Kristín Þórhallsdóttir er Íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2021.

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Kristín Þórhallsdóttir var kosin íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2021 

Kristín hefur stundað klassískar kraftlyftingar frá árinu 2019 og varð þrefaldur Íslandsmeistari í -84 kg flokki kvenna árið 2021. Jafnframt varð Kristín stigahæsti keppandinn í kvennaflokki annað árið í röð og er nú orðin stigahæsti Íslendingurinn í íþróttinni óháð kyni, þyngdarflokki og aldursflokki.
Kristín setti fjölmörg Íslandsmet á árinu. Hún bar sigur úr býtum á Reykjavíkurleikunum í janúar. Kristín er fyrsti Íslendingurinn til að ná Evrópumeistaratitli á þrílyftumóti innan kraftlyftinga. Besta árangri sínum á árinu náði hún á Evrópumeistaramótinu og fékk gull í fjórum greinum, ásamt því að setja fjögur Íslandsmet og tvö Evrópumet.

Ásamt því að vera íþróttamaður Borgarfjarðar var hún valin íþróttamaður Akranes og lenti hún í þriðja sæti í kjöri Íþróttamanns ársins 2021, stórkostlegt ár hjá dömunni og svo sannarlega verðskuldað.

 

 

 

 

 

 

Bjarki Pétursson lenti í 2.sæti í kjöri Íþróttamanns Borgarfjarðar. 

 

Bjarki keppti á átta mótum á evrópsku Challenge Tour mótaröðinni árið 2021 sem er næst sterkasta mótaröð evrópskra kylfinga. Hann vann einnig öruggan sigur í Meistaramóti Golfklúbbs Borgarness 2021. Bjarki hefur sex sinnum hlotið titilinn íþróttamaður Borgarfjarðar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Alexandrea Guðný lenti í 3.sæti í kjöri Íþróttamanns Borgarfjarðar.

 

Alexandrea hefur æft kraftlyftingar í fimm ár. Hennar aðal grein er klassísk bekkpressa. Hún hlaut silfur á heimsmeistaramóti unglinga í Litháen á árinu og bætti sex ára gamalt íslandsmet á norðurlandamóti unglinga í Finnlandi.

 

 

 

 

 

 

 

 

Auðunsbikarinn

Bikarinn veitir Minningarsjóður Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar, en Auðunn Hlíðkvist lést 2. ágúst 1995, aðeins 14 ára gamall. Bikarinn er veittur ungum íþróttamanni sem þykir efnilegur í íþrótt sinni, sýnir metnað í ástundun og framkomu og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan. Tilgangur viðurkenningarinnar er að minnast Auðuns Hlíðkvist og einnig að styðja við og hvetja áfram unga og efnilega íþróttamenn á svæðinu.
Auðunsbikarinn árið 2021 hlýtur Ernir Daði A. Sigurðsson.

Hans aðal íþrótt er fótboltinn. Ernir Daði er gætur námsmaður, leggur sig fram þar sem og í íþróttum almennt og er liðtækur á tónlistarsviðinu. Hann fær þá umsögn að vera mikill öðlingur og góður drengur sem hafi góð áhrif á samnemendur sína. Er í mörgu fyrirmynd yngri barna, hefur góð félagsleg tengsl og góður við yngri nemendur. Hann er virkur í ýmsum verkefnum í samfélaginu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deildu þessari frétt