„Það er mikil tilhlökkun meðal okkar í Borgarbyggð að taka á móti íþróttafólki og gestum á Unglingalandsmót 2024. Það er löng hefð fyrir því að íþróttafólk skíni skært í sumarsólinn í Borgarfirðinum. Framundan er heilmikil undirbúningsvinna sem unnin verður í góðu samstarfi UMSB, UMFÍ, Borgarbyggðar og fjölmargra sjálfboðaliða. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í Borgarbyggð í sumar“ sagði Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri Borgarbyggðar þegar samningur á milli UMSB, UMFÍ og Borgarbyggðar var undirritaður í vikunni.
Guðrún Hildur Þórðardóttir, sambandsstjóri UMSB, sagðist vera orðin mjög spennt fyrir unglingalandsmótinu. Haldnir voru fundir með framkvæmdanefnd og sérgreinastjórum fyrr um daginn og er hvoru tveggja virkilega vel mannað, enda býr UMSB yfir öflugum sjálfboðaliðum sem hafa mikla reynslu af mótahaldi.
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ: „Það er alltaf gaman að koma og skrifa undir samning um framkvæmd Unglingalandsmóts UMFÍ. Mótið skipar stóran sess í huga ungmennafélagshreyfingarinnar þar sem forvarnir og gleði eru í forgrunni. Framundan eru mörg handtök en með samvinnu öflugs hóps fólks frá UMSB, Borgarbyggð og UMFÍ bind ég miklar vonir við að uppskeran verði eins og sáð verður til og fjölskyldur eiga enn eina mögnuðu samveruna á íþróttahátíð í Borgarnesi.“ Sagði Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, að lokum.
Á myndinni má sjá Jóhann Steinar, Guðrúnu Hildi og Stefán Brodda undirrita samninginn.
Nánari upplýsingar um mótið má finna hér:
Unglingalandsmót – Ungmennafélag Íslands (umfi.is)
Deildu þessari frétt