Æfingabúðir sundgarpa í Borgarnesi

Ungmennasamband Borgarfjarðar UMSB

Garparnir í sunddeild Breiðabliks sóttu garpana í sunddeild Skallagríms heim helgina 24. – 26. mars, er það þriðja árið í röð sem þau koma í heimsókn til okkar og var ýmislegt brallað auk sundæfinganna.

Á föstudagskvöldinu var tekin sundæfing á Akranesi undir stjórn Hákons Jónssonar þjálfara Breiðabliks. Að æfingu lokið borðaði hópurinn saman á Nítjándu bistro og grill.

Á laugardagsmorgninum var æfing á þurru landi í salnum í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og sundæfing í kjölfarið.

Farið var á Landnámssetrið í hádegismat og seinni partinn var boðið upp á göngu að Glanna og í Paradísarlaut undir leiðsögn Mummu Lóu.

Um kvöldið var hópnum boðið í kvöldverð og kósýheit.

Á sunnudeginum var skellt sér í jóga og slökun áður en garparnir úr Breiðabliki héldu af stað heim á leið.

Voru öll sammála um að þetta hefði verið virkilega vel heppnuð helgi og gaman að geta boðið fólki upp á þessa frábæru aðstöðu og náttúru sem við höfum hér í Borgarbyggð. Vildu þau senda sérstakar þakkir til starfsfólks íþróttamiðstöðvarinnar í Borgarnesi fyrir hlýjar og góðar móttökur.

Gaman er að segja frá því að upp á síðkastið hefur verið virkur hópur sundgarpa við æfingar í sundlauginni í Borgarnesi undir styrkri stjórn Arnheiðar Hjörleifsdóttur. Í þeim hópi eru bæði nýir og gamlir iðkendur og standa vonir til að áframhald verði á þessu góða starfi, enda sund frábær hreyfing sem verður enn betri í góðum félagsskap.

 

 

Deildu þessari frétt