Fréttabréf UMFÍ

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Fundur fólksins er lýðræðishátíð þriðja geirans þar sem ætlunin er að skapa traust og skilning í samfélaginu.   

Fundur fólksins – lýðræðishátíð á vegum þriðja geirans – fer fram dagana 16. – 17. september 2022 í Norræna húsinu og Grósku í Reykjavík.

Tilgangur fundarins er að skapa vandaðan vettvang þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálafólks og frjálsra félagasamtaka, þar sem lýðræði og opin skoðanaskipti eru leiðarstefið.

Markmið fundarins er að skapa meira traust og skilning milli ólíkra aðila samfélagsins án þess að vera föst í venjubundnum umræðufarvegi stjórnmála og fjölmiðla. Lýðræðishátíðin gefur ungu fólki aukna möguleika á lýðræðislegri þátttöku með samræðum við ólíka aðila, s.s. stjórnmálaflokka, stofnanir, frjáls félagasamtök og aðra sem þau velja til þátttöku. Þannig getur hátíðin verið vettvangur sem skapar möguleika á skoðanaskiptum, skoðanamyndunum, nýrri þekkingu og áhuga á nýjum viðfangsefnum. Með þessum hætti er leitast við að ungt fólk geti haft áhrif á opinbera umræðu og ekki hvað síst stjórnmálaumræðu og stefnu.

Skráning viðburða fer fram á www.fundurfolksins.is og lýkur 30. september. Hér má sjá dagskrá Fundar fólksins.

 

Saman lyftum við grettistaki

Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði fór fram á Laugarvatni um síðustu helgi. Ráðstefnan tókst  afar vel og voru gestir glaðir.   

„Þótt mannkynið hafi tekið risastökk í tækniframförum í COVID-faraldrinum þá sýndi hann okkur líka að við áorkum minna ein. Ekkert verður til af sjálfu sér og flest allt verður til með samstarfi og samvinnu,‟ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Hann setti ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem fram fer í húsnæði gamla Héraðsskólans á Laugarvatni um helgina. Nokkrir tugir ungs fólks frá 16 – 26 ára af öllu landinu er samankominn á ráðstefnunni, sem ber yfirskriftina: Láttu drauminn rætast! Embla Líf Hallsdóttir, formaður Ungmennaráðsins, tók við af Jóhanni og bauð þátttakendur velkomna.

Jóhanni var tíðrætt um árangurinn sem fólk getur náð þegar það snýr bökum saman. Þá sé hægt að lyfta grettistaki.

Ráðstefnan tókst afar vel. M.a. hlustu þátttakendur á uppbyggileg erindi Önnu Steinsen frá KVAN, Bjarts Guðmundssonar leikara frá Optimized Performance og ræddi við stjórnmálafólk, forystufólk í atvinnulífinu, áhrifavalda og fleiri.

Allar myndir frá ráðstefnunni má sjá á myndasíðu UMFÍ.

 

Ráðstefna um íþróttirnar árið 2023

Alþjóðlega ráðstefnan Íþróttir 2023 / Sport 2023 fer fram dagana 1. – 2. febrúar 2023 í tengslum við Reykjavíkurleikana (RIG)

Helstu erlendu og innlendu sérfræðingar heims um þjálfun afreksíþróttafólks, íþróttir barna og ungmenna, og stjórnun íþróttafélaga verða með erindi og vinnustofur á þessari alþjóðlegu ráðstefnun sem íþróttahreyfingin stendur fyrir.

Á meðal þess sem pælt verður í er hvernig hægt er að efla foreldrastarf hjá íþróttafélögum, hvernig heilsa barna er í íþróttum, hvernig samfélagsleg þátttaka er virkjuð, aðferðir til að vinna úr kvíða og margt fleira.

Að ráðstefnunni koma ÍSÍ, ÍBR, Háskólinn í Reykjavík, UMFÍ og Reykjavíkurleikarnir (RIG).

Athugið að ráðstefnan verður á ensku.

Frekari upplýsingar eru á vefsíðu ráðstefnunnar og á Facebook viðburði ráðstefnunnar.

Skráðu þig hér!

Ertu á leið í lýðháskóla?

UMFÍ hefur lengi veitt ungu fólki stuðning til náms í lýðháskóla í Danmörku. Þetta er tækifæri sem fólk býr að alla ævina.  

UMFÍ hefur undanfarin ár veitt ungu fólki styrki vegna náms við lýðháskóla í Danmörku. Og nú er komið að því aftur. Fyrir veturinn 2022 – 2023 er engin breyting á. Skólaárið er að skella á og farið að styttast í að sækja um styrk vegna námsins.

Markmið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki tækifæri til að víkka út sjóndeildarhring sinn, kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogahæfileika sína um leið.

Meira um styrki UMFÍ til náms í lýðháskólum

 

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ styrkir félags- og íþróttastarf íþrótta og ungmennafélaga um allt land.   

Ertu með verkefni á teikniborðinu eða þarftu að fjármagna eitthvað gott sem bætir starfið hjá félaginu eða deildinni? Nú geturðu farið að leggja heilann í bleyti. UMFÍ opnar fyrir umsóknir í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ 30. september næstkomandi. Hægt verður að senda inn umsóknir til 1. nóvember.

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ hefur þann tilgang að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi. UMFÍ hvetur sérstaklega til þess að sótt verði um styrki vegna verkefna í samræmi við stefnu UMFÍ, ungt fólk, jaðarhópa og eldri aldurshópa.

Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar í ungmennafélögum sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afla sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem talið er að geti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmennafélagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.

Fylgstu með á www.umfi.is

Sjá nánar um sjóði UMFÍ hér

Deildu þessari frétt