SÝNUM KARAKTER!

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

SÝNUM KARAKTER!

Berum öll ábyrgð á að gera gott starf enn betra!

 

Heiðarleiki, metnaður, samvinna og virðing eru gildi UMSB. Gildin segja til um grunn starfsemi UMSB og á hvaða sýn starf félagsins byggir. Við höfum gildin stöðugt að leiðarljósi í starfi okkar og leggjum áherslu á að aðildarfélögin geri slíkt hið sama.

Mikilvægt er að hafa gildin ávallt í huga og minna reglulega á þau.

En hvernig komum við gildum okkar áleiðis til þjálfara okkar, iðkenda, sjálfboðaliða, foreldra og annarra hagsmunaaðila? Þekkja allir gildin okkar? Vinna þjálfarar okkar eftir þeim? Það er ekki sjálfgefið og því er brýnt að staldra reglulega við, líta í eigin barm og athuga hvar hvert og eitt okkar stendur varðandi gildin okkar. Þannig tryggjum við að starf UMSB endurspegli í hvívetna þau gildi sem við viljum virða og hafa að leiðarljósi. Saman getum við meira og það er hvort tveggja í senn skemmtilegra og einfaldara að dansa í takt.  

UMSB kynnir með tilhlökkun og stolti þá ákvörðun að taka inn verkefnið „Sýnum karakter“ og nýta það til að vinna dýpra með gildin okkar og þjálfa sálræna og félagslega færni barna og ungmenna í íþróttum. Sterkir einstaklingar hafa sterka sjálfsmynd og góða samskiptafærni. Við viljum að börnin okkar kunni að sigra og tapa, kunni að halda áfram þótt á móti blási, kunni að hvetja og nota uppbyggileg orð, séu öguð, viti hvað felist í öflugri liðsheild, sýni öðrum virðingu og síðast en ekki síst líði vel í íþróttum. Við höfum óteljandi tækifæri til að innleiða góð gildi inn í íþróttastarfið okkar til hagsbóta fyrir börnin okkar og samfélagið allt. Þjálfarar, foreldrar, forráðamenn og sjálfboðaliðar

Á fræðslukvöldi UMSB sem var haldið þriðjudaginn 27. nóvember í Hjálmakletti var ,,Sýnum karakter“ formlega innleitt. Viðtökur fóru framar björtustu vonum þar sem fjöldi fólks sýndi verkefninu mikinn áhuga enda voru erindin mjög skemmtileg, áhugaverð og upplýsandi. Sabína Steinunn Halldórsdóttir, verkefnastjóri í UMFÍ, Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, Markús Máni frá Sportabler og Pálmar Ragnarsson voru með frábær erindi. Við hvetjum alla til þess að kynna sér verkefnið enn frekar á heimasíðu þess: https://www.synumkarakter.is/

Þjálfarar, foreldrar, forráðamenn, sjálfboðaliðar, iðkendur og aðrir hlutaðeigandi! Við berum öll ábyrgð á að íþróttastarf og samskipti fari fram á jákvæðan, skemmtilegan og uppbyggilegan hátt.

Höldum áfram að gera gott starf enn betra og höfum gaman af því!

Deildu þessari frétt