UMSB tók enn á ný þátt í Hreyfiviku UMFÍ. Hreyfivikan er evrópsk lýðheilsuherferð sem ber heitið Now We Move. Markmið verkefnisins er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020.
Hægt var að velja um ýmiss konar hreyfingu og allir fundu eitthvað við sitt hæfi. UMSB færir öllum þeim sem lögðu hönd á plóg bestu þakkir. Borgarbyggð bauð frítt í sund og í þrek í Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum. Bröltarar settu upp mjög metnaðarfulla dagskrá með göngum þar sem mismunandi leiðir voru farnar sérhvern dag. Opið var á æfingar hjá Reykdælum einnig var hægt var að prófa badminton sem og ringó. Boðið var uppá þolfimi og styrktarþjálfun og kynning var á frísbígolfi sem nú er hægt að stunda á Hvanneyri. Kvennahlaup ÍSÍ var einnig hluti af dagskrá Hreyfivikunnar. Hreyfivikunni var svo slitið með frábærum viðburði þar sem hjólarar, göngufólk og hlauparar fóru saman Skarðsheiðarveg á sunnudaginn, grilluðu saman í Hreppslaug og skelltu sér svo í laugina. Vilji er til þess að endurtaka þennan viðburð hið fyrsta enda var einstaklega gaman að blanda þessum hópi saman þar sem hver fór á sínum forsendum.
Hreyfivikan er í raun vitundarvakning um mikilvægi þess að hreyfing sé hluti af lífstíl okkar – fyrir heilsu okkar og heilbrigði – fyrir endurnæringu á líkama og sál – fyrir lengra og betra líf. Það skiptir ekki máli hver hreyfingin er heldur að hver og einn finni hreyfingu sem hentar. Sumarið er tilvalinn tími til fjölbreyttra æfinga útivið í fallegri náttúru.
LET‘S MOVE!
Deildu þessari frétt