10 efstu í kjöri Íþróttamanneskju Borgarfjarðar 2023

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

18 tilnefningar til Íþróttamanneskju Borgarfjarðar 2023 bárust í ár sem sýnir vel hversu mikil gróska er í íþróttastarfinu og hversu magnað íþróttafólk við eigum.

Atkvæðagreiðslu er nú lokið og því ljóst hvaða íþróttafólk er í efstu 10 sætunum.

Þetta eru þau efstu tíu, í stafrófsröð auk þess sem stiklað er á stóru um helstu afrek þeirra á árinu:

Bjarki Pétursson – Golf

Mynd kylfingur.is

Bjarki hefur á síðustu árum stigið fram sem einn af allra bestu kylfingum Íslands og hefur verið einn af þeim sex kylfingum sem fá úthlutað úr „Forskoti afrekssjóði“ „Þeir kylfingar sem fá úthlutað úr „Forskoti afrekssjóði“ eru sterkar fyrirmyndir og eru ríkar kröfur eru gerðar til þessara íþróttamanna. Bjarki er auk þess í landsliðshópi „atvinnukylfinga“ á Íslandi.

Bjarki endaði í 36. sæti á peningalista Nordic league í Evrópu. Af þeim átta Íslendingum sem leika á Nordic league er hann með næst besta árangur í deildinni.

Hann endaði í 2. sæti af 156 keppendum í sterku móti (Opna Gamle Fredrikstad Noregi). Hann endaði í 7. sæti af 909 spilurum á mjög sterkri nýrri mótaröð sem er spiluð í golfhermum og er opinn öllum kylfingum í heiminum. Aðeins 1000 kylfingar hafa keppnisrétt í þetta mót.

Bjarki bætti vallarmetið á Grafarholtsvelli í Reykjavík þegar hann spilaði á 63 höggum í “Opna Aukakrónur mótinu” og sigraði það með yfirburðum. Bjarki keppti aðeins í tveimur opnum mótum á Íslandi í sumar og sigraði bæði með yfirburðum.

Bjarki er sem stendur númer 1673 á heimslista atvinnumanna í golfi (Official World Golf Ranking), sem er hækkun um 232 sæti á milli ára en hann var númer 1905 í fyrra, sem verður að teljast ótrúlegur árangur.

Bjarni Guðmann Jónsson – Körfuknattleikur

Mynd úr einkasafni

Bjarni Guðmann er nú á sínu 5. ári í bandaríska háskólaboltanum með liði sínu Fort Hays State (Tigers) og á fullum skólastyrk. Bjarni tryggði sæti sitt í byrjunarliði Tigers strax á öðru ári og hefur byrjað alla leiki liðsins síðan.

Bjarni Guðmann átti gríðarlega gott tímabil 22/23 þar sem hann var valinn í varnarlið ársins í deildinni annað árið í röð og auk þess tilnefndur til heiðursverðlauna All-MIAA Honorable Mention selection. Bjarni var með besta 3ja stiga nýtingu á tímabilinu, var þriðji stigahæstur og með næst flest fráköst auk þess að stela bolta oftar en liðsfélagar hans. Liðið lenti 3. -4. sæti í deildinni og vann sér inn þátttökurétt í úrslitum deildarinnar á síðasta tímabili.

Bjarni var valinn í 5 manna varnarlið deildarinnar við lok síðasta keppnistímabils annað árið í röð auk þess að vera tilnefndur til heiðursverðlauna sem er gríðarlega góð viðurkenning fyrir þennan varnarjaxl.

Brynjar Snær Pálsson – Knattspyrna

 

Mynd hk.is

Brynjar spilaði með knattspyrnuliði HK í Bestu deild karla sumarið 2023.

Hann hefur spilað 75 leiki í sterkustu deild Íslands og er orðinn þekkt nafn í Íslenskri knattspyrnu. Knattspyrna er sú íþrótt sem flestir reyna fyrir sér í. Að ná þetta langt í vinsælustu íþrótt heims er mikið afrek.

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – sund

Mynd úr einkasafni

Guðbjörg Bjartey er hluti af afrekshópi Sundfélags Akranes.

Guðbjörg Bjartey varð Akranesmeistari kvenna, 15 ára og eldri í apríl 2023. Tók þátt í Taastrup Open í Danmörku með unglingalandsliðinu – Fékk bronsverðlaun í 50m skriðsundi og bronsverðlaun með blandaðri boðssundsveit í 4x100m skriðsundi. Íslenska landsliðið varð stigahæst á mótinu og tóku bikar heim.

