Verum stolt af krökkunum okkar.

Knattspyrna Knattspyrna, UMSB

Í Borgarbyggð er mjög mikill fjöldi barna sem æfir knattspyrnu hjá Skallagrími og eru flokkarnir fullir af krökkum sem hafa brennandi áhuga á íþróttinni.

Flest þessara barna stefna langt í íþróttinni og eiga sér stóra drauma þegar kemur að fótbolta. Mjög algengt markmið er komast í og spila með Íslenska landsliðinu þegar þau verða eldri.
Ég hef þann grun að á mörgum heimilinum hefur einhverntíman verið sagt við fótboltabarnið yfir landsleik, „ þarna verður þú einn daginn“ eða „ mikið væri nú gaman ef þú myndir komast í landsliðið“.

Að eiga sér markmið og stóra drauma er heilbrigt og gott.
Í knattspyrnunni eigum við frábærar fyrirmyndir og krakkarnir vilja verða eins og Sara Björk eða Jóhann Berg þegar þau verða stór.
Það má alveg minnast á það við krakkana hversu mikið þau tvö hafa þurft að leggja á sig til þess að ná svona langt.
Þannig getum við hvatt krakkana til þess að vera dugleg.
En við viljum að þau mæti á æfingar vegna þess að þau hafa áhuga á íþróttinni og finnist gaman í fótbolta.
Ég er nokkuð viss um að Söru og Jóa finnist þetta alltaf jafn skemmtilegt.

Það má aldrei taka gleðina úr leiknum!

Þegar komið er í 5.flokk verður maður var við hversu mikið krökkunum er farið að langa að láta ljós sitt skýna í fótboltanum og draumarnir orðnir ansi stórir.
Að setja sér markmið er nauðsynlegt, en það verður að vera tröppugangur í þeim.
Byrjum á að setja okkur lítil markmið og höfum landsliðið eða atvinnumennsku sem algjört loka markmið sem við ætlum ekki að hugsa um næstum því strax.

Dæmi um lítil markmið.

– Mæta á X margar æfingar á ári.
– Taka þátt á stóru krakkamóti.
– Skora mark á æfingu.
– Spila í Vestmannaeyjum.
– Skora mark í keppnisleik.
– Vinna keppnisleik.
– Tapa leik en vera ánægð með eigin frammistöðu.
– Aldrei gefast upp eða hætta.
– Gera aukaæfingar.

Bónus fyrir framtíðina.

– Komast á æfingu hjá meistaraflokk.
– Spila leik með meistaraflokk.
– Spila í efstu deild á Íslandi.

Aðalatriðið þegar markmiðin eru gerð upp eftir mörg ár, er að átta sig á hversu frábært ferðalagið var!
Allar þessar frábæru stundir sem einstaklingurinn upplifði á meðan hann æfði fótbolta, allir vinirnir sem hann eignaðist og allt sem hann lærði, bæði þegar vel og illa gekk.

Krakkar gleyma því stundum að fótbolti á að vera og er skemmtilegur!

 

Ég á tvær dætur sem æfa fótbolta.
Eldri dóttir mín er 10 ára gömul, æfir í 5.flokk og hefur ótrúlega mikinn áhuga á fótbolta.

Kvennalandsliðið okkar er áhugamál númer 1 til 3 hjá henni og þar eru hennar helstu fyrirmyndir.
Hún er sömuleiðis farin að fylgjast vel með enska boltanum og ekki minnkar áhuginn á fótbolta við það.

Hana langar að ná langt og ætlar að verða fótboltakona þegar hún verður stór.

Síðustu vikur hefur það verið að gerast að hún sé leið eftir æfingar vegna þess að henni finnst hún ekki nógu góð.
Henni finnst hún vera að dragast aftur úr og er hrædd um að hún hafi bara ekki í sér það sem þarf til þess að ná langt.
Þetta hljómar alveg fáranlega, komandi frá 10 ára gömlu barni.

Þegar ég spyr hana, þá er áhugi hennar á fótbolta ennþá sá sami.
Þetta er það skemmtilegasta sem hún gerir og hún vill alls ekki hætta.
En gleðin er að minnka og það má ekki gerast!

Draumarnir mega ekki draga okkur niður, heldur eiga þeir að hvetja okkur áfram!

Það er ekki alltaf auðvelt þegar pabbi manns er að þjálfarinn og stundum finnst mér eins og barninu mínu finnist hún vera að valda pabba sínum vonbrigðum.
Það gæti ekki verið meira fjarri sanleikanum.

