Minningarorð um Vilhjálm Einarsson sambandsstjóra UMSB 1967-1973

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Látinn er Vilhjálmur Einarsson, fyrrverandi sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), okkar fyrsti Olympíuverðlaunahafi og einn farsælasti íþrótta- og æskulýðsleiðtogi þjóðarinnar. Vilhjálmur var formaður UMSB um sex ára skeið á árunum 1967-1973 en var þá jafnframt skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti. Það má með sanni segja að það hafi verið bæði heiður og happ að hann skyldi veljast með þeim hætti til starfa í þágu æskulýðs í Borgarfjarðarhéraði. Ýmis nýmæli voru tekin upp í starfsemi UMSB í tíð Vilhjálms en einnig hafði hann ákveðnar hugmyndir um hvernig styrkja mætti fjárhag sambandsins  sem gerði öllu félags- og íþróttastarfi innan UMSB mögulegt að vaxa og dafna svo eftir var tekið. Íþróttastarf innan aðildarfélaganna efldist, íþróttaiðkendum fjölgaði sem og íþróttaviðburðum er þá náðu til fleiri aldurshópa. Að frumkvæði Vilhjálms voru haldnar sumarhátíðir í Húsafellsskógi þar sem aðildarfélög UMSB voru virkjuð við undirbúning og framkvæmd þeirra en fengu á móti að setja upp söluskúra til eigin fjáröflunar.  Þarna var unnið þrekvirki strax á fyrsta ári við að byggja upp aðstöðu til samkomuhaldsins og í raun lauk því verki aldrei því alltaf þurfti að bæta um betur og auka við. Aðsóknin var mikil; um tíundi hluti þjóðarinnar mætti þegar flest var. Hagnaður af sumarhátíðunum dugði gott betur en að kosta nýtt starf framkvæmdastjóra UMSB. Ásamt fjölmörgum verkefnum beitti Vilhjálmur sér fyrir því að haldið var áfram kostnaðarsömum framkvæmdum við íþróttavöll sambandsins á Varmalandi og hann tekinn í notkun.

Vilhjálmur var sæmdur gullmerki UMSB á sjötíu ára afmælishátíð sambandsins 1982. Framlag Vilhjálms í þágu UMSB var ómetanlegt. Sambandið bar þess vitni lengi eftir að hann hóf störf á nýjum vettvangi í fjarlægu héraði.

Ungmennasamband Borgarfjarðar vottar fjölskyldu Vilhjálms Einarssonar sína dýpstu samúð. Minning hans mun lifa.

Minningarorð rituðu Jón G. Guðbjörnsson fyrrum sambandsstjóri UMSB og Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri UMSB fyrir hönd stjórnar UMSB.

Deildu þessari frétt