Mikilvægt og spennandi verkefni framundan fyrir grasrótina

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur samið um tilfærslu verkefna til Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Í samningnum felst að UMSB tekur að sér ýmis verkefni fyrir UMFÍ á sviði forvarna- og lýðheilsumála. Samningurinn er nýstárlegur og er hann liður í því að styrkja íþróttahéruð landsins.

Samningurinn kveður á um að Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB, sinni vinnunni fyrir UMFÍ meðfram störfum sínum fyrir UMSB. Sigurður er fjög­urra barna fjölskyldufaðir búsettur á Hvann­eyri. Hann þekkir hvern krók og kima innan UMFÍ enda af mik­illi ung­menna­fé­lags­fjöl­skyldu sem hef­ur um ára­bili verið virk í starfi hreyf­ing­ar­inn­ar, svo sem á Ung­linga­lands­mótum og Landsmótum UMFÍ 50+.

Sigurður er með B.Sc. gráðu í íþrótta-, kennslu- og lýðheilsu­fræðum frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Þá hef­ur hann einnig menntað sig í leiðtoga- og frum­kvöðla­fræðum og al­menn­um íþrótt­um auk þess að hafa sveins­próf í húsa­smíði. Sigurður hefur unnið hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), öðrum sambandsaðila UMFÍ og komið þar m.a. að skipulagningu Reykjavíkurmaraþon. Auk þess hefur hann verið tómstunda­full­trúi Borg­ar­byggðar fyr­ir hönd UMSB og setið í Æskulýðsráði ríkisins og vann þar m.a. að stefnumótun æskulýðsfélaga á Íslandi. Sigurður var jafnframt um skeið formaður Ungmennafélagsins Íslendings, sem rekur m.a. Hreppslaug í Skorradal.

Sigurður vann hjá UMFÍ árin 2008 til 2014 og sá þá um námskeið og fræðslu, svo sem Sýndu hvað í þér býr, sem hann fór með um allt land, var verkefnastjóri Landsmóts UMFÍ 50+ og fleira.

 

Ánægð með aukið samstarf við sambandsaðila

„Ég er mjög ánægð með samninginn og mögulega þróun hans. Þetta er ný vegferð, sem felst í því að auka vægi tiltekinna verkefna UMFÍ hjá sambandsaðilum. Þetta teljum við hjá UMFÍ og UMSB að muni styrkja sambandið. Slík færsla verkefna yfir til íþróttahéraða mun án nokkurs vafa aukast í framtíðinni og styrkja bæði ungmennafélagshreyfinguna, íþróttafélögin og grasrótina um allt land,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Sigurður tekur í sama streng:

„Mér lýst afar vel á þetta fyrirkomulag enda gagnast það bæði UMSB og UMFÍ. UMSB er í þeirri stöðu að geta mynda svigrúm til að sinna verkefnum UMFÍ. Þetta er kjörið tækifæri og bæði eykur og styrkir samstarf UMFÍ og USMB. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni muni fleiri  íþróttahéruð taka að sér aukin verkefni fyrir íþróttahreyfinguna með sambærilegum hætti.“

Deildu þessari frétt