íslands. Sveinn hefur alla burði til þess að ná langt í fótboltanum á Íslandi og gæti vel spilað í deildum ofar en hann hefur gert. Á árinu 2026 mun Sveinn flytja til Bandaríkjanna þar sem hann mun nýta fótboltann til þess að sækja sér menntun.
_________________________________________________________________
Sævar Alexander Pálmason – körfuknattleikur

Félag/lið sem viðkomandi keppir fyrir: Skallagrímur
Árangur á árinu 2025:
Leikmaður ungmennaflokks og leikmaður mfl kk og tók þátt í Íslandsmóti og bikarmóti KKÍ. Lykilleikmaður ungmennaflokks fyrri part árs. Vann sig inn í byrjunarlið í mfl kk á yfirstandandi tímabili.
Sævar er uppalinn Skallagrímsmaður sem hefur verið lykilleikmaður yngri flokka Skallagríms. Hann hefur verið valinn í unglingalandsliðshópa KKÍ upp alla yngri flokka og var valinn í lokahóp U16 árið 2023. Sævar var lykilleikmaður ungmennaflokks á síðasta tímabili og hefur verið gríðarlega vaxandi allt árið 2025. Hann vann sig inn í byrjunarlið mfl núna í upphafi yfirstandandi tímabili og hefur sett mark sitt á leik liðsins með gríðarlega góðri spilamennsku og orðinn lykilleikmaður hjá mfl karla.
_________________________________________________________________
Það verður spennandi að sjá hvert þeirra verður útnefnt Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2025 en kjörið fer fram eins og fyrr segir sunnudaginn 25. janúar nk. kl.15:00 í Hjálmakletti.
Öll velkomin!
Deildu þessari frétt



