102. sambandsþing UMSB haldið á Hvanneyri þann 13. mars sl.

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

102. sambandsþing UMSB var haldið á Hvanneyri þann 13. mars sl. Var mjög góð mæting og góð vinna sem fór fram.

Þingforsetar voru Kristján Gíslason og Flemming Jessen, og ritarar þingsins þær Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir og Sigurbjörg Þórunn Marteinsdóttir.

Neðst í fréttinni má finna svipmyndir af þinginu sem Gunnhildur Lind Hansdóttir ljósmyndari á heiðurinn af, þökkum við henni fyrir afar góða vinnu og ánægjulegt samstarf.

Tillögur og reglugerðarbreytingar

Stærsta málið að þessu sinni snéri að úthlutunarreglum lottótekna, en lagðar voru til breytingar á úthlutunarreglum UMSB sem taka mið af úthlutunarreglum UMFÍ og ÍSÍ sem taka gildi núna 1. apríl. Þeirra reglur munu eingöngu taka tillit til íbúa 18 ára og yngri á hverju svæði fyrir sig og mun útbreiðslustyrkur ÍSÍ detta út að auki. Í reglugerð UMSB voru þær breytingar gerðar að minna hlutfall mun renna til UMSB en úthlutunarreglur sambandsins til aðildarfélaga mun að stærstum hluta taka mið af iðkendum 18 ára og yngri.

Töluverð umræða skapaðist um þetta enda mun þetta hafa þau áhrif að heildarinnkoma lottótekna til UMSB verður töluvert minni auk þess sem þau aðildarfélög sem ekki halda úti íþróttastarfi munu verða af nánast öllum lottótekjum. Miklar og málefnalegar umræður áttu sér stað og var tillagan að lokum samþykkt samhljóða en ákveðið að hún yrði tekin til endurskoðunar á næsta þingi þar sem enn er óljóst hvaða áhrif þessar breyttu úthlutunarreglur UMFÍ og ÍSÍ koma til með að hafa á sambandið.

Einnig var brýnt fyrir þeim aðildarfélögum sem munu verða af stærstum hluta sinna tekna með þessari breytingu að vera dugleg að sækja um í þá sjóði sem í boði eru hjá UMFÍ, eins og Fræðslu- og verkefnasjóð og Umhverfissjóð. Hægt er að hafa samband við skrifstofu UMSB og fá nánari upplýsingar um þá sjóði sem í boði eru.

Aðrar reglugerðarbreytingar urðu þær að kjörgengi íþróttafólks fyrir kjör íþróttamanneskju ársins var hækkað í 16 ár, í stað 14 áður enda gengur það gegn markmiðum íþróttahreyfingarinnar að afreksvæða börn.

Eins og fyrr segir voru töluvert margar tillögur til umfjöllunar á þinginu og á nefndarfólk hrós skilið fyrir vel unnin störf.

Samþykktar voru samhljóða tvær tillögur er snúa að áskorun á Borgarbyggð. Fyrri tillagan kom frá Ungmennafélagi Reykdæla varðandi endurskoðun ákvörðunar um að loka sundlauginni á Kleppjárnsreykjum fyrir almenningi. Hin tillagan var frá stjórn UMSB  og var  fyrir sveitarstjórn um að halda áfram samtalinu við Strætó bs. varðandi hækkun fargjalda, sem hafa komið mjög illa við íþróttaiðkendur í sveitarfélaginu.

Hlaupahópurinn Flandri sótti um og hlaut inngöngu í UMSB, með þeim fyrirvara að ÍSÍ samþykki umsóknina. Bjóðum við þau velkomin og hlökkum til að starfa með þeim.

 

Góðir gestir ávörpuðu þingið

Ómar Bragi Stefánsson framkvæmdastjóri móta UMFÍ flutti ávarp þar sem hann ræddi aðallega unglingalandsmótið sem fram fer í Borgarbyggð um verslunarmannahelgina í ár.

Þórey Edda Elísdóttir kom fyrir hönd ÍSÍ, flutti ávarp og sæmdi Oddnýju Evu Böðvarsdóttur silfurmerki ÍSÍ og Pál Snævar Brynjarsson gullmerki ÍSÍ fyrir þeirra ómetanlegu störf í þágu hreyfingarinnar, og þá sérstaklega knattspyrnudeildar Skallagríms.

Hallbera Eiríksdóttir, fulltrúi UMSB í stjórn UMFÍ, kom fyrir hönd UMFÍ. Flutti hún ávarp og veitti heiðursviðurkenningar, Guðrún Hildur Þórðardóttir, sambandsstjóri UMSB, hlaut starfsmerki UMFÍ og þeir Ingvi Árnason og Kristján Gíslason hlutu gullmerki UMFÍ.

Óskum við þeim öllum innilega til hamingju og þökkum enn og aftur fyrir þeirra mikilvægu og óeigingjörnu störf í þágu hreyfingarinnar.

 

Úhlutun úr Afrekssjóði UMSB

Stjórn sjóðsins er skipuð þeim Rósu Marinósdóttur, Írisi Grönfeldt og Páli Brynjarssyni og sá stjórn sjóðsins alfarið um yfirferð umsókna og úthlutun úr sjóðnum

Sex umsóknir bárust og voru þær allar samþykktar.

Þau sem fengu úthlutað úr sjóðnum í ár voru:

Bjarki Pétursson hlaut 300.000 krónur fyrir afrek sin í golfi.

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir hlaut 150.000 krónur fyrir afrek sín í sundi.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir hlaut 150.000 krónur fyrir afrek sín í frjálsum íþróttum.

Jón Árni Gylfason hlaut 50.000 krónur fyrir afrek sín í körfuknattleik.

Kristín Þórhallsdóttir hlaut 300.000 krónur fyrir afrek sín í kraftlyftingum.

Valborg Elva Bragadóttir hlaut 50.000 krónur fyrir afrek sín í körfuknattleik.

Óskum við þeim innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi afrekum þeirra.

 

Nýtt stjórnarfólk kjörið

Að lokum var stjórnarkjör. Guðrún Hildur Þórðardóttir gaf áframhaldandi kost á sér sem sambandsstjóri en sambandsstjóri er kjörinn til eins árs í senn.

Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir er áfram á sínu seinna ári sem ritari.

Ólafur Daði Birgisson varasambandsstjóri, Sölvi G Gylfason gjaldkeri og Elisabeth Ýr Mosbech Egilsdóttir meðstjórnandi stigu út úr stjórn og í þeirra stað koma inn Sigurbjörg Þórunn Marteinsdóttir sem varasambandsstjóri, Svala Svavarsdóttir sem gjaldkeri og Kristján Jóhannes Pétursson sem meðstjórnandi.

Við þökkum Ólafi Daða, Sölva og Elisabeth Ýr kærlega fyrir ánægjulegt samstarf og bjóðum þau Sigurbjörgu Þórunni, Svölu og Kristján Jóhannes hjartanlega velkomin til starfa.

Þinggerð kemur inn á heimasíðuna á næstu dögum en ársskýrsla og ársreikningur UMSB, ásamt ársskýrslum aðildarfélaga er aðgengilegt á heimasíðu UMSB, undir flipanum „skjöl“.

Hér má sjá myndir frá þinginu:

 

 

 

Deildu þessari frétt