Ingimundur fagnaði 80 ára afmæli

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Borgnesingurinn og íþróttakennarinn Ingimundur Ingimundarson fagnaði 80 ára afmæli á laugardaginn með vinum og vandafólki. Afmælisveislan var haldin í sal hjá Breiðabliki í Kópavogi. Margt var um gesti og fólk sem staðið hefur í framlínu íþrótta. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, kom í afmælið, flutti stutta tölu um störf og árangur Ingimundar í íþróttalífi gegnum tíðina og afhenti honum áritaðan skjöld í tilefni dagsins.

Ingimundur hefur komið að starfi íþróttahreyfingarinnar um langt árabil, bæði á svæði Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA), sem þjálfari í frjálsum íþróttum, sundi og boccia og sem framkvæmdastjóri UMSB svo fátt eitt sé nefnt. Hann var líka formaður framkvæmdanefndar Landsmóts UMFÍ í Borgarnesi 1997 og síðar framkvæmdastjóri Landsmóts á Egilsstöðum 2001 auk þess að vinna mikið síðustu ár að kynningu og útbreiðslu íþrótta eldri borgara.

UMSB óskar Ingimundi innilega til hamingju með stórafmælið og þakkar fyrir ómetanlegt framlag hans í þágu íþróttastarfs í héraðinu, sem og samfélagsins alls, í gegnum tíðina.

 

Mynd og texti fengið frá UMFÍ

Deildu þessari frétt