Sambandsþing UMFÍ um síðustu helgi

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Helgina 17.-18. október var sambandsþing UMFÍ í Vík í Mýrdal. Þar átti UMSB 5 þingfulltrúa og voru það fulltrúar úr stjórn og framkvæmdastjóri sem fóru og tóku virkan þátt í þinginu. Á þinginu var kjörinn nýr formaður UMFÍ, en það var Haukur Valtýsson frá Akureyri sem tekur nú við formennsku af Helgu Guðrúnu Guðjónsdóttur sem gegnt hefur formennsku sl. átta ár. Við bjóðum Hauk velkominn til starfa og þökkum Helgu fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum. Hrönn Jónsdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóri UMSB hlaut góða kosningu til áframhaldandi setu í stjórn UMFÍ, en hún hefur setið í stjórn sl. tvö ár. Auk Hrannar voru kjörin í stjórn; Örn Guðnason, Ragnheiður Högnadóttir, Helga Jóhannesdóttir, Gunnar Gunnarsson og Björn Grétar Baldursson. Þess má svo geta að gjaldkeri UMSB Kristín Gunnarsdóttir frá Lundi var kjörin "Matmaður þingsins".  Hefð er fyrir því síðan 1979 að kjörinn er matmaður þingsins, en við valið er m.a. horft til framgöngu í matar og kaffitímum þingsins, beytingu hnífapara, stíls, borðsiða o.fl.

Á myndinn má sjá Kristínu þakka starfsfólki eldhússins fyrir matinn sem borinn var fram á þinginu.

Deildu þessari frétt