Fræðslukvöld fyrir þjálfara

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Miðvikudagskvöldið 14.október ætlum við að bjóða uppá fræðslukvöld fyrir þjálfara þar sem við fáum örnámskeið í skyndihjálp frá Ásgeiri Sæmundssyni sjúkraflutninga og björgunarsveitarmanni og fyrirlestur frá Pálmari Ragnarssyni þjálfara hjá KR.

Á skyndihjálparnámskeiðinu verður farið yfir helstu atriði sem allir þjálfarar verða að kunna varðandi fyrstu viðbrögð við slysum á æfingum og í tengslum við íþróttaiðkun, auk atriða í almennri skyndihjálp sem allir ættu að þekkja.

Fyrirlesari kvöldsins er Pálmar Ragnarsson körfuknattleiksþjálfari hjá KR, og fyrir utan hátt í 10 ára reynslu af þjálfun er Pálmar með bs. gráðu í sálfæði og hefur hann starfað mikið með börnum á t.d. barna og unglingageðdeild, leikjanámskeiðum, sumarbúðum og leikskóla.
Hann hefur vakið athygli bæði innan og utan íþróttahreyfingarinnar fyrir þær aðferðir sem hann beitir í körfuboltaþjálfun barna. Þar leitast hann við að byggja upp jákvætt andrúmsloft þar sem hvert einasta barn fær að njóta sín á æfingum og líður eins og það sé partur af hópnum. Í þeim flokkum sem hann hefur þjálfað hefur ávallt orðið mikil fjölgun iðkenda og síðasta vetur voru 60 drengir skráðir á æfingar hjá honum í byrjendaflokki KR (minnibolti 6-7ára).

Í vor flutti hann fyrirlestur sinn "Jákvæð nálgun og félagsstarf í íþróttaþjálfun barna" á ráðstefnu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga á íslandi. Einnig flutti hann sama erindi fyrir þjálfara hjá Dale Carnegie við góðar undirtektir. Á fyrirlestrinum fer hann yfir þær aðferðir sem hann beitir í samskiptum við börn og foreldra í íþróttaþjálfun, og hvernig hann byggir upp andrúmsloft í íþróttum sem börn og foreldrar sækjast í og eru til þess fallnar að auka almenna ánægju af íþróttaiðkun og fjölga iðkendum.


Námskeiðið er opið fyrir þjálfara og aðra sem koma að barna og unglingastarfi meðal aðildarfélaga UMSB, námskeiðið er þáttakendum að kostnaðarlausu en gott er að skrá sig með því að senda póst á palmi@umsb.is.
Námskeiðið verður haldið í félagsmiðstöðinni Óðal í Borgarnesi og hefst kl. 20 og lýkur um kl. 22.

 

Deildu þessari frétt