Vel heppnað sambandsþing UMSB

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Laugardaginn 7.mars sl. fór fram sambandsþing UMSB í félagsheimilinu Logalandi. Ágæt mæting var á þingið og mættu 30 fulltrúar frá aðildarfélögum UMSB auk góðra gesta frá UMFÍ og ÍSÍ, en það voru þeir Gunnar Gunnarsson frá UMFÍ og Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ sem ávörpuðu þingið og fluttu góðar kveðjur frá sínum félögum. Auk þess kom Hrönn Jónsdóttir úr stjórn UMFÍ á þingið og sæmdi Stefán Loga Haraldsson formann Hestamannafélagsins Skugga starfsmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Ekki urðu miklar breytingar á stjórn UMSB á þinginu, en Sigurður Guðmundsson sambandsstjóri var kjörinn áfram í eitt ár og aðrir í stjórn eru:

Kristín Gunnarsdóttir gjaldkeri, Sólrún Halla Bjarnadóttir ritari, Ásgeir Ásgeirsson varasambandsstjóri, Þórhildur María Kristinsdóttir meðstjórnandi, Jón Eiríkur Einarsson vara varasambandsstjóri, Aðalsteinn Símonarson vararitari, Þórdís Þórisdóttir varagjaldkeri og Anna Dís Þórarinsdóttir varameðstjórnandi.

Þingstörf gengu vel og voru fundarmenn almennt jákvæðir með uppgjör ársins 2014 og bjartsýnir á framhaldið. Ánægja var með góða fjárhagsstöðu UMSB, en unnið hefur verið markvisst í þeim málum undanfarin ár. Auk þess var gaman að sjá hversu vel hefur gengið að ná flestum þeim markmiðum sem sett voru við gerð stefnu UMSB sem samþykkt var á sambandsþingi 2013 og samþykkt var að setja niður ný markmið fyrir UMSB á árinu 2015 og kynna á formannafundi í haust.

Deildu þessari frétt