Guðrún Hildur kjörin nýr sambandsstjóri UMSB

Ungmennasamband Borgarfjarðar Badminton, Frjálsíþróttafélag Borgarfjarðar, Knattspyrna, Körfubolti, Reykdælir, Sund, UMSB

101. sambandsþing UMSB var haldið í Þinghamri þann 8. mars s.l. og sátu þar aðilar frá aðildarfélögum UMSB. Dagskrá þingsins var hefðbundin og í samræmi við lög sambandsins.

Flemming Jessen og Kristján Gíslason voru þingforsetar og Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir og Ása Erlingsdóttir ritarar, þökkum við þeim kærlega fyrir góð störf.

Styrkir voru veittir úr afrekssjóði UMSB

Sjö umsóknir bárust og hlutu allir umsækjendur styrk.

Þau sem hlutu styrk í ár voru:

Bjarki Pétursson – 175.000 krónur

Bjarni Guðmann Jónsson  – 125.000 krónur

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir  – 85.000 krónur

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir –  125.000 krónur

Kristín Eir Hauksdóttir Holaker – 85.000 krónur

Kristín Þórhallsdóttir – 175.000 krónur

Victoria Lind Kolbrúnardóttir – 85.000 krónur

Hér má sjá afreksfólkið sem hlaut styrk, frá vinstri: Bjarki Pétursson, Sigríður Bjarnadóttir f.h. Bjarna Guðmanns, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, Helga Jensína Svavarsdóttir f.h. Guðrúnar Karítasar, Kristín Eir Hauksdóttir Holaker, Kristín Þórhallsdóttir og Kolbrún Freyja Þórarinsdóttir f.h. Victoriu Lindar. 

Góðir gestir mættu á þingið og fluttu ávörp

Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri Borgarbyggðar fór yfir framkvæmdaáætlun vegna íþróttamannvirkja, Garðar Svansson kom frá ÍSÍ og flutti ávarp og kveðju frá Lárusi Blöndal, forseta ÍSÍ og Hallbera Eiríksdóttir kom frá UMFÍ, flutti ávarp og veitti heiðursmerki fyrir hönd UMFÍ.

Garðar Svansson flutti ávarp

Kristín Gunnarsdóttir hlaut Gullmerki UMFÍ en Kristín hefur verið virk innan ungmennafélagshreyfingarinnar frá barnsaldri. Hún hefur setið í stjórn UMSB og verið öflugur liðsfélagi innan ýmissa aðildarfélaga UMSB. Kristín er með héraðsdómararéttindi og hefur nær undantekningalaust staðið vaktina á þeim íþróttamótum sem haldin hafa verið í héraðinu.

Þorvaldur Jónsson, sem hlaut Hvatningarverðlaun UMSB fyrr á árinu, var sæmdur Gullmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins og fyrir að hafa staðið vaktina í tugi ára fyrir Umf. Reykdæla.

Guðmundur Finnsson hlaut Starfsmerki UMFÍ fyrir þátttöku sína í starfi Umf. Stafholtstungna en Guðmundur hefur tekið þátt í starfi þeirra frá því að hann hafði aldur til. Einnig var hann einn af stofnendum leikdeildarinnar sem stofnuð var árið 1977 og hefur margoft tekið þátt í uppfærslum leikskýninga sem leikari, sviðsmaður og tæknimaður. Að auki hefur Guðmundur verið sýningarstjóri á öllum þeim leiksýningum sem settar hafa verið upp.

 

Frá vinstri: Kristín Gunnarsdóttir, Þorvaldur Jónsson, Guðmundur Finnsson og Hallbera Eiríksdóttir.

 

Valdi fór með eftirfarandi stöku við þetta tilefni við mikinn fögnuð þinggesta:

Þrátt fyrir lífs míns hrun og hröp

hress er ég enn og glaður.

Að endingu fyrir elliglöp

er ég nú verðlaunaður.

Óskum við þremenningunum innilega til hamingju og þökkum fyrir þeirra framlag til samfélagsins í gegnum tíðina, sem hefur verið algjörlega ómetanlegt.

 

Skýrsla stjórnar, ársreikningur og tillögur 

Á þinginu var farið yfir ársreikning, skýrslu stjórnar og tillögur og sköpuðust miklar og góðar umræður í kjölfarið.

Ber þar helst að nefna umræður um úthlutunarreglur lottótekna, breytingar á starfsemi UMSB eftir að tómstundafulltrúinn fór yfir til Borgarbyggðar og aðstaða til íþróttaiðkunar fyrir þær íþróttagreinar sem eru í boði eða vilji er til að bjóða upp á.

 

Guðrún Hildur nýr sambandsstjóri UMSB

Á þinginu var kosið í stjórn UMSB. Sambandsstjóri er ávallt kjörinn til árs í senn en aðrir í stjórn til tveggja ára.

Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir sem verið hefur sambandsstjóri síðastliðin tvö ár gaf ekki áframhaldandi kost á sér sem og Rakel Guðjónsdóttir sem hefur verið meðstjórnandi frá árinu 2019.

Guðrún Hildur Þórðardóttir sem verið hefur varasambandsstjóri frá árinu 2016 var kjörin sambandsstjóri. Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir gaf áframhaldandi kost á sér sem ritari til næstu tveggja ára og Sölvi Gylfason situr áfram sem gjaldkeri eftir að hafa komið nýr inn í fyrra. Ólafur Daði Birgisson kemur nýr inn í stjórn sem varasambandsstjóri til eins árs, þar sem hann tekur við af Guðrúnu Hildi, og Elisabeth Ýr Mosbech Egilsdóttir kemur ný inn sem meðstjórnandi. Thelma Harðardóttir var kjörin varavarasambandsstjóri, í stað Borgars Páls Bragasonar sem ákvað að gefa ekki kost á sér áfram, þökkum við honum fyrir hans framlag í gegnum tíðina, og Þórhildur María Kristinsdóttir sem gaf áframhaldandi kost á sér sem varameðstjórnandi. Á sínu seinna ári eru svo Ástríður Guðmundsdóttir vararitari og  Eyjólfur Kristinn Örnólfsson varagjaldkeri.

Er nýjum sambandsstjóra og nýrri stjórn UMSB óskað til hamingju og velfarnaðar í sínu starfi.

Ársskýrsla og ársreikningur eru komin á heimasíðuna og þinggerð kemur inn á næstu dögum.

 

 

Deildu þessari frétt