Húsafellsmótin

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Húsafellsmót UMSB eru enn mörgum fersk í minni. Þetta framtak hjá stjórn UMSB undir forystu Vilhjálms Einarssonar var einstakt í sinni röð og til fyrirmyndar. Samkoman var fyrir alla fjölskylduna og áfengisbann var á þessum mótum. Mikilvægt er að halda sögunni á lofti og nauðsynlegt að safna saman öllu því sem finnst um mótin.

UMSB hefur í hyggju að gera sögunni skil og því voru kallaðir til aðilar sem unnu að mótunum á sínum tíma í síðustu viku.  Magnús Magnússon frá Skessuhorninu var fenginn til að taka viðtal við þá og rifja upp söguna. Þökkum við honum fyrir að taka svona vel í það.

Þeir sem unnu hvað mest að þessum mótum og viðtalið var tekið við eru Gísli V. Halldórsson, Ófeigur Gestsson, Jón G. Guðbjörnsson og Hjörtur Þórarinsson. Áhugavert verður að sjá hvað verður úr þessu samtali. Fjöldi annarra kom að þessum mótum og verður einnig leitað til þeirra í framhaldinu.

UMSB biður þá sem vita t.d. um myndir frá þessari hátíð að hafa samband við umsb@umsb.is  eða í síma 861- 3379.  

 

Hér að neðan má lesa frétt úr Morgunblaðinu þegar mótið var rifjað upp á sínum tíma.

 

Húsafell heillaði flesta

Ungmennasamband Borgarfjarðar efndi til sumarhátíðar í Húsafellsskógi. Árið áður höfðu um fimmtán þúsund manns lagt leið sína þangað, víðs vegar að af landinu. Dagskráin nú var fjölbreyttari en áður, þekktir skemmtikraftar "að ógleymdri hljómsveitinni Trúbrot, vinsælustu unglingahljómsveitinni um þessar mundir", eins og Tíminn orðaði það. Þetta átti að vera skemmtun fyrir alla fjölskylduna, vínlaus menningarhátíð.

Niðurstaðan varð sú að Húsafell heillaði fleiri landsmenn en nokkru sinni. Blaðamaður Morgunblaðsins sagði að á þessum kyrrláta stað hefði risið upp "lítil borg með aðalhverfum, úthverfum, götum og stígum, danspöllum og sjoppum í seilingarfjarlægð." Dansað var á þremur pöllum við undirleik Trúbrots, hljómsveitar Ingimars Eydal og hljómsveitar Björns R. Einarssonar. Morgunblaðið sagði að hljómsveitirnar hefðu verið "svo góðar að margir unglingar gleymdu að dansa en stóðu bara og hlustuðu".

Trúbrot vakti mesta athygli og voru áhorfendur nokkuð aðgangsharðir. Rúnar Júlíusson tók það til bragðs að stökkva upp á þak skýlisins yfir hljómsveitarpallinum og hélt þar áfram söng sínum við mikla hrifningu. Síðan snaraði Rúnar sér aftur niður "í gegnum þakið, plastdúk á trégrind, og sveiflaði sér lengi fram og aftur", eins og Morgunblaðið sagði.

Í svonefndum Hátíðarlundi tóku níu hljómsveitir þátt í keppni um titilinn Táningahljómsveitin 1969. Hlutskörpust varð Hrím frá Siglufirði. Margt annað var í boði svo sem íþróttakeppni, helgistund, kórsöngur, þjóðdansar og erindi um handritamálið. Meðal annarra skemmtikrafta voru Ómar Ragnarsson, Alli Rúts, Gunnar Eyjólfsson og Bessi Bjarnason. Kynnir var Jón Múli Árnason.

Blöðin voru sammála um að hátíðin í Húsafelli hefði tekist vel og að unglingarnir hefðu ekki síst átt þátt í því. "Vegna þess hve löggæsla var vel skipulögð tókst að fjarlægja flesta þá sem vín sá á áður en til óláta kom," sagði Alþýðublaðið. Nefndar voru tölur um að á þriðja hundrað hefðu verið "teknir úr umferð". Einnig bárust fréttir af sex tjaldbrunum, sem rekja mátti til vankunnáttu í meðferð "gastækjanna með litlu bláu kútunum", sagði Tíminn.

Fram kom í Morgunblaðinu að tekjur af sölu aðgöngumiða hefðu numið hátt í fjórum milljónum króna og að skemmtikraftar hefðu samtals fengið 700 þúsund krónur, þar af hefði Trúbrot fengið 120 þúsund krónur fyrir þrjá dansleiki.

 

Deildu þessari frétt