Samningur undirritaður milli UMSB og Skorradalshrepps

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Nú í dag var undirritaður samstarfssamningur milli UMSB og Skorradalshrepps sem ætlað er að jafna stöðu íbúa á starfssvæði UMSB.

Eins og kunnugt er þá nær starfssvæði UMSB yfir þrjú sveitarfélög; Borgarbyggð, Skorradalshrepp og Hvalfjarðarsveit. Árið 2013 var undirritaður samningur við Borgarbyggð um aðkomu UMSB að íþróttamálum og ýmsum verkefnum þeim tengdum í sveitarfélaginu og nú er búið að ganga frá sambærilegum samningi við Skorradalshrepp. Samningi þessum er fyrst og fremst ætlað að jafna stöðu allra íbúa á starfssvæði UMSB, en mikilvægt er að allir íbúar á starfssvæðinu eigi jafna möguleika á að nýta sér þjónustu UMSB, eins og t.d. að sækja styrki í afreksmannasjóð UMSB og séu gjaldgengir í kjöri á íþróttamanni Borgarfjarðar. Nauðsynlegt er að hlutverk UMSB gagnvart sveitarfélögunum á starfssvæðinu sé skýrt og vel skilgreint og eins hlutverk sveitarfélaganna gagnvart UMSB, en það er einmitt eitt af stefnumálum UMSB að þessi hlutverk séu skrifleg og skýr í samningi milli aðila.

Á myndinni má sjá Pálma Blængsson framkvæmdastjóra UMSB og Árna Hjörleifsson Oddvita Skorradalshrepps handsala samninginn.

Deildu þessari frétt