Viðurkenning úr minningarsjóði um Auðunn Hlíðkvist veitt til UMSB

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Á kjöri íþróttamanns Borgarfjarðar 5. janúar var veitt viðurkenning úr minningarsjóði um Auðunn Hlíðkvist í 25. skipti. Auðunn var fæddur 1981 en lést 1995, aðeins rúmlega 14 ára gamall. Auðunn stundaði flestar íþróttir sem voru í boði í Borgarnesi á þeim tíma en aðalgreinar hans voru knattspyrna, karfa og frjálsar. Hann var hæfileikaríkur íþróttamaður, góður námsmaður, hógvær og rólegur en bjó yfir miklum forystuhæfileikum. Allt kostir sem þarf til að prýða góðan íþróttamann. Í kjölfar andláts Auðuns var stofnaður minningarsjóður. Á hverju ári er íþróttamanni veitt viðurkenning úr sjóðnum og í ár var það Almar Orri Kristinsson. Af sama tilefni var fé veitt úr sjóðnum til Ungmennasambands Borgarfjarðar. UMSB vill ítreka þakkir til fjölskyldu Auðuns fyrir dýrmætan stuðning sem verður nýttur í að efla, hvetja og styrkja unga og frambærilega íþróttamenn innan UMSB.

Deildu þessari frétt