Unglingalandsmót UMFÍ fór fram í Borgarnesi um verslunarmannahelgina og tókst virkilega vel til.
Í byrjun vikunnar var útlitið tvísýnt varðandi tjaldsvæðið á Kárastöðum þar sem mikið hafði rignt og svæðið orðið ansi blautt og erfitt yfirferðar. Starfsfólk Borgarbyggðar á mikið lof fyrir að snör handtök við að drena svæðið og þegar fyrstu mótsgestir komu á miðvikudagskvöldinu var hægt að vísa þeim á svæði sem voru orðin nægilega þurr til að fólk gæti komið sér fyrir með hýsin sín og tjaldað. Svæðið var þó vel blautt meðan á mótinu stóð og viljum við bæði þakka og hrósa öllum gestum á tjaldsvæðinu sem langflestir sýndu þessu skilning og gerðu gott úr þessu.
Meðlimir úr björgunarsveitunum Brák, Heiðari og OK stóðu vaktina á tjaldsvæðinu yfir allt unglingalandsmótið.
Fimmtudagur 1. ágúst
Dagskráin hófst svo á fimmtudeginum með keppni í golfi sem gekk vel.
Einnig var boðið upp á fjölskylduskokk frá skemmtitjaldinu sem var hjá tjaldsvæðinu og var góð þátttaka í því. Um kvöldið voru svo tónleikar þar sem DJ Ísak & Ernir héldu uppi stuðinu eins og sjá má.
Föstudagur 2. ágúst
Á föstudeginum fór allt á fullt og var þá keppt í bogfimi, frjálsum íþróttum, grashandbolta, körfubolta, pílukasti og upplestri auk þess sem alls kyns afþreying var í boði s.s. bogfimikynning, glímusýning og leikjagarður.
Einbeitingin skein úr andlitum keppenda í pílukasti sem fór fram í glæsilegri aðstöðu hjá nýstofnaðri píludeild Skallagríms.
Það er ekki hægt að halda svona mót án aðkomu fjölda sjálfboðaliða og þar býr UMSB yfir miklum mannauði. Hér má sjá sveitarstjóra Borgarbyggðar dæma leik í grashandbolta, en hvort látbragð leikmannsins segi eitthvað til um dómgæsluna skal ósagt látið.
Á föstudagskvöldið var mótssetning og var hún hin glæsilegasta.
Nýkjörinn forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, mætti og flutti ávarp sem náði vel til gesta. Þess má geta að Forseti Íslands er verndari UMFÍ.
Það var augljóst að Guðrún Hildur Þórðardóttir sambandsstjóri UMSB, Halla Tómasdóttir, Björn Skúlason eiginmaður Höllu og Jóhann Ingimundarson formaður UMFÍ skemmtu sér vel á mótssetningunni.
Hlynur Blær Tryggvason flutti ávarp fyrir hönd keppenda.
Fánaberar komu frá aðildarfélögum innan UMSB og stóðu sig með mikilli prýði.
Fánaberar voru þau Heiðar Smári Ísgeirsson, Kristný Halla Bragadóttir, Kristján Karl Hallgrímsson, Leó Birgisson, Ólöf Sesselja Kristófersdóttir, Rakel María Pálmadóttir og Steinunn Bjarnveig Blöndal.
Hér má sjá Steinunni Bjarnveigu taka fánahyllinguna.
Kyndilberar voru þau Kristín Eir Hauksdóttir og Sindri Karl Sigurjónsson og kveiktu þau landsmótseldinn við mikinn fögnuð áhorfenda.
Bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónssynir tóku lagið á setningunni.
Kynnar voru þau Ásthildur Ómarsdóttir og Ernir Daði Arnberg Sigurðsson og stóðu þau sig vel í að virkja áhorfendur.
Laugardagur 3. ágúst
Á laugardeginum hélt keppnin í frjálsum íþróttum áfram en einnig var komið að keppni í badmintoni, grasblaki, hestaíþróttum, körfuboltamót ÍF, stafsetningu og sundi.
Og að vanda var nóg af annarri afþreyingu í boði s.s. axarkast, brettafjör, bæjarganga með leiðsögn, danssmiðja, fótboltafjör, hestafimleikasýning, frjálsíþróttaleikar, körfuboltafjör, leikjagarður, sundleikar, pickleball, sundlaugarpartý með tónlist, LED badmintonfjör, hæfileikasvið og opinn frisbígolfvöllur á Hvanneyri.
Um kvöldið tróðu svo hljómsveitin Meginstreymi og Björgvin úr Idolinu upp.
Sunnudagur 4. ágúst
Sunnudagurinn hófst með keppni í fótbolta og borðtennis, svo voru glíma, skák, hjólreiðar og kökuskreytingar á dagskrá.
Afþreyingardagskráin var einnig skemmtileg en boðið var upp á fjölskyldujóga, blindrabolta, opinn folfvöll, leikjagarð og hæfileikasvið fyrir 11 ára og eldri.
Um kvöldið voru svo tónleikar með GDRN, Júlí Heiðari og brekkusöngur með Orra Sveini Jónssyni sem sló algjörlega í gegn. Að því loknu voru mótsslit og flugeldasýning.
Að halda svona stóran viðburð eins og Unglingalandsmót UMFÍ myndi aldrei ganga upp nema fyrir alla þá fjölmörgu sjálfboðaliða sem voru tilbúnir að leggja hönd á plóg. Vill stjórn UMSB senda þakkir til allra þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem hjálpuðu til við að framkvæmd mótsins tókst jafn vel til og raun bar vitni.
Einnig vill UMSB þakka UMFÍ og Borgarbyggð fyrir virkilega gott samstarf. Auk þeirra eiga björgunarsveitirnar Brák, Heiðar og OK, sem og allir viðbragðsaðilar, Slökkvilið Borgarbyggðar, Lögreglan á Vesturlandi og Heilbrigðisstofnun Vesturlands þakkir skildar fyrir þeirra aðkomu.
Hér fyrir neðan má sjá nokkur þeirra sem svöruðu kallinu. Fleiri myndir eru svo væntanlegar á næstunni til að gera mótinu enn betri skil.
Fyrir Stefán Brodda, sveitarstjóra Borgarbyggðar, var ekkert verkefni of lítið eða stórt, hann gekk í öll störf.
Mikil vinna fer fram á bakvið tjöldin. Hér eru Sigurbjörg Þórunn Marteinsdóttir, ritari framkvæmdanefndar og varasambandsstjóri, Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir framkvæmdastjóri UMSB og Guðrún Hildur Þórðardóttir sambandsstjóri UMSB og formaður framkvæmdanefndar að skipuleggja og passa upp á að allt gangi vel fyrir sig.
Deildu þessari frétt