UMFÍ óskar eftir tilnefningum frá sambandsaðilum UMFÍ í Ungmennaráð UMFÍ fyrir starfstímabilið 2023 – 2025.
Ungmennaráð UMFÍ er skipað ellefu ungmennum á aldrinum 16 – 25 ára og er þar miðað við jafna aldursdreifingu, kyn og búsetu. Hlutverk Ungmennaráðs UMFÍ er að vera stjórn UMFÍ til ráðgjafar um málefni ungs fólks og skipuleggja og standa fyrir viðburðum fyrir ungt fólk á hverju ári. Fundir ráðsins eru að öllu jafna haldnir á 4 – 6 vikna fresti ýmist með fjarfundarbúnaði og/eða sem staðfundir.
Þátttaka í ungmennaráði UMFÍ veitir einstaklingum tækifæri til þess að kynnast starfi UMFÍ og ungmennafélagshreyfingarinnar. Þátttakendur kynnast ungmennum alls staðar af landinu, fá tækifæri til þess að vinna að viðburðum frá hugmyndastigi til framkvæmdar og hafa áhrif á aðra í sínu nærumhverfi. Dæmi um verkefni ungmennaráðsins sem eru framundan er viðburðurinn samtal ungmennaráða, þar sem ungmennum alls staðar af landinu verður boðið í samtal um starf og starfsemi ólíkra ungmennaráða. Auk þess er það ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðheilsa þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að koma saman og ræða heitustu mál dagsins bæði við jafningja og ráðamenn. Á meðal fleiri verkefna er gerð myndbands um kosti þess að taka þátt í félagsstarfi, kynningar á óhefðbundnum íþróttagreinum og margt fleira.
UMFÍ leitar að ungmennum sem hafa tekið virkan þátt í starfi íþróttahéraðs eða innan félags og/eða hafa áhuga á að láta gott af sér leiða og smita gleði út frá sér.
Umsóknarfrestur er til 15. desember nk. Smellið á hlekkinn til þess að senda inn umsókn.
Hlekkur:
https://forms.gle/kugNAVp5fCuSKvmn7
Deildu þessari frétt