Ég er endalaust stoltur af henni fyrir það að gera alltaf sitt besta, bæði á æfingum og í leikjum.
Það skiptir mig engu máli hvort hún sé í A, B eða C liði.
Auðvitað vona ég að allir hennar draumar rætist, en þetta þurfa þá líka að vera HENNAR draumar, ekki mínir.

Að barnið sé að stunda heilbrigt áhugamál sem það hefur ánægju af og styrkir hana, það að hún leggi sig fram, eignist vini og reynir alltaf sitt besta.
Hvað meira getum við foreldrarnir beðið um?

VERUM STOLT AF KRÖKKUNUM OKKAR!

Þau eru að mæta á æfingar eftir skóla, stundum alveg dauðþreytt og í öllum veðrum.
Þau eru að spila leiki og taka þátt á mótum þar sem margir tugir manna eru alveg ofaní vellinum og hvetja eða skammast með miklum látum.
Krakkarnir eru oft með hnút í maganum úr stressi fyrir þessa leiki, en við segjum þeim bara að harka af sér og gera sitt besta.

Þetta er eitthvað sem við fullorðna fólkið myndum sjálf ekki þora að gera í dag.

Þess vegna er svo ótrúlega mikilvægt að við séum dugleg að hrósa krökkunum.
Minna þau á það hvað þau eru dugleg og eru að standa sig vel.
Tökum eftir öllum litlu hlutunum sem þau gera vel!
Flott sending, frábær sprettur, góðar staðsetningar, dugleg að hvetja liðsfélaga, kurteis við mótherjan…

Verum stuðningsmenn barnanna okkar og verum montin með þau.
Þau eru nefnilega að standa sig ótrúlega vel.

Þjálfarinn hrósar krökkunum mikið.
En það toppar ekkert að fá hrós frá þeim sem standa manni næst, börnin eru nefnilega svo lúmskt mikið bara að reyna gera okkur stolt!

Það að vera ekki orðinn „bestur“ í sínum flokk 12 ára gamall, þýðir það að þú verðir aldrei nógu góður?
Alls ekki!

Í fótbolta eins og í öllu öðru er getubil barna mikið.
Það er mikilvægt að krakkarnir fái áskorun á vellinum sér við hæfi.
Sumir eru komnir lengra en aðrir og þá er mikilvægt auka áskorunina með því að td leyfa þeim að æfa með eldri krökkum.

Öll félög á Íslandi eru með sömu áhersluatriðin sem þarf að þjálfa fyrir hvern flokk.
Barn sem æfir „bara“ með sínum árgangi er ekki að dragast aftur úr, heldur er það á sínum rétta stað.

Krakkarnir eru komnir mislangt í líkamlegum og andlegum þroska.

Hér má sjá helstu þroskaeinkenni krakka.

Helstu þroskaeinkenni barna á aldrinum 3-8 ára.

– Veik vöðvauppbygging

– Erfiðleikar í samhæfðum hreyfingum

– Ójafnvægi í líkamsburði

– Lítil einbeiting

– Viðkvæmni

– Leikgleði

– Mikil hreyfiþörf

Helstu þroskaeinkenni barna á aldrinum 9-12 ára.

– Jafnvægi í líkamsburð

– Aukin vöðvamótun og vöðvastyrkur

– Mikil geta til samhæfingar og hreyfináms

– Mikið sjálfstraust

– Jákvæðni

– Félagsþroski eykst

– Löngun í árangur

– Hreyfigleði og hreyfiþörf

– Stúlkur komnar hraðar af stað en strákar í þroska og getur verið mikill stærðarmunur milli kvenna í 5. flokk

Þar sem krakkarnir eru komnir mislangt í þessu þroskaferli þá er ekkert samasem merki milli þess hvar þau eru stödd í yngri flokkum og hversu langt þau ná í framtíðinni.

Aftur á móti þá sést það oft snemma hverjir eru tilbúnir að leggja mest á sig.
Það að vera duglegur mun ávalt skila sér til framtíðar.
Þeir sem mæta á æfingar og fara eftir leiðbeiningum, eru stilltir og leggja hart að sér, hafa forskot á þá sem gera það ekki.
En stærsta forskotið hafa þeir sem hafa gaman af íþróttinni og njóta þess að vera í fótbolta.

Höldum áhuganum á lofti og leyfum krökkunum að gera það sem þau elska, pressulaust!

Deildu þessari frétt