Athöfn þar sem úthlutað var úr Lýðheilsusjóði var haldin föstudaginn 24. febrúar í húsakynnum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
232 umsóknir bárust og úthlutaði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, rúmum 86 milljónum króna til 150 verkefna og rannsókna. Styrkt voru fjölbreytt verkefni um land allt. Áhersla er lögð á að styrkja aðgerðir sem miða m.a. að því að efla geðheilsu barna og fullorðinna og efla félagsfærni ásamt því að draga úr einmanaleika. Við mat á umsóknum var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.
Gaman er að segja frá því að verkefni sem Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir, sjúkraþjálfari, hyggst setja upp hlaut 500 þúsund króna styrk. Verkefnið nefnist „Náttúruleg stöðvaþjálfun“ og er ætlunin að setja upp skilti meðfram helstu gönguleiðum Borgarbyggðar. Á skiltunum verða fjölbreyttar styrktaræfngar sem henta öllum, óháð kyni, aldri og líkamsástandi. Myndir og útskýringar með texta verða á skiltunum og QR kóðar með myndböndum og nánari útskýringum á nokkrum tungumálum.
Markmiðið með verkefninu er aukið heilbrigði, heilsulæsi og líkamsvitund í gegnum styrktarþjálfun og fjölbreytta hreyfingu.
Vonir standa til að verkefnið verði unnið í samvinnu við Borgarbyggð og Heilsueflandi samfélag og er stefnt að því að koma því á laggirnar í vor.
Yfirumsjón með verkefninu hefur Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir sem starfað hefur sem sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari í tæp 10 ár og ábyrgðaraðili er Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri UMSB og íþróttafræðingur sem hefur yfir 20 ára reynslu af þjálfun almennings og íþróttaþjálfun barna.
Að ofan má sjá þær Bjarneyju og Guðríði Hlíf með Willum Þór heilbrigðisráðherra á mynd sem tekin var við athöfnina.
UMSB óskar Guðríði Hlíf innilega til hamingju með styrkinn og hlökkum til að fylgjast með og taka þátt í þessu frábæra og uppbyggilega verkefni með henni.
Deildu þessari frétt