Íþróttamaður Borgarfjarðar
Bjarni Guðmann Jónsson, körfuknattleiksmaður og leikmaður Skallagríms, var í dag kjörinn íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2018 við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti. Rúmlega hundrað manns heiðruðu íþróttafólkið okkar með nærveru sinni.
Bjarni er einn af lykilleikmönnum í meistaraflokki Skallagríms í körfuknattleik. Hann átti stóran þátt í því að vinna liðinu sæti í úrvalsdeild síðastliðið vor og hefur stimplað sig inn sem einn efnilegasti körfuknattleiksmaður úr yngri flokki Skallagríms. Á árinu var Bjarni valinn til að leika með U 20 ára landsliði Íslands en liðið spilaði í A deild Evrópumóts í Þýskalandi.
Óhætt er að segja að kjörið hafi verið spennandi þar sem afar litlu munaði á fyrsta og öðru sæti. Alls voru tólf íþróttamenn tilnefndir og eru önnur úrslit sem hér segir:
2. sæti Bjarki Pétursson fyrir golf
3. sæti Sigrún Ámundadóttir fyrir körfuknattleik
4. sæti Brynjar Snær Pálsson fyrir knattspyrnu
5. sæti Helgi Guðjónsson fyrir knattspyrnu
Aðrir tilnefndir eru í stafrósröð:
Alexandrea Rán Guðnýjardóttir fyrir kraftlyftingar
Anton Elí Einarsson fyrir golf
Björg H. Kristófersdóttir fyrir sund
Davíð Guðmundsson fyrir körfuknattleik
Guðmunda Ólöf Jónasdóttir fyrir sund
Randi Holaker fyrir hestaíþróttir
Sigursteinn Ásgeirsson fyrir frjálsar íþróttir
Kjörgengir eru íþróttamenn 14 ára og eldri sem hafa stundað íþrótt sína með aðildarfélagi UMSB eða átt lögheimili á sambandssvæði UMSB það ár sem kjörið nær til.
Ánægjulegt er hversu vel er talað um íþróttamennina okkar innan vallar sem utan. Mikilvægt er að þeir hafi keppnisskap og vilji stöðugt bæta sig sem íþróttamenn en eigi síður er brýnt að þeir sýni kurteisi, liðsheild og jákvæðni. Að þessu leyti eru íþróttamenn okkar í sérflokki og þar með einstaklega góðar fyrirmyndir.
Nokkur aðildarfélög UMSB veittu jafnframt íþróttafólki sínu viðurkenningar og verðlaun við sama tækifæri en nánar verður gert grein fyrir því í sérfrétt.
UMSB óskar öllum verðlaunahöfum og tilnefndum íþróttamönnum til hamingju með þær viðurkenningar sem þau hafa hlotið fyrir afrek sín á sviði íþrótta á árinu 2018. Við óskum þeim jafnframt áframhaldandi velgengni um ókomna framtíð og hlökkum til að fylgjast með þeim hér eftir sem hingað til.
Deildu þessari frétt