Bjartey varð tvöfaldur unglingameistari bæði í 50m skriðsundi og 50m í flugsundi. Þá fékk Bjartey silfur í 100m skriðsundi. Í opnum flokki fékk Bjartey silfur í 50m skriðsundi og 50m í flugsundi og brons í 100m skriðsundi. Bjartey á sæti í landsliðshópi og náði í fyrsta skipti á þessu ári inn í A landslið og úrvalshóp. Bjartey keppti á Norðurlandameistaramóti í Eistlandi í desember þar sem hún endaði í 4. sæti í 100 metra skriðsundi í úrslitum í fullorðinsflokki og vann ásamt Íslenska liðinu bronsverðlaun í boðsundi í 4*100m skriðsundi kvenna.

Bjartey sló þrjú Akranesmet í einstaklingsgreinum á árinu bæði í unglingaflokki og fullorðinsflokki. Öll þessi met voru 20 ára gömul.

Bjartey var einnig í boðsundssveitum sem slógu fimm Akranesmet á árinu, í 4*50m fjórsundi og 4*100 m fjórsundi og skriðsundi í blandaðri sveit í 50 metra laug og í 4*50m fjórsundi og skriðsundi í blandaðri sveit í 25 metra laug. Þau unnu einnig til verðlauna á íslandsmeistaramótum.

Guðbjörg Bjartey hefur skrifað undir samning við Towson University í Maryland í Bandaríkjunum um náms- og sundstyrk og stefnir að því að æfa og stunda þar nám frá hausti 2024.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir – Frjálsar

Mynd VCU athletics

Guðrún Karítas er hluti af Afrekshópi ungmenna FRÍ og stundar háskólanám og æfir sleggjukast í VCU háskólanum í Richmond í Bandaríkjunum á fullum skólastyrk.

Guðrún Karítas byrjaði árið 2023 á að keppa í lóðkasti (9,08kg) á innanhússtímabilinu þar sem hún á síðasta móti tímabilsins sló íslandsmet í greininni með kasti uppá 20,03 m. Í sleggjukastinu bætti hún sig um rúma 5 metra og kastaði lengst 65,42. Hún hlaut nokkur einstaklingsverðlaun í deildinni sem háskólinn hennar keppir í (Atlantic 10) auk þess að verða svæðismeistari bæði í lóðkasti og sleggjukasti.

Guðrún Karítas kastaði lengst 65,42 m á árinu 2023 en hafði árið 2022 kastað lengst 60,14 m. Þessi árangur er næst besti árangur kvenna í fullorðinsflokki á Íslandi.

Guðrún Karítas á í dag lengsta kast kvenna í lóðkasti og næst lengsta kast kvenna í sleggjukasti. Hún varð í 14. sæti á EM U23 sl. sumar og er sem stendur í 105. sæti á heimslistanum í sleggjukasti kvenna. Hún er í 11. sæti á stöðulista yfir kvenkyns sleggjukastara á norðurlöndunum og 55. sæti á sama lista fyrir Evrópu.

Heiður Karlsdóttir – Körfuknattleikur

Mynd úr einkasafni

Heiður spilaði gríðarlega mikið á síðasta keppnistímabili . Það sem af er á þessu tímabili hefur Heiður verið að spila mest af íslensku leikmönnunum hjá Fjölni hjá meistaraflokki félagsins.

Heiður var valin bæði í U-18 landsliðið og U-20 landsliðið á árinu og tók bæði þátt í Norðurlandamótinu og Evrópumótinu þessum liðum.

Hróður Heiðar hefur borist út fyrir landssteinana og fékk hún tilboð frá 35 háskólum í Bandaríkjunum um skólavist. Hún samdi að lokum háskólann í Wyoming og mun halda út næsta haust og leika með Wyoming Cowgirl liði skólans næstu fjögur árin.

Helgi Guðjónsson – Knattspyrna

Mynd vikingur.is

Helgi Guðjónsson lék með meistaraflokki Víkings Reykjavík árið 2023 en félagið varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu. Helgi varð næst hæstur hjá í Víkingsliðinu þegar kemur að mörkum og stoðsendingum samanlögðum en hann skoraði samtals 9 mörk og átti 12 stoðsendingar á tímabilinu í öllum keppnum; í deildarkeppni, bikarkeppni og í evrópukeppni. Helgi var markahæstur Víkinga á undirbúningstímabilinu með samtals 8 mörk. Helgi er einn af bestu sóknarmönnum sem leika knattspyrnu á Íslandi í dag.

