Nýtt húsnæði þjónustumiðstöðvar UMSB

UMSB Almennt

Þriðjudaginn 16.júní var skrifað undir samning milli Borgarbyggðar og UMSB um húsnæði þjónustumiðstöðvar UMSB. Samningurinn kveður á um að Borgarbyggð leggi UMSB til húsnæði við Skallagrímsgötu 7a undir þjónustumiðstöð íþrótta, tómstunda og æskulýðsmála.

Í þjónustumiðstöðinni verða skrifstofur UMSB ásamt Því sem Þar verða skrifstofur og fundar og félagsaðstaða í boði fyrir þau aðildarfélög sem vilja nýta sér aðstöðuna.

Þjónustumiðstöðin er vel staðsett á íþróttasvæðinu í Borgarnesi og er frábær viðbót við þá aðstöðu sem UMSB og aðildarfélögin geta nýtt sér. Ýmsar hugmyndir eru á teikniborðinu varðandi þjónustumiðstöðina en þar má t.d. nefna að stefnt er að föstum opnunartíma sem nýtist börnum og unglingum sem bíða eftir íþróttaæfingum. Þjónustumiðstöðin ætti því að nýtast vel börnum sem koma með skólabílum úr dreifbýlinu og þurfa að bíða eftir að æfing hefjist eða bíða eftir heimferð eftir æfingu. Að  auki verður þjónustumiðstöðin opin öllum þeim aðildarfélögum UMSB sem vilja til að halda fundi, samkomur og aðra viðburði eftir þörfum.

Næstu dagar munu fara í að mála og snyrta húsnæðið og stefnan er að opna glæsilega þjónustumiðstöð UMSB í nýju húsnæði síðar í sumar.

Deildu þessari frétt