5. desember – Dagur sjálfboðaliðans

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

 

Ár hvert er fimmti desember helgaður sjálfboðaliðum um allan heim. Í Borgarbyggð líkt og víðar á Íslandi tekur mikill fjöldi sjálfboðaliða þátt í því á hverjum degi, að reka íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Þetta starf sjálfboðaliðans er afar verðmætt hverju samfélagi og án sjálfboðaliðans væri íþrótta- og æskulýðsstarf ekki svipur hjá sjón.

Sem sambandsstjóri UMSB hef ég verið svo heppinn síðustu mánuði að fá að kynnast þessu frábæra og óeigingjarna starfi sjálfboðaliðans um allt hérað. Þessir aðilar sinna ótrúlegustu hlutum af sinni einstöku eljusemi. Þeir standa heilu dagana við langstökksgryfju, grilla hamborgara og pylsur, telja í verslunum, baka fyrir hin ýmsu tilefni, sækja styrki til starfsins harðri hendi, aka keppendum landshorna á milli og áfram mætti lengi telja. Þið öll eigið daginn í dag og ykkur ber að þakka í dag sem aðra daga. Ég hvet alla til að gefa sjálboðaliðanum klapp á bakið næst þegar þið sjáið hann.

Sjálfboðaliðar sem margir hverjir hafa starfað fyrir hreyfinguna í áratugi á einn eða annan hátt vita hinsvegar hversu mikilvægt starf þeirra er og þeir þurfa ekki klapp á bakið einu sinni á ári til að halda áfram á sömu braut. Sjálfboðaliðar sjá afrakstur starfs síns á hverjum degi.

 

Hluti sjálfboðaliða á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði 2019.

 

Það er þekkt að skipulagt íþrótta og æskulýðsstarf er einhver besta forvörn sem völ er á, niðurstöður frá Rannsóknum og greiningu hafa ítrekað sýnt fram á forvarnargildið. Það kemur skýrt fram að börn og ungmenni sem taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru mun ólíklegri til að neyta vímuefna, eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi mynd. Þessar niðurstöður eru öllum þeim sem starfa að þessum málaflokki mikil hvatning.  Niðurstöður könnunarinnar fyrir árið 2018 í Borgarbyggð má sjá á heimasíðu sveitarfélagsins.

 

 

Mynd: Vímuefnaneysla, greind eftir þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi með íþróttafélagi (hlutfall  nemenda í 8., 9. og 10 bekk árið 2018 á Íslandi) Heimild: Rannsóknarröðin Ungt fólk gerð af Rannsóknum og greiningu.

 

Um leið og við sem samfélag erum rík af frábæru fólki sem starfar sem sjálfboðaliðar og við þökkum fyrir það starf alla daga, þá vitum við öll að margar hendur vinna létt verk. Ég vil því hvetja alla til að taka þátt á einn eða annan hátt. Aðildarfélög UMSB eru stútfull af frábæru fólki sem er gaman að vinna með og um leið er hægt að láta gott af sér leiða samfélaginu öllu til heilla.

Bragi Þór Svavarsson

Sambandsstjóri UMSB

Deildu þessari frétt