Takk fyrir okkur!

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Um verslunarmannahelgina fór fram Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi og voru það UMSB og aðildarfélög þess ásamt Borgarbyggð sem voru mótshaldarar. Talsverður undirbúningur er á bakvið viðburð af þessari stærðargráðu þar sem tæplega 1500 keppendur mæta til leiks og 10-15 þúsund gestir heimsækja Borgarbyggð á einni helgi. Frá byrjun árs 2016 hefur verið starfandi Unglingalandsmótsnefnd sem skipuð er fulltrúum úr stjórn UMSB, stjórn UMFÍ ásamt starfsmörnnum og íbúum Borgarbyggðar. Hlutverk nefndarinnar er að undirbúa og skipuleggja viðburðinn og sjá til þess að keppnisgreinar, afþreying og allur aðbúnaður sé eins og best verður á kosið. Einnig hafa starfsmenn áhaldahúss Borgarbyggðar og nemendur vinnuskólans unnið frábært starf í sumar við að koma bænum í „sparifötin“ og getum við öll verið stolt af bænum okkar sem heillaði gesti alla helgina.

Mótið hófst á fimmtudegi með keppni í golfi og körfubolta, þegar leið á helgina bættust fleiri greinar við en alls var keppt í 14 greinum frá fimmtudegi til sunnudags. Tókst mótahaldið mjög vel og voru margir að bæta árangur sinn verulega. Sett voru tvö íslandsmet í frjálsum, í hástökki stúlkna 13 ára og í boðhlaupi stúlkna 16-17 ára. Fjöldi landsmótsmeta voru sleginn og ungur kylfingur náði draumahögginu og fór holu í höggi á 14.braut á Hamarsvelli.

Fjölbreytt afþreying var fyrir alla aldurshópa frá fimmtudegi fram á sunnudagskvöld og má þar m.a. nefna kvöldvökur öll kvöldin þar sem fram komu nokkrir af vinsælustu tónlistarmönnum Íslands í dag, en þar má t.d. nefna; Friðrik Dór, Úlfur Úlfur, Dikta, Amabadama o.fl.. Hoppukastalar voru bæði á tjaldstæðinu og í Skallagrímsgarði, boðið var uppá kennslu í „street“ fótbolta, fótboltakeppni var fyrir yngstu gestina, kvikmyndasýningar, andlitsmálning o.fl.. En það var almennt mikil ánægja gesta með fjölbreytt úrval afþreyingar fyrir alla aldurshópa og fengum við mikið hrós fyrir.

Umgengni gesta var til fyrirmyndar og þó veðrið hafi verið gott frá fyrsta degi mótsins þá batnaði það með hverjum deginum sem leið og á sunnudeginum var komið glampandi sólskin, logn og bros á hverju andliti.

Mótið tókst einfaldlega frábærlega og er það ekki síst að þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem stóðu vaktina með sóma, íbúum Borgarbyggðar sem tóku á móti gestum með bros á vör og öllum þeim keppendum og gestum sem tóku þátt í mótinu og þeirri afþreyingu sem var í boði.

Takk fyrir hjálpina íbúar Borgarbyggðar og sjálfboðaliðar, og takk fyrir komuna góðir gestir og keppendur!

Sjáumst á næsta Unglingalandsmóti í Fljótsdalshéraði 2017!

 

F.h. Stjórnar UMSB

Pálmi Blængsson, framkvæmdastjóri.

Deildu þessari frétt