Jósep Magnússon – hlaup

Mynd úr einkasafni

Jósep Magnússon hefur verið áberandi í íslenska hlaupasamfélaginu í aldarfjórðung. Hann er ekki aðeins einn af örfáum Íslendingum sem hefur stundað íþróttina stöðugt allan þennan tíma, heldur hefur hann þá sérstöðu að árangur hans nú er engu lakari en hann var fyrir 20 árum og hann er jafnvel enn að bæta sig. Á síðasta ári setti Jósep m.a. persónuleg met bæði í hálfu og heilu maraþoni, 45 ára gamall.

Árangur ársins 2023 (listinn er ekki tæmandi):

2. sæti í Súlur Vertical sem er 100 km hlaup

3. sæti í Brúarhlaupinu sem jafnframt var Íslandsmeistaramót í 10 km götuhlaupi, 1. sæti í sínum aldursflokki með yfirburðum á tímanum 37:06

1. sæti Meistaramót öldunga 800m á tímanum 2:17

2. sæti Nordic Master Open 3000m 9:55:91, síðustu 200m með rifinn kálfavöðva.

Fyrsta hlaup eftir meiðsli – Súlur GYÐJAN 100km 2. sæti á tímanum 14:06:40

Reykjavíkurmaraþon – 52. sæti af 943 keppendum, 12. sæti af 136 keppendum í sínum aldursflokki, á tímanum 3:12:29

2. sæti í haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara á tímanum 3:03:50

Costa blanca trail 103km hlaup með 6000 metra hækkun á tímanum 15:29:29

Jósep hljóp ekki jafn mikið og hann er vanur á þessu ári vegna alvarlegra meiðsla en hann reif kálfavöðva í mars. Árangur ársins er samt ótrúlegur og fáir sem geta leikið þetta eftir.

Kristín Eir Holaker – Hestamennska

Mynd eidfaxi.is

Kristín Eir var valin í afrekshóp unglinga, Landsambands Hestamannafélaga nú annað árið í röð. 2023 var hópurinn 20 unglingar.

Krístín Eir var í úrslitum og verðlaunasæti í öllum greinum sem hún tók þátt í á Íslandsmeistaramóti unglinga 14-17 ára ( 8 greinum) en hún er að keppa á sínu fyrsta ári í unglingaflokki, þannig þetta er frábær árangur.

Kristín Eir er ofarlega á stöðulistum í öllum greinum hestaíþrótta í unglingaflokki á heimsvísu, eins og hér gefur að líta:

er í 2. sæti World Ranking  V2 4 gangi unglinga

er í 4. sæti  World Ranking  V1 4 gangi unglinga

er í 17. sæti  World Ranking 5 gangur unglinga

er í 24. sæti World Ranking tölti unglinga

er í  23.  sæti  World Ranking gæðingakeppni unglinga

er í 13. sæti World Ranking gæðinga skeið unglinga

er í 6. sæti á World Ranking 100 metra skeið unglinga

er í 3. sæti á World Ranking í Gæðingatölti unglinga

Kristín Eir á nú þegar fjölda Íslandsmeistara titla og er núverandi Landsmótssigurvegari í Barnaflokki frá 2022 þá með hæstu einkunn sem gefin hefur verið í Barnaflokki 9,35.

Kristín Þórhallsdóttir – Kraftlyftingar

Mynd kraft.is

Kristín keppir í -84 kg opnum flokki fullorðinna og er stigshæsti Íslendingurinn í íþróttinni óháð kyni, þyngdarflokki og aldursflokki.

Helstu afrek Kristínar á árinu eru silfurverðlaun í samanlögðu á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í opnum flokki sem fór fram á Möltu í júní. Hún hlaut einnig bronsverðlaun í samanlögðu á Evrópumeistaramótinu í Eistlandi núna í desember.

Kristín setti fjölmörg Íslandsmet á árinu. Besti árangur Kristínar á árinu er eftirfarandi: Hnébeygja: 222,5 kg Bekkpressa: 125 kg Réttstöðulyfta: 240kg Samanlagt: 565 kg.

Kristín Þórhallsdóttir er fjórða á heimslista Alþjóðlega kraftlyftingasambandsins (IPF) í sínum þyngdarflokki fyrir árið 2023.

 

Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2023 verður svo útnefnd við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti þann 6. janúar nk. kl.15:00 og vonumst við til að sjá sem flest við athöfnina. Þrettándahátíð Borgarbyggðar er svo haldin strax í kjölfarið og því tilvalið að taka þátt í henni að athöfn lokinni.

 

 

Deildu þessari frétt