Sambandsþing UMSB

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Laugardaginn 11.mars sl. var 95.sambandsþing UMSB, og var það haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi að þessu sinni. Dagskrá þingsins var hefðbundin samkvæmt lögum sambandsins og fengum við góða gesti í tilefni þingsins, en Gunnlaugur Júlíusson sveitarstjóri Borgarbyggðar færði kveðjur frá ÍSÍ en hann situr í stjórn ÍSÍ og Guðmundur Sigurbergsson færði kveðju UMFÍ ásamt því að hann veitti Írisi Grönfeldt starfsmerki UMFÍ fyrir störf hennar í þágu ungmenna og íþróttastarfs í gegnum árin. Sólrún Halla sambandsstjóri UMSB færði Rósu Marinósdóttur viðurkenningu sambandsins, en hún vann flestar vinnustundir allra sjálfboðaliða í tenglsum við undirbúning og framkvæmd Unglingalandsmótsins sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina 2016. Það var mjög viðeigandi þegar heiðra átti Rósu fyrir sjálfboðaliðastörf að hún var fjarverandi við sjálfboðaliðastörf í þágu kvenfélags sem var að sjá um kaffiveitingar fyrir sjálfboðaliða í Björgunarsveitinni Ok svo dóttir hennar tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd, en auðvitað fór Sólrún Halla sambandsstjóri síðar um daginn og óskaði Rósu til hamingju og fékk mynd  

Íris Grönfeldt sem situr í stjórn afreksmannasjóðs UMSB tilkynnti um styrkveitingar úr sjóðnum fyrir afrek ársins 2016. Það voru 6 íþróttamenn sem hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni en það eru; Bjarki Pétursson golfari, Birgitta Dröfn Björnsdóttir og Daði Freyr Guðjónsson dansarar, Bjarni Guðmann Jónsson og Sigurður Aron Þorsteinsson körfuboltamenn og Ingibjörg Rósa Jónsdóttir badmintonkona.

Þingstörf gengu vel og Guðmundur Sigurðsson og Kristján Gíslason þingforsetar stýrðu þinghaldinu af miklum myndarskap. Fram kom á þinginu að fjárhagslegur rekstur UMSB gekk vel á árinu 2016 og skilaði hagnaði, en það má að mestu leyti rekja til hækkunar á lottótekjum frá fyrra ári og afgangi frá framkvæmd Unglingalandsmótsins. Mikil samstaða var um þær tillögur sem afgreiddar voru á þinginu og fundarmenn almennt sáttir með gott þing. Í lok þingsins var kosið um laus embætti í stjórn og var Sólrún Halla kjörin sambandsstjóri til eins árs, Kristín Gunnarsdóttir var kjörin ritari til tveggja ára og er hún að koma aftur í stjórn UMSB eftir stutta fjarveru, Þórður Sigurðsson var kjörinn vararitari til tveggja ára, Anna Dís Þórarinsdóttir var kjörin meðstjórnandi til tveggja ára og Þórhildur María Kristinsdóttir var kjörin varameðstjórnandi til tveggja ára. Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir til eins árs og það voru þeir Eiríkur Ólafsson og Guðbrandur Brynjúlfsson og Einar Ole Pedersen til vara. Nokkrar myndir frá þinginu eru í myndaalbúminu.

 

Deildu þessari frétt