Sundsprengja í Borgarnesi!

Ungmennasamband Borgarfjarðar Sund, UMSB

Í sumar hófst formlegt starf sunddeildar Skallagríms að nýju eftir stutt hlé. Mikill áhugi blossaði upp meðal almennings sl. vetur, þegar UMSB bauð upp á skriðsundssnámskeið fyrir fullorðna í samstarfi við sunddeild Skallagríms. Það er skemmst frá því að segja í kjölfarið hafa verið haldin fleiri skriðsundsnámskeið og nú í haust hófust reglulegar garpaæfingar undir merkjum Skallagríms. Að sögn Heiðrúnar Bjarnadóttur, formanns sunddeildarinnar, kom áhuginn gríðarlega á óvart og ekki annað hægt en að reyna að bregðast við eftirspurninni: ,,Við erum ótrúlega ánægð með þátttökuna en við náðum að fylla enn eitt skriðsundsnámskeiðið og 16 manns eru auk þess skráðir á garpaæfingarnar í vetur”.

Sundgarparnir æfa einu sinni í viku með þjálfara og hittast svo einu sinni á sameiginlegri æfingu án þjálfara en með æfingu til að synda eftir. Nokkrir garpar synda svo oftar í viku, eða stunda jafnvel aðra líkamsrækt með.

Engin lýsing til

Engin lýsing til

Engin lýsing til

 

Íslandsmeistaramót og Norðurlandameistaramót

Sum sem stunda æfingarnar hafa auk þess áhuga á því að keppa. Nokkur úr garpahópnum kepptu t.d. á Íslandsmeistaramóti garpa sem fram fór í Kópavogi í maí sl. og náðu þar góðum árangri. Um nýliðna helgi fór svo fram Norðurlandameistaramót garpa í Bellahöj í Kaupmannahöfn og átti sunddeild Skallagríms fulltrúa á mótinu. Guðmunda Ólöf Jónasdóttir keppti í 50 og 100 metra skriðsundi og 50 metra baksundi. Hún nældi sér í bronsverðlaun í 50 metra skriðsundi, sem er frábær árangur, en ekki hefur verið haldið stærra garpamót á Norðurlöndunum til þessa. Á heimasíðu Sundsambands Íslands kemur fram að íslenski hópurinn átti góðu gengi að fagna í lauginni og nældi sér í 19 norðurlandameistaratitla og samtals 65 verðlaun á mótinu, en hópurinn samanstóð af 31 einstaklingi frá 5 félagsliðum, á aldrinum 25-79 ára.

 

Engin lýsing til

Engin lýsing til

Framundan

Sund er holl, alhliða hreyfing og ekki spillir félagsskapurinn fyrir. Að sögn Heiðrúnar, er stefnt að sameiginlegri æfingu með sundgörpunum á Akranesi síðar í október en það verður æfing með skemmtanagildi í fyrirrúmi. Á nýju ári mun sundhópurinn skipuleggja æfingahelgi, fjölmenna á Íslandsmót garpa og draumurinn er að senda fjölmennt lið á Norðurlandameistaramótið 2024 sem haldið verður í Malmö í Svíþjóð í október.

Það er því mikið um að vera hjá sunddeildinnig og vill Heiðrún hvetja sem flest til að mæta á æfingar og taka þátt í þessu frábæra starfi hjá sunddeild Skallagríms.

Hægt er að fá nánari upplýsingar í gegnum netfangið sund@skallagrimur.is

Engin lýsing til

 

Engin lýsing til

Deildu þessari frétt