Á nýafstöðnu Íslandsmeistaramóti í sundi sem haldið var á Ásvöllum í Hafnarfirði gerði sundkonan Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir frá Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarsveit það gott. Hún varð tvöfaldur unglingameistari þegar hún sigraði í bæði 50 metra skriðsundi og 50 metra flugsundi og bætti sig í báðum greinum.
Með þessum árangri tryggði hún sér sæti í A landsliði Íslands í sundi, sem og keppnisrétt á Norðurlandameistaramóti í 25 metra braut sem fram fer í Tartu í Eistlandi í byrjun desember.
Guðbjörg hefur æft sund frá 7 ára aldri með Sundfélagi Akraness, en hún hefur einnig keppt undir merkjum UMSB m.a. á unglingalandsmótum í gegnum tíðina.
Það verður spennandi að fylgjast með Guðbjörgu og við óskum henni góðs gengis!Deildu þessari frétt