Unglingalandsmót UMFÍ 2024 – Í Borgarnesi

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Unglinglandsmót UMFÍ 2024 fer fram um verslunarmannahelgina í Borgarnesi.

Hvenær get ég skráð mig og hvað er skráningargjaldið?

Opnað verður fyrir skráningu 2. júlí og lýkur henni 29. júlí.

Skráningargjaldið 9.400 kr. Skráningahlekkur

UMSB niðurgreiðir skráningargjaldið fyrir keppendur á sínu sambandssvæði.

Athugið að öll ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag.

Eitthvað fyrir alla fjölskyldumeðlimi

Dagskrá Unglingalandsmótsins er afar fjölbreytt. Alls eru 18 keppnisgreinar í boði auk ýmisskonar afþreyingar og skemmtunar fyrir alla fjölskylduna. Hér má finna dagskrá keppnisgreina, afþreyingar og skemmtunar fyrir alla daga mótsins.

Boðið er upp á 18 keppnisgreinar á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi og því ættu flest að finna eitthvað við sitt hæfi.

Þetta eru greinarnar:

Badminton, bogfimi, borðtennis, frjálsar íþróttir, glíma, golf, grasblak, grashandbolti, hestaíþróttir, hjólreiðar, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, pílukast, skák, stafsetning, sund og upplestur.

Aðrar upplýsingar

Afþreying

Mótssvæðið verður iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Við segjum, Íþróttir á daginn og tónlist á kvöldin. Öll kvöldin verða tónlistarviðburðir þar sem okkar besta tónlistarfólk kemur fram. Fjöldi viðburða fyrir börn yngri en 10 ára verða í boði og allt ókeypis.

Tjaldsvæði

Tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna er innifalið í þátttökugjaldi mótsins. Svæðið er staðsett á Kárastöðum sem er rétt utan við Borgarnes. Þau sem óska eftir aðgengi að rafmagni á tjaldsvæði þurfa að ganga frá greiðslu fyrir því um leið og gengið er frá kaupum á þátttökugjaldi. Verð fyrir rafmagn er 4.900 kr. fram til 29. júli. Eftir þann tíma hækkar verð upp í 6.900 kr.

Tjaldsvæði mótsins er skipt upp í svæði eftir íþróttahéruðum. Þátttakendur á tjaldsvæði eru hvattir til þess að merkja við rétt nafn á íþróttahéraði svo mótshaldarar geti raðað tjaldsvæði upp eftir fjölda tjalda/hýsa frá hverju íþróttahéraði.

Á svæðinu verða snyrtingar, rennandi vatn, rafmagn og gæsla frá björgunarsveitum. Strætó mun ganga frá svæðinu að aðal keppnissvæðinu frá kl. 08:30 og fram yfir síðustu keppnisgrein.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Deildu þessari frétt